[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrsta breiðskífa Ingibjargar Elsu Turchi.

Fyrsta breiðskífa Ingibjargar Elsu Turchi. Ingibjörg leikur á rafbassa en aðrir flytjendur eru Hróðmar Sigurðsson á rafgítar, Magnús Trygvason Elíassen á trommur og slagverk, Magnús Jóhann Ragnarsson á flygil, rhodes-píanó, mellotron og víbrafón og Tumi Árnason á tenórsaxófón, klarínett og elektrónik. Upptökur fóru fram í Sundlauginni 27. – 28. september 2019 og Birgir Jón Birgisson stjórnaði upptökum. Um hljóðblöndun og hljómjöfnun sá Ívar Ragnarsson. Plötuumslag var í höndum Klöru Arnalds. Reykjavík Record Shop gaf út hinn 2. júlí 2020.

Bassaleikarinn Ingibjörg E. Turchi hefur komið víða við í íslensku tónlistarlífi á síðustu árum. Sumir þekkja hana ef til vill úr hinni ofurhressu ballhljómsveit Babies en einnig hefur hún tekið að sér bassaleik með stjörnum á borð við Stuðmenn, Bubba Morthens, Soffíu Björgu og Teit Magnússon, svo eitthvað sé nefnt. Hennar fyrsta frumsamda tónlist kom út á þröngskífunni Wood/Work árið 2017 en það er hennar fyrsta breiðskífa, Meliae sem hér er til umfjöllunar og kom hún út í ár.

Strax í fyrsta lagi plötunnar birtist þessi hlýja og mjúka bassamotta sem umvefur eyru hlustenda og býr undir skemmtilegt ferðalag með alls kyns útskotum og óvæntum uppákomum. Fyrsta lagið, „Twin“, er inngangur að því sem koma skal á þessari níu laga tæplega 50 mínútna löngu plötu. Bassinn er rauði þráðurinn í teppinu en samspil tromma, saxófóns, hljómborða og gítars, ásamt alls kyns ískri og hljóðum, er nauðsynlegt heildarútkomunni. Elsa smalar öllum saman og kemur á beinu brautina aftur þegar hljóðfærin hafa reikað um víðan völl og allt virðist vera að fara úr böndunum. Hún hefur töglin og hagldirnar, leysir upp og bindur saman, bregst við hinu óvænta, breiðir út teppi og rekur það upp, allt eftir þörfum.

Að mínu mati er Meliae engan veginn til þess fallin að hlusta á eitt og eitt lag, heldur er hún ferðalag, eða kannski samansafn af tónsögum, sem hefst með „Twin“ og lýkur með lokalaginu „Hydra“. Ingibjörg hefur lagt stund á og kennt forngrísku og því eru nöfn plötunnar og sumra laganna sótt í brunn grísku og goðafræði. Meliae er til dæmis nafn á goðsagnakenndri veru sem verður til úr blóði Úranusar og er tengt Eskitré, sem er einmitt sama tréð og Askur Yggdrasils, og er þekkt úr norrænni goðafræði. Nafn lagsins „Elefþería“ merkir frelsi á grísku, og „Hydra“ er heiti marghöfða skepnu sem býr svo vel að á hana vaxa ný höfuð ef þau eru sneidd af.

Nú veit ég ekki hversu djúpt þetta er hjá Elsu, en vel mætti setja þetta í samhengi við goðsagnir sem gjarnan eru táknmyndir fyrir hið raunverulega í mannheimum. Það gefur auga leið að ekki er hægt að leika svona tilraunakenndan djass öðruvísi en að tileinka sér frelsið og hin marghöfða skepna sem er ódrepandi því á hana vaxa ávallt ný höfuð er gott tákn fyrir það að gefast aldrei upp og að tileinka sér aðlögunarhæfni. Allt þetta eru þó einungis vangaveltur mínar sökum forvitni og þrá til að skyggnast undir yfirborðið og uppgötva. Að öllum líkindum er það kannski einmitt það sem Elsa er að benda á með því að nota óræð nöfn. Það dýpkar og bætir við. Útkoman er vægast sagt framandi og spennandi en samt jarðtengd, og jafnvel umslag plötunnar styður við þá hugmynd þar sem sjá má tré umvafið þoku. Í árferði dagsins í dag þar sem gott er að kunna að ferðast innanhúss er prýðishugmynd að skella svona verki á fóninn.

Ragnheiður Eiríksdóttir

Höf.: Ragnheiður Eiríksdóttir