Andri Snær Magnason
Andri Snær Magnason
Stjórn Miðstöðar íslenskra bókmennta (MÍB) úthlutaði á árinu styrkjum til þýðinga íslenskra verka á erlend mál fyrir tæpar 24 milljónir króna. Umsóknir voru 147 talsins, þar af 31 til þýðinga á norræn mál.

Stjórn Miðstöðar íslenskra bókmennta (MÍB) úthlutaði á árinu styrkjum til þýðinga íslenskra verka á erlend mál fyrir tæpar 24 milljónir króna.

Umsóknir voru 147 talsins, þar af 31 til þýðinga á norræn mál. Veittir voru styrkir til 111 þýðinga á 28 tungumál, flestir til þýðinga á dönsku (13), ensku (9), þýsku (8) og frönsku (7). Til samanburðar má geta þess að næstmesti fjöldi umsókna til þýðinga á erlend mál var árið 2017 en þá voru umsóknir 119, þar af 21 til þýðinga á norræn mál.

Þessa aukningu má að hluta til rekja til norræns átaks sem blásið var til í kjölfar heimsfaraldursins en einnig má sjá greinilegan og sífellt meiri áhuga á íslenskum bókmenntum erlendis, segir í tilkynningu MÍB.

Þegar skoðaður er listinn yfir þær þýðingar sem styrktar eru kemur í ljós að veittir eru styrkir til þýðinga á bók Andra Snæs Magnasonar, Um tímann og vatnið , á 14 tungumál. Þá voru til að mynda sjö styrkir veittir vegna þýðinga á sögum eftir Jón Kalman Stefánsson og Ragnar Jónasson, fimm til þýðinga á sögum eftir Yrsu Sigurðardóttur, fimm vegna þýðinga á sögum eftir Arnald Indriðason og fjórir vegna þýðinga á sögum eftir Auði Övu Ólafsdóttur.