Landakot Mikið ferli hefst þegar smit kemur upp meðal aldraðra.
Landakot Mikið ferli hefst þegar smit kemur upp meðal aldraðra. — Ljósmynd/Landspítali-Þorkell
Helgi Bjarnason helgi@mbl.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Aukakostnaður hjúkrunarheimila vegna kórónuveirufaraldursins nam 312 milljónum króna til loka ágústmánaðar, samkvæmt samantekt Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV), og að auki töpuðu þau 140 milljóna króna tekjum vegna daggjalda sem ekki fást vegna færri innlagna á heimilin. Ríkisvaldið hefur ekki viljað taka þátt í þessum kostnaði þótt það styðji við sínar eigin heilbrigðisstofnanir. Þetta gagnrýna forsvarsmenn stofnananna.

Gísli Páll Pálsson, formaður SFV, segir að þessir peningar séu til hjá Sjúkratryggingum, gert hafi verið ráð fyrir því á fjárlögum að greitt yrði fyrir þessa daga. Útlit er fyrir að kostnaður og tekjutap verði meiri í þriðju bylgju kórónuveirunnar sem nú gengur yfir vegna þess að smit hafa komið inn á fjögur hjúkrunarheimili í vetur en aðeins eitt í vor.

Daggjöld ríkisins sem Sjúkratryggingar greiða eiga að standa undir rekstri hjúkrunarheimila en gera það ekki. Þau eru almennt rekin með halla sem sveitarfélög og sjálfseignarstofnanir hafa ekki efni á að standa undir. Forstjórar hjúkrunarheimila segja að ekki hafi fengist fullar bætur vegna aukins kostnaðar, til dæmis launahækkana. Þá er í fjárlagafrumvarpi næsta árs boðuð hálfs prósents hagræðingarkrafa, fjórða árið í röð. Það þýðir að framlög til umönnunar heimilisfólks eru lækkuð sem þessu nemur.

Afleiðingarnar eru þær að dregið er úr kostnaði eins og hægt er og heimilisfólkið fær aðeins grunnþjónustu. Þá er útgjöldum frestað, eins og til dæmis viðhaldi búnaðar og fasteigna.

Starfshópur heilbrigðisráðherra sem falið var að greina raunkostnað við rekstur heimilanna er skammt á veg kominn með vinnu sína og skilar ekki niðurstöðum fyrr en í febrúar eða mars. 10-11