Ólafur Stefánsson orti með sjónarhorn sitt á Heklu gömlu í huga: Víst má það kalla veilu, að vilja' ekki þessa keilu, sem úr Flóanum sést, því sýnin er best með Heklunni heilu og breiðu. Mér var sent gamalt Vísnatorg, sem birtist í sunnudagsblaði Mbl.

Ólafur Stefánsson orti með sjónarhorn sitt á Heklu gömlu í huga:

Víst má það kalla veilu,

að vilja' ekki þessa keilu,

sem úr Flóanum sést,

því sýnin er best

með Heklunni heilu og breiðu.

Mér var sent gamalt Vísnatorg, sem birtist í sunnudagsblaði Mbl. 21. janúar 1996. Þar segir um Látra-Björgu: „Hún var gömul og mædd og lúin, þegar hún kvað á skjáinn í Kaupangi:

Æðir fjúk um Ýmis búk

ekki er sjúkra veður:

Klæðir hnjúka hríð ómjúk

hvítum dúki meður.

Páll Guðmundsson á Hjálmstöðum kom með sína útfærslu, – ekki síður myndræna:

Næðir fjúk um beran búk

byltist skafl að hreysi.

Tunglið yfir Hekluhnjúk

hangir í reyðileysi.“

Gylfi Þorkelsson gefur á Boðnarmiði sjúkdómslýsingu sem margan plagar:

Kom á kóvid-tímum,

kæfir mál í hálsi,

höfuðverkjaharki

hendir á mig, brenndan

hitakófi, og hefur

heldur betur eldað

mér úr fúlu fyli

flensupest in versta.

Maðurinn með hattinn kvað:

Sama hvað daginn drífur á,

dæmalaust margt vill plaga.

Hér má þó alltaf hressing fá

ef hljómar í eyrum baga.

Indriði á Skjaldfönn rifjar upp limru. „Tímabær lausn“ eftir Jónu Guðmundsdóttur:

Lárus er hættur að hrjóta

þess Halldóra ætlar að njóta.

Fram úr hún fór

og fékk sér einn bjór

þegar búin var bóndann að skjóta.

Einar Kolbeinsson slær á létta strengi á fésbók:

Þó að margir þrái frið

frá þrautagöngu og krísum,

dunda ég mér daglangt við

að drekkja fólki í vísum.

Árni Geirhjörtur Jónsson er fljótur til svars:

Vísur þínar minna mig

mjög á stranga reisu

manns, sem óvænt opnar sig

eftir hjartakveisu.

Tryggvi Kvaran orti:

Þó alla hrelli Andskotinn

og engir kallinn lofi

þá brennir hann ekki bæinn sinn

sem bóndinn þarna á Hofi.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is