Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Eftir Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson: "„Stórfelld jarðskjálftahrina mjög nálægt fyrirhuguðu flugvallarstæði i Hvassahrauni hefur séð til þess að meirihlutinn neyðist til að hlusta“"

Leiðangur núverandi meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur í málefnum Reykjavíkurflugvallar og þeirri stefnumörkun hans að flytja innanlandsflugið og kennslu- og einkaflug á flugvöll sem byggður yrði í Hvassahrauni hefur verið vandræðalegur og fálmkenndur.

Þar hefur ríkt algjör einstefna, ekkert hlustað á gagnrýnisraddir og lítið sem ekkert samráð verið haft við rekstraraðila á svæðinu. Einnig má nefna að hvorki formleg kynning né viðræður hafa átt sér stað við bæjarstjórn Hafnarfjarðar eða leitað álits bæjarstjórnarinnar varðandi þetta mál.

Alvarlegar aðvaranir hunsaðar

Meirihlutinn hefur aldrei hlustað á viðvaranir flugmanna og helstu sérfræðinga þjóðarinnar í flugmálum um að Hvassahraunið væri afar varhugavert sem flugvallarstæði, bæði vegna veðurfars og jarðskjálftahættu.

Stórfelld jarðskjálftahrina mjög nálægt fyrirhuguðu flugvallastæði í Hvassahrauni hefur séð til þess að meirihlutinn neyðist til að hlusta. Nú verður ekki lengur hægt að hunsa alvarlegar viðvaranir fyrrgreindra aðila á þeim hættulegu aðstæðum sem þetta svæði býr við.

Sú stefna að flytja innanlandsflugið á flugvöll í Hvassahrauni, sem áætlað er að kosti skattgreiðendur 44 milljarða króna, er nú í ljósi stórs jarðskjálfta, 5,6 stig, skammt frá fyrirhuguðu flugvallarstæði í Hvassahrauni, lítils virði og merkingarlaus.

Það sem skynsamlegast væri að gera nú, ekki síst í ljósi síðustu atburða, væri að hverfa frá öllum áformum um flugvöll fyrir innanlandsflugið í Hvassahrauni og spara skattgreiðendum í nútíð og framtíð marga tugi milljarða.

Vegferðin hófst 2001

Öll vegferð vinstrimanna í borgarstjórn Reykjavíkur allt frá 2001 um að flytja flugvöllinn eitthvað annað, nú í Hvassahraun, hefur kostað borgarsjóð hundruð milljóna króna. Enn fremur hefur sífelldur hringlandaháttur í málefnum Reykjavíkurflugvallar frestað byggingu nýrrar flugstöðvar í áratugi og auk þess valdið margvíslegum erfiðleikum í rekstri flugvallarins.

Þessi vegferð hófst árið 2001 með almennri kosningu íbúa Reykjavíkur. Kosningareglur voru þær að 75% atkvæðisbærra kjósenda í Reykjavík yrðu að kjósa eða yfir 50% þátttakenda í kosningunni tækju sömu afstöðu til að kosningarnar yrðu gildar. Hvorugt gerðist, en samt hefur verið haldið áfram 20 ára óvissuferð með flugvöllinn.

Einungis rúm 37% atkvæðisbærra kjósenda í Reykjavík kusu. Af þeim 30.219 sem tóku þátt í kosningunni vildu 14.913 eða 49,3% að flugvöllurinn yrði fluttur annað, en 14.529 eða 48,1% að flugvöllurinn yrði áfram í Vatnsmýrinni.

Nú, 20 árum síðar, er enn byggt á þessari niðurstöðu, en í nýlegum drögum að breytingum á aðalskipulagi Reykjavíkur segir m.a.: „Metið verður hvort ástæða er til að endurskoða tímaákvæðin (þ.e. vegna tímabundinnar heimildar um starfsemi flugvallar í Vatnsmýri) þegar fyrri áfanga rannsókna í Hvassahrauni er lokið í lok ársins 2022 og svo aftur í lok árs 2024 þegar fullnægjandi rannsóknir og frumhönnun nýs flugvallar liggur fyrir, sbr. 5. grein samkomulags um byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni.“

Líklegt er að nú mæli fáir með því að flugvöllur fyrir innanlandsflug verði byggður í Hvassahrauni, nema þá helst borgarfulltrúar meirihlutans í Reykjavík og einhverjir áhangendur hans, sem styðja meirihlutann í þessu máli.

Fróðlegt verður að fylgjast með því á næstu mánuðum hvernig meirihlutinn í Reykjavík ætlar að telja kjósendum trú um að flugvöllur í Hvassahrauni sé góður kostur.

Höfundur er fv. borgarstjóri.