Þingfundur Vel var gætt að sóttvörnum á fundi Alþingis í dag og þingmenn báru grímur nema í ræðustóli.
Þingfundur Vel var gætt að sóttvörnum á fundi Alþingis í dag og þingmenn báru grímur nema í ræðustóli. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis leggur til umfangsmiklar breytingar á stjórnarfrumvarpinu um tekjufallsstyrki, svo mun fleiri geti átt rétt á þessum stuðningi en gert var ráð fyrir í frumvarpinu og jafnframt að skilyrði fyrir styrkjunum verði rýmkuð. Ef breytingatillögurnar verða samþykktar gætu tekjufallsstyrkirnir kostað ríkissjóð um eða yfir 23 milljarða kr. skv. upplýsingum Óla Björns Kárasonar, formanns nefndarinnar. Í upphaflegu frumvarpi var gert ráð fyrir að kostnaðurinn gæti orðið allt að 14,4 milljarðar.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis leggur til umfangsmiklar breytingar á stjórnarfrumvarpinu um tekjufallsstyrki, svo mun fleiri geti átt rétt á þessum stuðningi en gert var ráð fyrir í frumvarpinu og jafnframt að skilyrði fyrir styrkjunum verði rýmkuð. Ef breytingatillögurnar verða samþykktar gætu tekjufallsstyrkirnir kostað ríkissjóð um eða yfir 23 milljarða kr. skv. upplýsingum Óla Björns Kárasonar, formanns nefndarinnar. Í upphaflegu frumvarpi var gert ráð fyrir að kostnaðurinn gæti orðið allt að 14,4 milljarðar.

,,Tekjufallsstyrkirnir voru í upphafi hugsaðir fyrst og fremst fyrir einyrkja, listamenn og örfyrirtæki með þrjá starfsmenn eða færri, það er búið að víkka þá út og í raun nær frumvarpið utan um öll fyrirtæki eða rekstraraðila óháð stærð,“ segir Óli Björn.

Tekjufallsstyrkirnir eru í frumvarpinu ætlaðir einyrkjum og litlum fyrirtækjum þar sem launamenn eru þrír eða færri og hafa orðið fyrir minnst 50% tekjufalli á tímabilinu 1. apríl til 30. september sl. samanborið við sama tímabil í fyrra. Nefndin leggur hins vegar til að allir rekstraraðilar geti sótt um tekjufallsstyrk óháð starfsmannafjölda, enda uppfylli þeir önnur skilyrði fyrir styrkveitingu, m.a. um lágmarkstekjufall. Sett er ákveðið þak á styrkina í tillögum nefndarinnar og þeir eru jafnframt þrepaskiptir. Tímabilið sem miðað verði við nái til 31. október og krafan um að þeir einir geti fengið styrk sem hafa orðið fyrir meira en 50% tekjufalli verði rýmkuð þannig að rekstraraðili þurfi einungis að sýna fram á 40% tekjufall til að geta átt rétt á úrræðinu. Ef tekjufallið er á bilinu 40-70% getur tekjufallsstyrkur í hæsta lagi numið 400 þúsund kr. á hvert mánaðarlegt stöðugildi á tímabilinu og í hæsta lagi tveimur milljónum kr. á mánuði, sem nemur fimm stöðugildum. Ef tekjufallið er meira yrði hámark styrksins 500 þúsund á hvert mánaðarlegt stöðugildi.

„Samkvæmt þessu getur rekstraraðili með 40-70% tekjufall í hæsta lagi átt rétt á 14 millj. kr. tekjufallsstyrk og rekstraraðili með 70% tekjufall eða meira í hæsta lagi átt rétt á 17,5 millj. kr. tekjufallsstyrk,“ segir í nefndarálitinu.

Nefndin vill að fleiri skilyrði verði rýmkuð, m.a. að ekki þurfi að miða við sömu mánuði á síðasta ári þegar tekjufallið er reiknað, heldur geti umsækjendur valið það viðmiðunartímabil sem gefur besta mynd af raunverulegu tekjufalli þeirra. Þetta eigi t.d. við ef einyrki var í fæðingarorlofi eða veikindaleyfi stóran hluta síðasta árs sem gæfi ekki rétta mynd af því tekjufalli sem hann hefur orðið fyrir eftir að veirufaraldurinn gekk yfir.

Öll nefndin stendur að álitinu

Óli Björn segir að tekjufallsstyrkirnir geti mætt fjárhagstjóni margra og skipt verulegu máli. ,,Þarna erum við vonandi að ná utan um og létta undir með til dæmis veitingastöðum sem hafa orðið fyrir verulegu tekjufalli,“ segir hann. Einnig muni þetta úrræði skipta fyrirtæki í ferðaþjónustunni miklu máli, ekki síst smærri fyrirtæki.

Athygli vekur að allir nefndarmenn í efnahags- og viðskiptanefnd standa að breytingartillögunum og skrifa undir nefndarálitið. Smári McCarthy skrifar undir álitið með fyrirvara. Óli Björn segir að mikil og breið samstaða hafi verið í nefndinni í öllum málum sem komið hafa til kasta hennar vegna afleiðinga kórónuveirufaraldursins.

Hlutabótaleiðin verði framlengd fram á mitt næsta ár

Þrátt fyrir að löggjöf um hlutabætur heyri ekki undir efnahags- og viðskiptanefnd fjallar nefndin engu að síður um framhald hlutabótaleiðarinnar í nefndarálitinu. Leggur hún til að hlutabótaleiðin verði framlengd fram á næsta ár og að reglum um lágmarksstarfshlutfall til að geta átt rétt á hlutabótum verði breytt. Úrræðið verði fært til fyrra horfs eins og það var sl. vor þegar lögin voru upphaflega sett, þ.e.a.s. að starfshlutfall launamanns geti að lágmarki verið 25%. Óli Björn segir hlutabótaleiðina að óbreyttu renna út um næstu áramót og nefndin telji nauðsynlegt að tekin verði ákvörðun um það núna að framlengja hana a.m.k. fram á mitt næsta ár. Mikilvægt sé að auka fyrirsjáanleika um þessa leið í rekstri fyrirtækja.