Á heimasíðu sinni yrkir Þórarinn Eldjárn og kallar „Samið og kramið“: Hvað ungur semur aldinn kremur en að því kemur að ungur kremur hvað aldinn semur og á honum lemur. Helgi R.

Á heimasíðu sinni yrkir Þórarinn Eldjárn og kallar „Samið og kramið“:

Hvað ungur semur aldinn kremur

en að því kemur

að ungur kremur hvað aldinn semur

og á honum lemur.

Helgi R. Einarsson kveðst vart þekkja sína nánustu, ef skroppið er af bæ á síðustu tímum:

Jafnræði

Með andlitsgrímu er 'ún,

ef í Bónus fer 'ún.

Búðinni í

engum því

af öðrum lengur ber 'ún.

Ingólfur Ómar Ármannsson sendi mér póst þar sem hann segir: „Datt í hug að gauka að þér svo sem einni vísu. Ég var snemma á ferðinni í morgun og varð litið út á Faxaflóann. Hann var frekar úfinn og Kári blés ásamt því að hann rigndi talsvert og himinninn var kólgugrár enda er veðurfarið rysjótt á þessum árstíma:

Emjar þrár og ýfir sjá

enn sig Kári grettir.

Fyssa bárur, freyðir lá

froðutárum skvettir.“

Indriði á Skjaldfönn rifjar oft upp skemmtilegar stökur á Boðnarmiði og nú um forréttindi hunda. Þegar Egill á Húsavík heyrði viðtal við hundavin mikinn kvað hann:

Minnkar óðum mannsins réttur,

mörgum lögum hlýða ber.

Hundurinn er hærra settur,

- hann má skíta hvar sem er.

Hér er limra Óskar Þorkelsdóttur „Óframfærni“:

Hann roðnaði og hjartslátt má heyra

horfir á tærnar og fleira.

Með stamandi blæ

stynur hann „hæ“

og telur svo tærnar ögn meira.

Maðurinn með hattinn yrkir og getur ekki tilefnis:

Viljirðu heimsins völdum ná,

veldu siði ljóta.

Brúka lymsku, ljúga smá

er löngum ráð til bóta.

Enn yrkir hann:

Hvorki fæ ég ást né yl

frá ungu fögru sprundi,

en geng að vísu gamni til

í góðum næturblundi.

Stefán á Vallanesi orti um hest:

Bylur skeiðar virktavel,

vil ég þar á gera skil,

þylur sanda mörk sem mel

mylur grjót en syndir hyl.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is