Sigurður Ingólfsson
Sigurður Ingólfsson
Eftir Sigurð Ingólfsson: "Sveitakirkjur voru ekki bara hús fyrir skylduræknismessur heldur staður þar sem ólíkt fólk kom saman"

Heill og sæll Werner. Hinn 16. október skrifar þú grein í Morgunblaðið um aðskilnað ríkis og kirkju. Ég ætla ekkert að minnast á það, sem er auðvitað argasti dónaskapur og bið ég forláts, en beina augum að öðru í annars vel skrifaðri grein. Það ber að taka fram að þótt ég sé guðfræðinemi, þá tala ég ekki fyrir hönd neins innan kirkjunnar.

Þú víkur máli þínu meðal annars að „ miður æskilegum trúarbrögðum“. Nokkuð sem ég á erfitt með að skilja. Fyrir mér er trú að öllu leyti af hinu góða, þar sem hún veitir von sem er nauðsynleg í daglegu lífi þegar allt virðist bresta. Trúarbrögð og iðkun þeirra er svo allt annað mál. Flest trúarbrögð hafa einhvers staðar skilið eftir sig blóði drifna slóð. Oftar en ekki er þar um að ræða einhvers konar alræðispólitík sem kemur trú ekki við. Kristnir eiga krossferðirnar, sem var blóðbað á báða bóga þangað til arabísk herkænska fór með sigur af hólmi. Auðvitað má fabúlera um að hlutverk krossferðanna hafi verið að komast yfir hinn heilaga Gral, það hafi tekist og nú sé hann falinn, jafnvel á Íslandi. Hvað sem því líður voru krossferðirnar blóðugt stríð, byggt á stolti kónga, keisara og páfa Síðast má nefna Filippus fríða sem allir frímúrarar þekkja af einu sérstöku sögulegu atviki, þegar Jaques de Molay, æðsti maður musterisriddaranna, var brenndur árið 1314. Einnig mætti nefna hið tryllta stríð sem fór um Evrópu í kringum siðaskiptin, það var heldur en ekki geðslegt.

Annað virðist þér hugleikið, en það er niðurfelling kristinfræðinnar. Sjálfum fannst mér þetta heimskulegt um árið, en við nánari ígrundun virðist mér sem almenn trúfræðsla sé af hinu góða. Þó ekki væri nema í sagnfræðilegum skilningi. Þar má sýna fram á hvað tengir trúarbrögðin og hvað ekki. Hvar er beitt ofbeldi og hvar ekki. Trúarbrögðin eiga nefnilega miklu fleira sammerkt en fólk heldur. Hvort sem um er að ræða íslamska eða kristna öfgabrjálæðinga þá eiga þeir lítið sem ekkert sameiginlegt þeirri trú sem þeir segjast iðka. Kóraninn og upphaf hans sýnir virðingu kristnum og gyðingum og Jesús er nefndur mun oftar í Kóraninum en Múhameð. Sameiginleg trúarbragðafræðsla, með börn af ýmsu þjóðerni, gæti verið gott skref til að styrkja samhug með Íslendingum og fólki af öðru þjóðerni. Kirkjan glatar engu á því og þá er komið að máli málanna. Staða kirkjunnar í íslensku þjóðfélagi. Kannski stendur kirkjan illa og fólki finnst flott að ganga úr þjóðkirkjunni. Þetta hefur fylgt Íslendingum frá því þeir tóku kristni, en máttu blóta goðin í leyni. Þarna er um að ræða tvískinnung sem er mjög áberandi í fari Íslendinga. Kirkjan er fín fyrir jarðarfarir og skírn og brúðkaup en að öðru leyti er eins og kirkjan komi mörgum ekki við. Þar er við margt að sakast. Vissulega hafa komið tímar þar sem kirkjan er í lægð, en höfuðborgarbúar mega stundum líta aðeins út fyrir þessa borg á gelgjuskeiði. Sveitakirkjur voru ekki bara hús fyrir skylduræknismessur heldur staður þar sem ólíkt fólk kom saman að fá svolítið ljós í miðju skammdeginu, vonarneisti í kafaldsbylnum og myrkrinu. Íslendingar þurfa á birtu að halda yfir vetrarmánuðina, þar býður kirkjan, eða á að gera það, þreyttum skjól og öðrum ljós. Það þarf bara stundum að auka ljósið á týrunni.

Fermingin sem trúlausir framkvæma er svo annað mál. Lítið svo sem við hana að athuga nema nafnið. Hvað eru unglingarnir að staðfesta (confirmatio)? Inngöngu í söfnuð trúlausra sem þeir hafa þá ekki verið skírðir til. Það er einhver þversögn í þessari „borgaralegu fermingu“ sem mætti alveg útskýra fyrir mér.

Hvað varðar ásatrúarmenn, þá sé ég lítið athugavert við að fólk sinni þessari trú, sem í raun var trú á náttúruna og náttúruöflin og á stundum lítið sameiginlegt með því sem hinn kristni Snorri Sturluson setti á blað, með biblíulegum heimsendi og „nýrri Jerúsalem“. Fleiri mættu að ósekju vera meðvitaðri um jörðina sem við fáum að ganga á.

Eins og þú sérð er þetta lettersbréf meira spjall en eitthvert rifrildi, en einmitt þannig gerast hlutirnir.

Höfundur er guðfræðinemi og skáld. drsiggi@gmail.com

Höf.: Sigurð Ingólfsson