[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Kostnaður við umönnun heimilisfólks á hjúkrunarheimilum hefur aukist og daggjöldin sem Sjúkratryggingar greiða standa ekki undir kostnaði. Meira að segja sjálfseignarstofnanirnar sem eru með mörg heimili og hundruð hjúkrunarplássa ná ekki endum saman og kanna leiðir til að komast út. Niðurstöður hóps sem greinir raungögn um rekstur og rekstrarkostnað hjúkrunarheimila eru ekki væntanlegar á næstunni.

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Kostnaður við umönnun heimilisfólks á hjúkrunarheimilum hefur aukist og daggjöldin sem Sjúkratryggingar greiða standa ekki undir kostnaði. Meira að segja sjálfseignarstofnanirnar sem eru með mörg heimili og hundruð hjúkrunarplássa ná ekki endum saman og kanna leiðir til að komast út. Niðurstöður hóps sem greinir raungögn um rekstur og rekstrarkostnað hjúkrunarheimila eru ekki væntanlegar á næstunni.

Nú eru starfrækt 65 hjúkrunarheimili á landinu. Þau eru með 2.747 almenn hjúkrunarrými, 147 sérhæfð hjúkrunarrými svo sem geðhjúkrunar- og endurhæfingarrými og nokkur eru með fáein dvalarrými en þeim hefur farið mjög fækkandi. Alls eru rýmin 3.073, miðað við tölur frá síðasta ári þegar bætt hefur verið við nýjum heimilum.

Hjúkrunarheimilin eru ákaflega misjöfn að stærð, allt frá því að vera með fimm heimilismenn og upp í 193.

Rekstrareiningarnar eru mun færri því stóru hjúkrunarheimilin á suðvesturlandi, Hrafnista og Grund, hafa mörg heimili undir sínum hatti. Hrafnista hefur markvisst stefnt að stækkun með því að taka við nýjum heimilum og er nú langstærst, eins og sést á meðfylgjandi grafi. Með því telur sjálfseignarstofnunin sig geta hagrætt í ýmislegri stoðþjónustu.

Flest heimilin eru rekin af sjálfseignarstofnunum, sveitarfélagi eða sveitarfélögum saman og ríkisstofnunum. Aðeins eitt einkafyrirtæki er á markaðnum, Öldungur hf. sem rekur Sóltún og nýja Sólvang í Hafnarfirði.

Ríkið bætir við sig

Heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni hafa lengi haft hlutverk í rekstri hjúkrunarheimila, einkum þar sem sjúkrahús eru eða voru. Þessar stofnanir hafa sums staðar tekið við rekstri nýrra heimila sem sveitarfélögin hafa beitt sér fyrir, svo sem á Ísafirði, Sauðárkróki, Egilsstöðum og Húsavík. Á síðastnefnda staðnum bera sveitarfélögin ábyrgð á rekstri Hvamms en sömdu við Heilbrigðisstofnun Norðurlands um stjórnun og rekstur.

Það er seinnitímamál að fyrirtæki ríkisins taki við rekstri hjúkrunarheimila á höfuðborgarsvæðinu. Það gerðist þegar Sunnuhlíð í Kópavogi lenti í erfiðleikum. Þá var fyrirtæki ríkisins, Vigdísarholti, falinn reksturinn. Þegar ekki náðust samningar um útboð á rekstri nýs hjúkrunarheimilis á Seltjarnarnesi vegna þess að bærinn treysti sér ekki til að taka ábyrgð á rekstrinum var sama félagi falið að reka heimilið.

Er nú svo komið að ríkið sjálft er komið með 481 hjúkrunar- og dvalarrými í rekstur og ef öll heimilin eru lögð saman er ríkið orðið næststærsti leikandinn á þessum markaði.

Og hlutur ríkisins getur vaxið hröðum skrefum á næstunni ef áform sveitarfélaga um að skila rekstri hjúkrunarheimila til ríkisins ganga eftir. Þegar liggur fyrir að Akureyrarbær mun skila öldrunarstofnunum bæjarins til ríkisins um áramót. Ekki hefur verið ákveðið hver tekur við þeim pakka, eftir því sem næst verður komist, en Heilbrigðisstofnun Norðurlands er í bakhöndinni ef enginn annar kostur finnst.

Framlögin lækkuð

Erfiðleikar í rekstri hjúkrunarheimila eru ekki nýir af nálinni. Félög sem að þeim standa og sveitarfélög hafa verið í stöðugri baráttu til að geta haldið sjó.

Gísli Páll Pálsson, forstjóri Grundarheimilanna og formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, segir að þeir sem flytjast inn á hjúkrunarheimili nú séu veikari og dvelji þar í skemmri tíma en áður var. Það útheimti sífellt meiri og flóknari læknis- og hjúkrunarþjónustu. Þá segir hann að starfsemin hafi á síðustu árum verið að breytast úr því að vera eingöngu dvalar- og hjúkrunarheimili í að vera líknarstofnanir að hluta. Áður voru veikir heimilismenn gjarnan sendir á sjúkrahús, þar sem þeir dóu, en nú deyja þeir nánast allir á sínu hjúkrunarheimili. Gísli Páll segir að það sé stefna heimilanna að leyfa þeim að deyja í því umhverfi enda sé það manneskjulegra og betra fyrir alla. Fram kom í viðtali við Kristin Jónasson, bæjarstjóra í Snæfellsbæ, í blaðinu í gær að líknandi meðferð heimilisfólks kallaði á aukna mönnun og aukakostnað.

Daggjöld ríkisins sem Sjúkratryggingar greiða eiga að standa undir rekstri hjúkrunarheimilanna en gera það ekki. Forstjórar hjúkrunarheimila segja að ekki hafi fengist fullar bætur vegna aukins kostnaðar, til dæmis launahækkana. Þá er í fjárlögum næsta árs boðuð hálfs prósents hagræðingarkrafa, fjórða árið í röð. Það þýðir á mannamáli að framlög til umönnunar heimilisfólks eru lækkuð.

Gísli Páll hefur vakið athygli á þessu í aðsendum greinum í Morgunblaðinu og segir að þessi niðurskurður á sama tíma og nær öll önnur heilbrigðisþjónusta fái hækkanir umfram launa- og verðlagshækkanir sé til þess gerður að svelta öldrunarheimilin svo mikið að þau gefist upp og skili rekstrinum til ríkisins. Hann segist standa við þessi ummæli í samtali við Morgunblaðið og kallar eftir rökum fyrir þessari mismunun. María Fjóla Harðardóttir, forstjóri Hrafnistu, kallar eftir gagnsæi í því hvað ríkið greiðir eigin stofnunum, til dæmis Vífilsstöðum, sem er biðstofnun og veitir eðli sínu samkvæmt minni þjónustu en hjúkrunarheimili þar sem fólk fær varanlega búsetu. Fram hafa komið fullyrðingar um að þar séu daggjöldin 52 þúsund þegar daggjöld hjúkrunarheimila, án húsnæðisliðar, eru um 38 þúsund.

Reykjavíkurborg rekur tvö hjúkrunarheimili. Samkvæmt upplýsingum Regínu Ásvaldsdóttur, sviðsstjóra velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, má ekkert út af bregða í rekstri Droplaugarstaða. Borgin greiði með rekstrinum. Seljahlíð sé of lítil eining og alltaf rekin með halla. „Almennt er rekstrargrunnur hjúkrunarheimila of lágur og alltof lítil áhersla og fjármagn sett í félagslega virkni á heimilunum,“ segir Regína.

Verkefnishópur seinn af stað

Skerðing á greiðslum til hjúkrunarheimilanna hefur verið metin 2,3 milljarðar kr. frá árinu 2018. Misjafnt er hvernig þeir sem fara fyrir hjúkrunarheimilunum meta stöðuna, hvort það vanti 20, 30 eða 40% upp á daggjöldin til að endar nái saman. En allir eru í vandræðum, stórir og smáir. Stóru einingarnar standa betur þótt það sé ekki algilt eins og sést á því að Akureyrarbær hefur þurft að greiða háar fjárhæðir með rekstri hjúkrunarheimila þar í bæ.

Vonandi fæst einhver botn í þetta með vinnu verkefnishóps heilbrigðisráðherra sem falið hefur verið að greina raungögn um rekstur og rekstrarkostnað hjúkrunarheimila. Formaður hópsins er Gylfi Magnússon prófessor en í honum sitja einnig fulltrúar frá Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sjúkratryggingingum Íslands og heilbrigðisráðuneytinu. Verkefnishópurinn átti að skila niðurstöðum fyrir 1. nóvember en samkvæmt upplýsingum blaðsins er starfið enn á byrjunarstigi og niðurstaðna ekki að vænta fyrr en í fyrsta lagi í febrúar eða mars á næsta ári. Þó hefur KPMG verið falið að greina umrædd gögn.

Afleiðingarnar af „sveltistefnu“ ríkisins sem svo hefur verið kölluð eru þær að dregið hefur verið úr þjónustu við heimilismenn. Þar er aðeins veitt grunnþjónusta. Það bitnar vitaskuld á heimilisfólkinu. Þá eru útgjöld sem geta beðið látin sitja á hakanum, svo sem viðhald á húsnæði. Það endar vitaskuld með ósköpum, eins og þekkt er.

Fá engar bætur frá ríkinu

Hjúkrunarheimilin hafa orðið fyrir ýmsum skakkaföllum og auknum kostnaði í kórónuveirufaraldrinum, bæði í vor og aftur nú í haust. Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu áætla að aukakostnaðurinn hafi numið 312 milljónum til loka ágústmánaðar auk 140 milljóna króna tekjutaps. Ríkisvaldið hefur ekki viljað taka þátt í þeim kostnaði þótt það styðji við sínar eigin stofnanir. Þetta gremst forsvarsmönnum hjúkrunarheimila.

Gísli Páll Pálsson, forstjóri Grundarheimilanna, segir að vegna sóttvarna og veirusmita sé færra fólk tekið inn og það þýði minni tekjur. Hins vegar aukist kostnaður vegna starfsfólks sem fer í veikindaleyfi eða sóttkví og sóttvarnaráðstafana svo sem þrifa og sótthreinsunar.

Gísli Páll segir grátlegt að segja frá því að fjármunirnir séu til hjá Sjúkratryggingum. Gert hafi verið ráð fyrir því í fjárlögum að greidd yrðu daggjöld fyrir notkun þessara plássa en nú vilji ríkið græða á ástandinu. Rökin séu þau að heimilin geti hugsanlega unnið þetta upp á seinni hluta ársins en það gerist ekki í þriðju bylgju faraldursins, eins og allir eigi að átta sig á. Smit hafa komið inn á fjögur hjúkrunarheimili í þriðju bylgju faraldursins en aðeins eitt í vor. Þess vegna má búast við að kostnaðurinn verði meiri í vetur en hann var á fyrri hluta ársins.