Hjólreiðar Útivera og hófleg áreynsla er mikilvæg geðheilsu.
Hjólreiðar Útivera og hófleg áreynsla er mikilvæg geðheilsu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Í næstu viku afhenda fulltrúar Geðhjálpar stjórnvöldum undirskriftalista þar sem skorað er á stjórnvöld og samfélagið allt að setja geðheilsu í forgang. Söfnun þessi, sem er á vefslóðinni 39.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Í næstu viku afhenda fulltrúar Geðhjálpar stjórnvöldum undirskriftalista þar sem skorað er á stjórnvöld og samfélagið allt að setja geðheilsu í forgang. Söfnun þessi, sem er á vefslóðinni 39.is , verður í loftinu fram á sunnudagkvöld og í gær höfðu rúmlega 30.000 manns skrifað nafn sitt þar. Einnig verður kynnt aðgerðaáætlun Geðhjálpar í níu liðum, allt atriði sem skipta miklu máli.

Gefa geði gaum á veirutíma

Á síðasta ári sviptu alls 39 manns á Íslandi sig lífi en sú tala er líka meðaltal sjálfsvíga á ári síðastliðinn áratug. Af tölunni er titill söfnunar undirskrifta fenginn.

„Við teljum að nú sé lag og hljómgrunnur úti í þjóðfélaginu fyrir úrbótum í geðheilbrigðismálum,“ segir Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, í samtali við Morgunblaðið. „Aðstæður undanfarið hafa verið erfiðar, einangrun og röskun á daglegu lífi vegna kórónuveirunnar tekur á og hefur áhrif á líf allra. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO , gaf þau skilaboð út strax í upphafi heimsfaraldursins að gefa þyrfti geðheilbrigðismálum gaum rétt eins og gert hefur verið. Geðheilsa ætti alltaf að vera í forgangi. Nú horfum við til janúar- og febrúarmánaða, þessa dimma tímabils þegar reynir á líf og líðan margra.“

Umhverfi og samfélag sterkir áhrifaþættir

Ný stjórn var kjörin í Geðhjálp fyrr á þessu ári og Elín Ebba Ásmundsdóttir iðjuþjálfi á þar sæti. Stjórnarfólk segir hún strax þegar það tók við keflinu hafa ákveðið að vera framsækið og taka frumkvæði í umræðu. Vekja athygli á orsakaþáttum geðheilbrigðis; því hve miklu umhverfi og samfélag ráði um geðheilsu.

„Samfélaginu verður í krafti reynslu og rannsókna sífellt betur ljóst hvað fyrstu 1.000 dagarnir í lífi barns skipta miklu máli um líf þess, heilsu og þroska. Þar verður að stíga fastar inn með ráðgjöf og stuðning og veita fjölskyldum aðstoð ef þarf. Einnig að fræða verðandi foreldra um mikilvægi tengslamyndunar í lífi barnsins. Skólagangan hefur líka afgerandi áhrif og því þarf geðfræðsla að vera hluti af skólastarfi,“ segir Elín Ebba. „Þetta helst í hendur við margvíslegar aðrar breytingar sem þurfa að verða. Bæði atvinnulífið og skólakerfið hafa hingað til að verulegu leyti miðast við þarfir framleiðslu sem setja fólk í kassa og undir ákveðin viðmið. Nú þarf nýja nálgun.“

Vilja geðsvið í ný húsakynni

Geðrænar áskoranir eru nærri þriðjungur allra þeirra verkefna sem heilbrigðisþjónustan í landinu sinnir, þótt málaflokkurinn sjálfur taki aðeins tíund fjárveitinga. Ýmsu í þessari þjónustu þarf að breyta að mati Geðhjálpar eins og tilgreint er í þeim níu punktum til aðgerða sem samtökin setja fram. Auka þurfi fjárveitingar til þessa sviðs heilbrigðismála og breyta starfsemi heilsugæslunnar, svo liðsinni sálfræðinga, félagsfræðinga, iðjuþjálfa og annarra verði jafnsett til dæmis þjónustu lækna. Sömuleiðis sé brýnt að starfsemi geðsviðs Landspítala verði færð í ný húsakynni.

„Núverandi hús, við Hringbraut og Elliðaárvog, eru engum bjóðandi, hvorki sjúklingum né starfsfólki. Eru kuldaleg, fráhrindandi og byggð samkvæmt öðrum viðmiðum en nú gilda. Jafnframt þarf að huga að innihaldi og hugmyndafræði meðferðar. Geðþjónustu þarf að færa út í samfélagið og koma betur til móts við notendur á þeirra eigin forsendum. Einnig að sett verði á laggirnar svonefnt geðráð; vettvangur samráðs sem bæði verður stefnumarkandi og aðhald í aðgerðum í þessum málaflokki. Það er síðan algjört forgangsmál innan Geðhjálpar að hvers kyns nauðung og þvingun við meðferð verði útilokuð.“

Afhelguð tala

Að 39 manns svipti sig lífi á ári hverju þykir ógnvekjandi staðreynd og miðað við önnur lönd er Ísland þar í hærri kantinum. „Fjöldi sjálfsvíga getur verið mælikvarði á geðheilsu og þessa tölu viljum við afhelga, ef svo má að orði komast. Mæta þarf staðreyndum og bregðast við. Sjálfsvíg hafa jafnan mikil áhrif á fjölskyldu og vini hins látna og valda miklu heilsutjóni þeirra. Því er mikilvægt að beina sjónum að orsakaþáttum geðheilsu,“ tiltekur Grímur Atlason og segir að lokum:

„Að fólk sé ekki virkt, einangri sig og taki ekki þátt í samfélaginu eins og fjöldinn gerir er samfélaginu dýrt – og þá ekki bara í peningum talið. Þarna þarf að gera betur og nú þegar aðstæður í samfélaginu eru mjög óvenjulegar ættu augu fólks að vera opin fyrir þessum veruleika. Nú er tæplega ár til kosninga og því ættu stjórnmálaflokkar að vera tilbúnir að taka geðheilbrigðismál til umfjöllunar og setja í stefnuskrá sína. Við væntum því mikillar umræðu í tengslum við 39.is og í raun hefur hún strax komið af stað vitundarvakningu um mikilvæg málefni sem alls ekki mega gleymast í önn dagsins.“

Fræðsla til foreldra og geðrækt í skóla

Áherslumál Geðhjálpar í tengslum við 39.is

• Heildarúttekt á umfangi og framkvæmd geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi. Nauðsynlegt svo hægt sé að ná utan um málaflokkinn og auka samhæfingu þeirra þriggja stoða sem eru á hendi ríkis, það er sjúkrahúsa, heilsugæslu og sérfræðiþjónustu. Úttektin taki einnig til þjónustu sveitarfélaga.

• Heilsugæslan sé efld sem fyrsti viðkomustaður. Geðheilsuteymi heilsugæslunnar geta verið ákveðin fyrirmynd að þjónustu. Innan heilsugæslunnar starfi félagsráðgjafar, notendafulltrúar, iðjuþjálfar, þroskaþjálfar og fleiri stéttir.

• Auka stuðning og fræðslu fyrir foreldra, það er mæðraeftirlit, foreldrafræðslu og ungbarnaeftirlit, til að fræða foreldra um mikilvægi tengslamyndunar fyrstu 1.000 dagana í tilveru hvers barns.

• Hefja niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu, samkvæmt samþykkt Alþingis. Fjármögnun er óútfærð.

• Geðrækt sé hluti af aðalnámskrá grunnskóla og kennd á menntavísindasviði til að styðja við getu kennara við að miðla þessari fræðslu.

• Fjölga atvinnutækifærum fyrir ungmenni og fólk með geðrænar áskoranir Á aldrinum 16 til 18 ára er umtalsvert brottfall úr námi og virkni oft lítil meðal ungmenna, sem hefur slæm áhrif á geðheilsu.

• Byggja nýtt húsnæði geðsviðs LSH og endurskoða hugmyndafræði og innihald meðferðar, svo sem koma á fót lyfjalausum deildum. Áherslur Geðhjálpar miða að því að það heyri til undantekninga í framtíðinni að þurfa að leggjast inn á geðdeildir sjúkrahúsa.

• Útilokun á nauðung og þvingun við meðferð. Ísland hefur enn ekki lögfest samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en nauðungar- og þvingunaraðferðir eru óheimilar.

• Koma á fót geðráði, samráðsvettvangi um geðheilbrigðismál. Ráðinu er ætlað að fá alla að sama borðinu; stjórnvöld, fagfólk, notendur og aðstandendur, til þess að fjalla á hlutlægan hátt um málaflokkinn og leggja grunn að stefnumótun og aðgerðum.