Stefán Þórhallsson fæddist 17. apríl 1931. Hann lést 8. október 2020.

Útför Stefáns fór fram í kyrrþey hinn 16. október 2020.

Staðfastur, trúr, tryggur, vandvirkur, hæglátur, réttsýnn, ósérhlífinn, jafnlyndur, þrjóskur, þakklátur, minnugur, sáttur við sitt.

Afi var alltaf eins, hann skipti ekki skapi, með báða fætur blýfasta við jörð. Ef amma var að svífa upp þá togaði afi hana mjúklega niður. Þau voru ólík en mynduðu fullkomna heild sem alltaf tók manni opnum örmum. Það voru forréttindi eiga að einmitt þessa ömmu og þennan afa.

Sem lítil stelpa fékk ég að skottast með afa í öllu sem hann tók sér fyrir hendur, bæði í leik og starfi. Ég á sterka minningu um það þegar það koma tölva og prentari í vigtaraskúrinn. Afi lærði á það um leið og ég man að mér fannst hann magnaður, gat prentað út og skráð inn án vandræða.

Á ferðalögum um landið með ömmu og afa lærðist manni mjög ungum að hlusta frekar á afa varðandi áttir, amma talaði í áttum en yfirleitt ekki í sömu áttum og afi. Afi var ótrúlega góður í landafræði, hver þúfa og hvert fjall átti nafn langt út fyrir hans heimasveit. Afi var trúr sínum heimahögum og tók virkan þátt í samfélaginu og lét gott af sér leiða.

Ferðalögin innanlands með ömmu og afa einkenndust af miklu nesti, ölflösku, tjaldkerru, Subaru og sléttri laut. Sjaldnast var gist á tjaldstæðum. En í sumar rifjaði afi upp verðið á tjaldstæðum fyrir um það bil 20 árum, það mundi hann. Eins og allt annað, stálminnugur fram á síðasta dag. Hann hafði það fyrir venju að punkta hjá sér í litla vasabók, þar skráði hann það helsta sem á dagana dreif.

Afi var alltaf að dúlla eitthvað í skúrnum, hann gat smíðað allt. Ég laumaði stundum að honum hugmyndum um eitt og annað sem mig vantaði og svo útfærðum við hugmyndirnar saman. Það voru miklar gæðastundir. Hann töfraði fram hvert verkið á fætur öðru, náttborðin, rúmgaflinn, kollana, hliðarborðið og margt fleira. Einn hlutur á stóran þátt í lífi allra barnanna í fjölskyldunni og það er rugguhesturinn sem afi smíðaði handa mér þegar ég fæddist.

Afi hafði góða og þægilega nærveru, glotti út í annað og blístraði um leið og hann dúllaði við verkin. Hann gat allt, gerði við hvað sem var og fannst bruðl og óþarfi að kaupa nýtt. Afi hafði þolinmæði og sýndi börnum virðingu og fengu allir að bjástra með honum, aldrei var neinn fyrir. Hann náði fólki og börnum með sér án þess að ætlast til neins. Í nokkur ár borðaði ég súrsaða selshreifa honum til samlætis. Siginn fiskur, reyktur og steiktur rauðmagi, hákarl, harðfiskur, kæst skata eða tindabikkja og fleira sjávarfang verður ekki eins gott án afa og jafnvel ekki á boðstólum.

Leggja net, dorga á bryggjunni, fara í Sandvíkina, spila, teikna og lita gerði hann með okkur krökkunum með bros á vör, alltaf. Oft að eigin frumkvæði. Afi þekkti miðin vel og vissi alltaf hvar og hvenær væri von.

Húsið þeirra ömmu byggði hann frá grunni og allt innbúið var eftir afa, hagleikssmiður, vandvirkur og útsjónarsamur.

Hann var fastur liður í tilverunni og án hans verður allt skrítið. Ömmu- og afahús verður öðruvísi, allt er breytt.

Afi kvaddi sáttur við sitt.

Hvíldu í friði, elsku besta afakrútt.

Þín

Arna.