Samherji hefur gert öðrum hluthöfum Eimskipafélagsins yfirtökutilboð í samræmi við lög en eftir að fyrirtækið eignaðist meira en 30% í skipafélaginu bar því að leggja slíkt tilboð fram.
Samherji hefur gert öðrum hluthöfum Eimskipafélagsins yfirtökutilboð í samræmi við lög en eftir að fyrirtækið eignaðist meira en 30% í skipafélaginu bar því að leggja slíkt tilboð fram. Samkvæmt tilboðinu er Samherji reiðubúinn að greiða 175 krónur fyrir hvern hlut í Eimskipafélaginu. Er það talsvert lægra verð en markaðurinn hafði ákvarðað við lokun Kauphallarinnar á miðvikudag. Þá stóðu bréf félagsins í 188,5 krónum á hlut. Í tilkynningu frá Samherja kemur fram að tilboðið byggi á sama verði og Samherji greiddi fyrir 0,29% hlut í félaginu þann 21. október síðastliðinn en í þeim viðskiptum myndaðist skylda til framlagningar yfirtökutilboðs. Lækkuðu bréf Eimskipafélagsins í viðskiptum gærdagsins um 1,3% og standa því í 186 krónum á hlut.