Þorsteinn Grétar Sigurðsson fæddist í Reykjavík 27. ágúst 1932. Hann lést á Landspítalanum Fossvogi 28. október 2020.

Foreldrar hans voru Sigurður Sigurðsson kaupmaður, f. 17. júní 1891, d. 12. júní 1951, og Þórey Þorsteinsdóttir kaupkona, f. 6. júlí 1901, d. 29. janúar 1981.

Systkini Þorsteins eru: Sigríður Gyða myndlistarkona, f. 13. desember 1934, d. 29. nóvember 2002. Maki Sigurgeir Sigurðsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, f. 14. desember 1934, d. 3. október 2017. Börn þeirra eru Margrét, f. 30. desember 1956, Sigurður, f. 10. október 1958, og Þór, f. 7. apríl 1967. Garðar kaupmaður, f. 1. mars 1937. Maki Hulda Guðrún Guðráðsdóttir, f. 23. febrúar 1938, d. 17. október 1999. Börn þeirra eru: Rannveig Lilja, f. 2. apríl 1957, Sigurður, f. 18. janúar 1961, og Þórey, f. 21. október 1969. Þorsteinn átti hálfsystkini af fyrra hjónabandi föður hans.

Þorsteinn giftist 15. júní 1968 Helgu Kristjánsdóttur, f. 4. október 1930, d. 15. mars 2011. Foreldrar: Kristján Jónsson, f. 1. júní 1870, d. 5. október 1946, og Kristín Þorkelsdóttir, f. 8. ágúst 1891, d. 9. desember 1982. Synir Þorsteins og Helgu eru: 1) Sigurður Þórir kennari, f. 15. febrúar 1968. Maki Hildur Hrönn Oddsdóttir, sérfræðingur hjá Menntamálastofnun, f. 27. júní 1973. Börn þeirra eru: Erna Þórey, f. 4. september 2004, og Eiður Þorsteinn, f. 5. desember 2006. 2) Halldór Örn kennari, f. 22. mars 1969. Maki Lilja Björg Sigurjónsdóttir ljósmóðir, f. 2. október 1977. Börn þeirra eru: Alexandra Mist, f. 26. september 1998, Helga Karen, f. 9. september 2008, Emma Sóley, f. 11. desember 2009, og Ísak Logi, f. 12. febrúar 2016. Fyrir átti Helga soninn Kristján Helgason, starfsmaður Eimskips, f. 1. maí 1957. Maki Hólmfríður Ásta Bjarnason, f. 19. febrúar 1962, d. 29. apríl 2004.

Þorsteinn hóf ungur að aðstoða Þóreyju, móður sína, við rekstur verslunar fjölskyldunnar á Snorrabraut 69, Þorsteinsbúð. Hann tók virkan þátt í rekstrinum og starfaði þar stóran hluta starfsævi sinnar eða allt til ársins 1982 er ákveðið var að hætta rekstrinum. Hóf hann þá störf í Landsbankanum, Laugavegi 77 og starfaði þar við almenn skrifstofustörf út sína starfsævi.

Þorsteinn var virkur meðlimur í Kiwanisklúbbnum Elliða og gegndi þar ábyrgðarstöðum og var hann meðal annars forseti Elliðaklúbbsins eitt starfsárið.

Hann varð þeirrar gæfu aðnjótandi að búa við góða heilsu mestallt sitt líf, en síðustu misserin átti Þorsteinn við alvarlegan heilsubrest að stríða. Hann dvaldi um tíma á Landspítalanum í Fossvogi og síðan á Landakoti.

Útför Þorsteins fer fram frá Árbæjarkirkju í dag, 6. nóvember 2020, klukkan 14.30. Í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu verða einungis nánustu aðstandendur viðstaddir.

Elskulegur afi okkar dó úr Covid 19 á Landspítalanum í Fossvogi miðvikudaginn 28. október eftir hópsmit á Landakoti.

Okkur fannst alltaf mjög gaman og gott að heimsækja afa í Þorláksgeisla 1. Hann bjó einn þar síðustu níu ár eftir að amma Helga dó.

Þegar við komum til hans átti hann alltaf súkkulaði, flögur og gos. Okkur fannst grjónagrauturinn hans líka mjög góður. Honum fannst líka mjög gaman að horfa á teiknimyndir með okkur, Andrés önd var í sérstöku uppáhaldi hjá honum. Afa fannst mjög gaman að ferðast og fór reglulega einn í ferðalög alveg þangað til sumarið 2019. Við höfðum oft áhyggjur af honum á þessum ferðalögum en vissum samt að hann gat þetta alveg einn.

Afi var mjög duglegur að gefa okkur öllum afmælis- og jólagjafir og páskaegg og hugsaði alltaf um að við börnin fengjum gjafir og var duglegur að spyrja okkur hvað okkur langaði í.

Okkur finnst rosalega skrýtið að geta ekki heimsótt afa lengur í Þorláksgeislann en við vitum að honum líður vel núna með ömmu Helgu hjá Guði.

Takk fyrir allt, afi Þorsteinn. Sjáumst seinna.

Erna Þórey Sigurðardóttir og Eiður Þorsteinn Sigurðsson.

Mér er ekki sama hvað verður um mig. Þessi orð hans komu upp í huga minn þegar ég byrjaði að setja nokkur orð niður á blað til að minnast bróður míns Þorsteins Grétars. Hann var fimm árum eldri en ég og elstur okkar systkina. Við þrjú, Þorsteinn Grétar, Sigríður Gyða og Hafsteinn Garðar, áttum góða æsku hjá þeim Þóreyju Þorsteinsdóttur og Sigurði Sigurðssyni foreldrum okkar, en þau ráku litla hverfisverslun, Þorsteinsbúð, á Snorrabrautinni í Reykjavík. Samkomulag okkar systkina var nokkuð gott og þar sem hverfið var allt í uppbyggingu höfðum við nóg af leikfélögum. Þorsteinn varð snemma frekar hlédrægur og tók ekki alltaf mikinn þátt í leikjum okkar barnanna þar sem sum okkar voru fyrirferðarmeiri en önnur. Faðir okkar var fæddur 1891 og var því 21 árs þegar raunveruleg bílaöld hófst hér á landi, hann hreifst af þessu farartæki og starfaði lengi vel við bifreiðaakstur. Þorsteinn var mikill bílaáhugamaður og átti yfirleitt glæsilega og nýlega bíla, þessi áhugi fylgdi honum til síðasta dags. Þorsteinsbúð átti Fordson-sendibíl sem Þorsteinn og fleiri notuðu mikið, síðar eignaðist fjölskyldan ameríska drossíu af DeSoto-gerð. Herjólfsstaðir í Álftaveri og fólkið þar áttu hlýjan blett í hjarta Þorsteins en þar var hann nokkur sumur í sveit ásamt Tóta vini sínum úr Keflavík. Hulduhvammur við Lögberg (Lækjarbotna) var sumarbústaður þar sem fjölskyldan átti margar góðar stundir saman. Þegar faðir okkar veiktist árið 1950 var Þorsteinn sá eini á heimilinu með bílpróf. Faðir okkar þurfti að fara í höfuðaðgerð til Kaupmannahafnar þaðan sem hann kom dauðvona til baka og lést árið eftir. Við þetta áfall varð ekki eingöngu við sorgina að glíma, heldur hrundi efnahagur fjölskyldunnar því að móðir okkar þurfti að greiða persónulega fyrir mestan hluta sjúkrakostnaðarins vegna of góðrar afkomu. Þorsteinn reyndist móður okkar afar vel í þessum erfiðleikum sem og síðar er hún veiktist árið 1980 en hann var lengst af okkur systkinunum í heimahúsum. Móðir okkar hélt fast utan um fjölskylduna og tókst að komast í gegnum þá örðugleika sem minnst var á með gífurlegri vinnu og hagsýni. Við hittumst um jól, í afmælum og á fjölskylduviðburðum á Snorrabrautinni og er minningin um þá ofarlega í huga margra okkar. Þegar Þorsteinn festi ráð sitt og flytur úr heimahúsum bjó hún ein til dauðadags en naut þess ávallt að hafa hann nálægt sér. Ég gæti sagt margt, margt fleira um Þorstein og líf okkar bræðra en æviferill hans er örugglega skráður annars staðar af afkomendum hans. Í byrjun minntist ég á ummæli sem hann lét falla í síðustu heimsókn minni til hans en þá lá hann rúmfastur á sjúkrahúsi og við ræddum um líf okkar og tilveru. Við höfðum talsvert ólíkar skoðanir á framhaldslífi en sammála um og tilhlökkun til að það yrðu endurfundir ástvina. Ég þakka Þorsteini fyrir að hafa verið bróðir minn og óska honum alls hins besta á hverju því tilverustigi sem hann kann að hafa lent. Sonum hans og fjölskyldum sendi ég hugheilar samúðarkveðjur.

Góða ferð kæri bróðir.

Garðar Sigurðsson.

Það er skrítið til þess að hugsa að hann frændi minn og móðurbróðir, Sinni frændi, sé nú farinn. Hann er búinn að fylgja mér allt mitt líf og vera hluti af því alveg frá því að ég man eftir mér. Þegar við vorum börn systkinin á Nesinu þá var hann okkur góður og hugsaði um okkur eins og sín eigin börn, og ég man að hann kom oft með einhverjar gjafir til okkar þegar hann ferðaðist erlendis og á jólum og afmælum. Sinni giftist frekar seint henni Helgu sinni, og í framhaldinu fæddust þeim hjónum þeir Siggi og Halldór frændur mínir sem voru augasteinar foreldra sinna, en hann hélt áfram að hugsa um okkur og lét velferð okkar sig alltaf miklu varða. Hann var mikill fjölskyldumaður hann frændi minn. Sinni vann stærstan hluta starfsferils síns í búðinni hennar ömmu, Þorsteinsbúð á Snorrabrautinni, en þar fékkst hann við ýmis störf sem til féllu og ráku þau amma þessa búð með mikilli prýði í áratugi. Seinni helming starfsævinnar starfaði hann hjá Landsbankanum, eða allt þar til hann fór á eftirlaun.

Hann Sinni frændi var ekki bara frændi minn heldur var hann vinur minn líka og við höfum alltaf haldið sambandi og talað saman með reglulegu millibili í gegnum ævina. Undanfarin 15-20 ár höfum við hist nokkuð reglulega í hádeginu til að borða saman, fyrst gerðum við þetta með pabba sáluga en héldum því áfram eftir að hann hvarf á braut. Ég kallaði þetta oft að fara með þá út til að viðra þá karlana. Og ekki má gleyma að minnast á Þorláksmessu, en við frændurnir ásamt pabba, Gunnari tengdapabba, Þór bróður og Héðni mági mínum höfum haft það fyrir reglu í fjöldamörg ár að hittast á Þorláksmessu og fá okkur bjór og síðan í skötuveislu á Þrjá frakka. Þetta hafa alltaf verið skemmtilegir hittingar, þótt verulega hafi kvarnast úr þessum góða hópi undanfarin ár. Ég veit að Sinni hlakkaði alltaf mikið til þessa dags og honum þótti skatan góð og naut sín vel á þessum kvöldum.

Sinni var alla ævina haldinn krónískri bíladellu og bílar og allt sem þeim viðkom voru hans einlæga áhugamál, enda kom maður ekki að tómum kofunum þegar bíla bara á góma. Undir lokin, þegar hann gat ekki keyrt sjálfur lengur, þá keyrði ég og það kom fyrir að við heimsóttum eitthvert umboðið eftir hádegismatinn og settumst kannski inn í og mátuðum nýju módelin. Þetta þótti honum mjög gaman. Sama átti við um flugvélar, hann var ótrúlega fróður um flug og flugvélar, vissi t.d. allt um allar vélarnar sem Icelandair notar í sitt flug, en Sinni var sem ungur maður mikið að spá í að læra flug, en lífið ætlaði honum annan farveg.

Ég gæti haldið áfram að rifja upp ævina hans Sinna frænda og okkar samskipti, en ætla að láta þetta nægja í bili og kveð hann með söknuði og trega. Hann var góður maður og heiðarlegur. Takk fyrir allt Sinni minn, við sjáumst seinna.

Sigurður I. Sigurgeirsson.

Ég á margar góðar minningar um Steina móðurbróður minn sem við systkinabörnin hans kölluðum alltaf Sinna frænda áður fyrr. Þegar ég var lítil bjó Steini á Snorrabraut 61 og saman ráku þau amma Þórey verslunina Þorsteinsbúð. Amma bjó á miðhæðinni og Steini hafði herbergi í risinu. Það var spennandi að fá að kíkja inn til hans. Einu sinni man ég að rétt fyrir jól fengum við Nanný frænka mín að koma inn til hans og þar komum við auga á forláta Hans og Grétu konfektkassa sem okkur þóttu spennandi. Steini sagðist ætla að gefa þá litlum stelpum úti í bæ sem hann þekkti. Við vorum hissa á að hann þekkti aðrar litlar stelpur en okkur, en auðvitað komu þessir kassar úr jólapökkunum okkar. Steini var duglegur að tala við okkur systkinabörnin og honum fannst gaman að atast í okkur og við höfðum gaman af.

Seinna fann Steini Helgu sína og fluttu þau í Árbæjarhverfið. Amma dó í byrjun árs 1981 og fljótlega eftir það lagðist Þorsteinsbúð af og Snorrabrautin var seld.

Steini frændi var mikill áhugamaður um bíla. Hann átti marga bíla í gegnum tíðina og hafði yndi af að tala um bíla. Það var honum mikið áfall eftir áramót þegar sjónin var orðin það léleg að hann gat ekki lengur keyrt. Ég talaði við Steina frænda nokkrum dögum áður en hann dó og meira að segja þá, orðinn mjög veikur, talaði hann enn um bílaviðskipti við mig.

Einu sinni samdi ég við Steina og Helgu um að fá lánað hjá þeim píanó. Dætur okkar vildu læra að spila og ég vissi að píanóið hjá þeim væri ónotað. Í staðinn fyrir píanóið komumst við að samkomulagi um að ég bakaði öðru hvoru smákökur og kleinur og færði þeim. Þetta gekk svona um árabil og kom ég í Árbæinn til þeirra með kökur nokkrum sinnum á ári. Seinna keypti ég píanóið en smákökur færði ég Steina oftast um jólin enda Steini mikill kökukarl, þótt það sæist ekki utan á honum.

Við Steini töluðum oft saman síðustu árin. Hann hafði einlægan áhuga á að fylgjast með því sem var að gerast hjá ættingjum hans. Því miður náðist ekki að halda fjölskylduboð í Kjósinni síðasta sumar eins og að var stefnt og þótti honum það mjög miður.

Við hjónin sendum Kristjáni, Sigga, Halldóri og fjölskyldum þeirra innilegustu samúðarkveðjur.

Margrét Sigurgeirsdóttir (Gréta).