Fjórða árið í röð hyggjast stjórnvöld skerða rekstrarfé til hjúkrunarheimila með svonefndri aðhaldskröfu. Að endingu mun ríkið greiða um 2,3 milljörðum króna minna til rekstrar hjúkrunarheimila og dagdvala á tímabilinu frá 2018 til 2021 þrátt fyrir að sífellt veikari einstaklingar flytjist til heimilanna á hverju ári samfara mjög stífri forgangsröðun. Gert er ráð fyrir auknum fjárveitingum til heilbrigðisþjónustu á vegum ríkisins á árinu 2021, þó ekki til sjálfstætt starfandi hjúkrunarheimila þótt þau sinni lögbundinni þjónustu fyrir hönd ríkisins. Því verður ekki hjá því komist að krefja heilbrigðisráðherra um svör við því hvar hann vilji skera niður í þjónustu við íbúa. Vilja stjórnvöld t.d. draga úr læknis- og hjúkrunarþjónustu heimilanna og að þess í stað verði veikir íbúar sendir á sjúkrahús? Eða hvar eiga þeir að búa sem þurfa mikla umönnun? Eiga heimilin að leggja niður tómstundarstarf í þágu íbúa og segja því starfsfólki upp störfum sem sinnir því mikilvæga starfi? Eða ætti að leggja niður heilsueflandi starf í formi sjúkra- og iðjuþjálfunar í þágu aukinna lífsgæða og sjálfsbjargar? Ráðherra verður að svara því hvar eigi að spara til samræmis við stöðugan niðurskurð fjárveitinga.
Engar álagsgreiðslur til hjúkrunar-heimila vegna Covid-19
Ríkisvaldinu finnst greinilega ekki nægja að skerða árlegar fjárveitingar til hjúkrunarheimilanna heldur hafa heimilin einnig verið algerlega sniðgengin í aukafjárveitingum vegna aukins kostaðar sem hlotist hefur af vegna veirufaraldursins. Sá viðbótarkostnaður mun að öllum líkindum vara allt næsta ár og nema nokkur hundruð milljónum króna vegna aukinna sóttvarna, sótthólfa, sóttkvía starfsfólks og íbúa og fleiri þátta. Slíkt kallar á stífari verkferla á mörgum sviðum starfseminnar rétt eins og raunin er t.d. á Landspítalanum, en þar hefur fjárveitingavaldið lofað spítalanum viðbótarframlögum en ekki hjúkrunarheimilunum. Til að toppa framkomu heilbrigðisráðherra gagnvart hjúkrunarheimilunum ákvað ráðherra einnig að greiða milljarð til handa starfsfólki heilbrigðisþjónustu ríkisins vegna Covid-19. Annað heilbrigðisstarfsfólk í velferðarþjónustunni virðist ekki eiga slíka umbun skilda þrátt fyrir að hafa staðið sig framúrskarandi vel við að vernda viðkvæman hóp íbúa fyrir veirunni, ekki bara á íslenskan mælikvarða heldur einnig á heimsmælikvarða. Í þessu samhengi er líka áhugavert að velta því fyrir sér hvers vegna Vífilsstaðir, sem Landspítalinn rekur sem biðdeild eftir varanlegu hjúkrunarrými, fá nærri 40% hærri daggjöld á sólarhring en önnur hjúkrunarheimili sem veita þó mun meiri og betri þjónustu en unnt er að veita á Vífilsstöðum.
Hvaða skilaboð er verið að senda?
Við sem störfum að öldrunarmálum, sem eru órjúfanlegur og mikilvægur þáttur heilbrigðisþjónustunnar í landinu, erum að vonum döpur yfir þeirri sniðgöngu sem heilbrigðisyfirvöld sýna hjúkrunarheimilunum, íbúum þeirra og starfsfólki. Hvaða skilaboð eru stjórnvöld að senda? Ef það er vilji stjórnvalda að sjálfstætt starfandi hjúkrunarheimili hætti starfsemi og ríkið taki yfir reksturinn væri heiðarlegast að segja það beint út og skilmerkilega í stað þess að svelta þau til uppgjafar með sífelldum skerðingum. Við skorum því á stjórnmálaflokkana að efna fögur fyrirheit á sviði öldrunarmála. Við viljum vera bjartsýn og trúa á heiðarleika stjórnmálamanna í þeirri von að stjórnvöld efni þau fyrirheit sem gefin voru í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur um að hugað yrði að því að styrkja rekstrargrundvöll hjúkrunarheimilanna. Raunin er að þveröfugt hefur verið farið að í þeim efnum.Höfundar eru formaður sjómannadagsráðs og forstjóri Hrafnistu.