Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Ekki lá fyrir í gærmorgun hvort Joe Biden, forsetaframbjóðandi demókrata, eða Donald Trump Bandaríkjaforseti hefði unnið kosningarnar þar í landi, þar sem hvorugur frambjóðandinn hafði náð að tryggja sér stuðning 270 kjörmanna af 538. Telja þurfti áfram atkvæði í sex lykilríkjum í gærdag og var ekki vitað hvenær niðurstaða myndi liggja fyrir í þeim öllum.
Það varð ljóst snemma á kosninganóttinni í hvað stefndi, þar sem gríðarmikil kjörsókn á sjálfan kjördaginn reyndist vera akkur fyrir repúblikana. Ein fyrsta vísbendingin var í Flórída-ríki, þar sem Bandaríkjamenn af kúbönskum uppruna flykktust á kjörstað og færðu Trump öruggan sigur í ríkinu. Virtist raunar af fyrstu tölum sem Biden hefði forystu, en þegar fleiri atkvæði voru talin náði Trump að síga fram úr.
Sama saga endurtók sig í nokkrum öðrum ríkjum sem demókratar höfðu eygt sigurvonir í, líkt og Norður-Karólínu og Ohio. Þá náðu repúblikanar að byggja upp mikla forystu fyrir Trump í hinu mikilvæga Pennsylvaníu-ríki, en ljóst þótti að Biden ætti þar heilmikið inni þegar utankjörfundaratkvæði væru talin. Þar munaði um það bil 600.000 atkvæðum á frambjóðendunum, en enn átti eftir að telja um eina og hálfa milljón atkvæða.
Þá var niðurstaðan í Georgíu einnig óljós, þar sem litlu munaði á Trump og Biden, en enn átti eftir að fara yfir atkvæði í stórborginni Atlanta. Trump þótti þó líklegri til þess að hafa betur þar.
Sakaði demókrata um svindl
Trump ávarpaði stuðningsmenn sína seint á kosninganótt og lýsti þar yfir sigri sínum, þrátt fyrir að staðan væri enn óljós, og enn ætti eftir að telja milljónir löglega greiddra atkvæða. Kallaði forsetinn eftir því að talningu atkvæða yrði hætt og sakaði hann demókrata um að reyna að „stela“ sigrinum og hét því að farið yrði með málið til Hæstaréttar.Talsmaður Bidens sagði yfirlýsingu Trumps vera „svívirðilega“ og að forsetinn væri að reyna að taka kosningarétt Bandaríkjamanna af þeim. Hét framboð Bidens því að lögfræðingar þess væru tilbúnir að verjast öllum tilraunum til þess að stöðva talninguna.
Eftir því sem leið á talningu atkvæða í gær vænkaðist hagur Bidens, og náði hann til að mynda naumri forystu í Michigan eftir að utankjörfundaratkvæði í Detroit voru talin.
Nær öruggt var svo talið að Arizona, sem venjulega hefur stutt repúblikana, myndi kjósa Biden, en demókratinn og geimfarinn Mark Kelly hafði einnig betur í kapphlaupinu þar um öldungadeildarþingsæti.
Vonbrigði fyrir demókrata
Engu að síður þótti kosninganóttin mikil vonbrigði fyrir demókrata, en þeir höfðu eygt vonir um að ná undir sig báðum deildum Bandaríkjaþings, en flesti benti til að repúblikanar myndu halda meirihluta sínum í öldungadeildinni, en að vísu naumlega.Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í öldungadeildinni, sagði hins vegar á blaðamannafundi sínum í gær, að þó að repúblikanar hefðu staðið sig framar vonum væri ljóst að flokkurinn þyrfti að standa sig betur í að sækja stuðning til úthverfa, kvenna og háskólamenntaðra.