Héraðsdómur Reykjavíkur hefur vísað frá stefnu sem 365 ehf., Ingibjörg S. Pálmadóttir og Jón Ásgeir Jóhannesson höfðu lagt fram gegn Sýn hf., framkvæmdastjóra og tilteknum stjórnarmönnum þar sem þau kröfðust greiðslu eins milljarðs fyrir hvern stefnanda. Sneri málið að meintum vanefndum í tengslum við kaup Sýnar á tilteknum eignum 365. Í árshlutareikningi Sýnar segir að niðurstaða héraðsdóms hafi verið að annmarkar hafi verið á málatilbúnaði, dómkröfur stefnenda óljósar og óskýrar . Hafa stefnendur áfrýjað niðurstöðu dómstólsins.
Enn er rekið fyrir héraðsdómi mál Sýnar gegn þremenningunum þar sem þau eru krafin um greiðslu skaðabóta vegna meintra brota á ákvæðum í kaupsamningi vegna fyrrnefndra viðskipta. Dómkrafa Sýnar nemur um 1,7 milljörðum auk dráttarvaxta.