CBS Alla vega ein vél var notuð í útsendingu CBS.
CBS Alla vega ein vél var notuð í útsendingu CBS. — AFP
Ljósvaki dagsins horfði talsvert á útsendingar frá forsetakosningum í allt öðru landi síðasta þriðjudag. Þessar kosningar voru í Bandaríkjunum.

Ljósvaki dagsins horfði talsvert á útsendingar frá forsetakosningum í allt öðru landi síðasta þriðjudag. Þessar kosningar voru í Bandaríkjunum. Í einhverju bjartsýniskasti hélt Ljósvaki að úrslitin gætu ráðist um nóttina í landi sem er á stærð við boðlega heimsálfu. Gekk það ekki eftir eins og ef til vill einhverjir hafa heyrt af.

Fleiri bjuggust við því sama. Vinur Ljósvakans ákvað að ná sér í aðgang að bandarískri stöð til að geta skipt yfir á heimamenn ef rólegt væri yfir útsendingunni hjá sjónvarpsstöð íslenska ríkisins. Valmöguleikarnir voru nokkrir og endaði hann á því að velja CBS og greiða þeim gjald fyrir. Varð hann skiljanlega hvumsa þegar hann komst að því að RÚV var í samstarfi við CBS og skipti reglulega yfir í útsendingu CBS í Bandaríkjunum. En þegar talning hefur dregist á langinn þá nýtist þessi fjárfesting líklega betur hjá okkar manni.

Hjá íslenska ríkinu var tvíeykinu Boga Ágústssyni og Bjarna Pétri Jónssyni meðal annars teflt fram. Er það vel. Um þá hefur áður verið fjallað á þessum vettvangi og ljóst að þeirra samstarf er orðið vel smurt. Þegar skipt var yfir á CBS veitti Ljósvaki því eftirtekt að þar er enginn Gísli Einarsson inni í stofu hjá nýkjörnum þingmönnum eins og í íslensku kosningasjónvarpi.

Kristján Jónsson