Breiðabólstaðarkirkja Safnaðarfólki þykir vænt um kirkjuna.
Breiðabólstaðarkirkja Safnaðarfólki þykir vænt um kirkjuna. — Morgunblaðið/Sigurður Ægisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is „Ég held að okkur sem störfum í sóknum þjóðkirkjunnar í hinum dreifðu byggðum finnist að miðstýringin í Reykjavík sé stöðugt að aukast,“ sagði Óskar Magnússon, bóndi og rithöfundur á Sámsstaðabakka og formaður sóknarnefndar Breiðabólstaðarsóknar í Fljótshlíð til 15 ára. Hann kvaðst geta í mörgu tekið undir gagnrýni séra Óskars Inga Ingasonar sóknarprests í Morgunblaðinu.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

„Ég held að okkur sem störfum í sóknum þjóðkirkjunnar í hinum dreifðu byggðum finnist að miðstýringin í Reykjavík sé stöðugt að aukast,“ sagði Óskar Magnússon, bóndi og rithöfundur á Sámsstaðabakka og formaður sóknarnefndar Breiðabólstaðarsóknar í Fljótshlíð til 15 ára. Hann kvaðst geta í mörgu tekið undir gagnrýni séra Óskars Inga Ingasonar sóknarprests í Morgunblaðinu.

„Okkur finnst hlaðið undir miðstýringarvaldið á Biskupsstofu. Þar virðist vera hægt að bæta við starfsfólki og gjarnan án þess að auglýsa. Um leið er lítill áhugi á því sem er að gerast út um landið, þar sem kirkjan raunverulega stendur í lappirnar,“ sagði Óskar. Hann benti á að 264 sóknir væru hin raunverulega kirkja. „Kirkjan er ekki starfsmenn kirkjunnar í glerturninum í Katrínartúni 4, sem nú kallast K4 í bréfum biskups.“

Óskar taldi ekki rétt að alltaf væri haft mikið samráð um tillögur að veigamiklum breytingum eins og sagði í svörum kirkjunnar við gagnrýni séra Óskars. „Tillögur um sameiningar prestakalla hafa t.d. verið dregnar til baka vegna þess að upp kom sterk andstaða og kirkjustjórnin treysti sér ekki til að keyra málin í gegn. Þetta hefur m.a. gerst í kringum mig. Sama á við um sameiningar sókna. Ég tel að það sé almenn andstaða við sameiningu í litlu sóknunum, einfaldlega vegna þess að nærumhverfið skiptir máli. Fólkinu þykir vænt um sóknina, kirkjuna sína og kirkjugarðinn. Það gætir að þessu öllu í sjálfboðavinnu meira eða minna. Ef þetta verða stórar og ópersónulegar einingar missir fólk þessi tengsl og væntumþykjuna sem er grundvöllur starfsins í sóknunum. Þetta er kristið fólk sem þykir vænt um kirkjuna sína og eignir hennar og stundar störf sín af kærleika.“

Lítið lýðræðislegt umboð

Óskar nefndi fræga auglýsingu um sunnudagaskóla kirkjunnar.

„Engum á Biskupsstofu datt í hug að tala um þetta við sóknirnar, hryggjarstykkið í starfinu! Sama gildir um afsökunarbeiðni til samkynhneigðra, sem enginn gerir ágreining um efnislega. En aðferðin við að komast að niðurstöðu er gagnrýniverð. Það eru margar leiðir innan kirkjunnar til að taka formlegar ákvarðanir á sem breiðustum grunni. Ég nefni t.d. kirkjuþing, sóknir og héraðsnefndir. Ekkert af þessu var notað og ég veit ekki hvernig svona ákvarðanir verða til.“

Óskar telur að breyta þurfi kjöri til kirkjuþings til að efla áhrif almenns safnaðarfólks og til að efla þá grunnstoð þjóðkirkjunnar sem kirkjuþing getur verið. Þar sitja 29 kjörnir fulltrúar, 12 prestar og 17 leikmenn. Auk þeirra biskup Íslands, tveir vígslubiskupar og einn fulltrúi guðfræðideildar HÍ.

„Ef kirkjuþing á að vera hið lýðræðislega og ráðandi afl innan kirkjunnar þarf eitthvað mikið að gerast,“ sagði Óskar. Þjónandi prestar og djáknar kjósa fulltrúa vígðra úr sínum hópi en fulltrúar leikmanna eru kjörnir af aðal- og varamönnum í sóknarnefndum í þremur stærstu kjördæmunum og aðalmönnum í minni kjördæmum.

„Kirkjuþing er ekkert lýðræðisafl innan kirkjunnar. Þetta er bara þröngur hópur. Kosningafyrirkomulagið er svo naumt að það eru jafnvel ekki nema 10-15 atkvæði á bak við hvern kirkjuþingsfulltrúa í hópi leikra. Lýðræðislegt umboð kirkjuþings er því ekki nema upp á fáein hundruð atkvæða í kirkju sem telur 236 þúsund manns,“ sagði Óskar enn fremur.