Ívar Larsen Hjartarson fæddist á Ísafirði 12. janúar 1926. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni 2 27. október 2020.

Foreldrar Ívars voru Hjörtur Ólafsson, f. 23.7. 1897, d. 2.7. 1951, verkamaður á Ísafirði, frá Saurbæ í Dölum, og Þóra Margrét Sigurðardóttir, f. 28.5. 1896, d. 27.2. 1954, húsmóðir. Albróðir Ívars var Sigurður, f. 18. maí 1930, bakarameistari, d. 20. desember 2012. Hálfsystir Ívars, samfeðra, var Ingunn, hún er látin. Hún var gift Þorvaldi Steinarssyni. Hálfsystkini Ívars, sammæðra, voru Matthías Í. Guðmundsson, f. 17.4. 1923, fv. bóndi á Eyri og í Hvítanesi, hann er látinn. Hann var giftur Margréti Árnadóttur; Sigríður Ásgeirsdóttir, f. 18.7. 1917, nú látin.

Ívar ólst upp á Ísafirði. Hann lauk þar barnaskólanámi og vann síðan ýmis störf á Ísafirði bæði til sjós og lands.

Hann flutti ungur til Reykjavíkur og hóf þá störf hjá Landssíma Íslands á Jörva, hann bjó alla tíð í Reykjavík, en hafði ætíð ákaflega sterkar taugar til fæðingarbæjar síns Ísafjarðar.

Ívar var ókvæntur og barnlaus.

Ívar verður jarðsunginn frá Bústaðakirkju í dag, 6. nóvember 2020, og hefst athöfnin klukkan 15.

Vegna aðstæðna munu einungis nánustu ættingjar verða viðstaddir.

Elsku frændi minn hann Lassi eins og við kölluðum hann í okkar fjölskyldu hefur nú kvatt þennan heim á 95. aldursári.

Lassi hélt alla tíð miklu og góðu sambandi við fjölskylduna okkar.

Ég minnist þess með hlýhug sem barn að jólin voru ekki komin fyrr en Lassi frændi var kominn til að halda jólin með okkur.

Síðustu jólin hans Lassa var hann hjá okkur Einari í Hraunborgum og naut sín vel.

Þú varst alltaf svo hress og vel á þig kominn og varst hrókur alls fagnaðar þegar við héldum fjölskylduboðin og pabbi tók nikkuna með sér og spilaði og þá varst þú alltaf fyrstur út á gólf til að dansa og dönsuðum við oft mikið saman.

Svo kom að því að hann vildi hætta að búa einn og fara í þjónustuíbúð.

Við hjónin fórum í málið fyrir hann og sóttum um í Furugerði 1 og þar fékk hann inni mjög fljótlega.

Lassi frændi var einstaklega handlaginn maður og ég minnist þess með mikilli gleði þegar við hjónin hófum að byggja bústaðinn okkar í Hraunborgum í Grímsnesi að þá bauðst Lassi til að koma austur og aðstoða okkur.

Lassi frændi bjó alla tíð einn og hélt fallegt heimili og sá alveg um sig sjálfur fram undir nírætt, en þá fórum við

Einar maðurinn minn að aðstoða hann vikulega varðandi matarinnkaup og eins að aðstoða hann varðandi það að sækja sér læknisaðstoð og fleira.

Vikulega fórum við í „ísferðir“ með móður minni Báru og Lassa og þá var einnig farinn rúntur um borgina. Þessar ferðir elskuðu þau bæði.

Lassi frændi átti góða vinkonu, Dýrleif, til margra ára og fóru þau oft til Kanaríeyja og dvöldu þar nokkrar vikur á ári. Dýrleif lést fyrir nokkrum árum.

Eitt sinn þegar við vorum í heimsókn hjá Lassa spurði hann okkur Einar hvort við værum til í að fara eina ferð með honum til Kanaríeyja. Við gengum frá ferð til Kanarí og fórum með honum út í 15 daga.

Lassi ljómaði þegar við vorum tilbúin til fararinnar og má segja að hann hafi brosað allan hringinn meðan á ferðinni stóð.

Ferðin gerði honum mjög gott og var hann alsæll þegar heim kom og gat sagt samferðafólki sínu í Múlabæ frá ferðinni.

Eins og áður hefur komið fram hafði Lassi frændi mikinn áhuga á dansi og alltaf þegar boðið var upp á harmonikkuleik og dans í Múlabæ var hann fyrstur til að bjóða dömu upp í dans.

Eftir að veikindi fóru að gera vart við sig hjá Lassa kom að því að hann þurfti frekari umönnun sem ekki var í boði í Furugerði 1 og sótti ég þá um fyrir hann að komast að í hjúkrunarheimilinu í Sóltúni 2 og komst hann þar inn fljótlega.

Í Sóltúni leið Lassa ákaflega vel og minntist hann ávallt á það við okkur hjónin þegar við komum til hans í heimsókn, hve umönnunarfólkið væri yndislegt.

Síðustu dagana veiktist Lassi en hann hafði átt í erfiðleikum vegna hjartabilunar og að morgni 27. október kvaddi hann þennan heim og hjá honum á þessari stundu var yndislegt starfsfólk Sóltúns, sem hann hélt svo mikið upp á og hafði haft umsjón með honum.

Ég kveð Lassa frænda minn með miklum söknuði, en einnig mörgum góðum minningum.

Nú ertu kominn til fólksins þíns sem er farið og veit ég að með ykkur verða fagnaðarfundir. Ég vil þakka hjartanlega öllu starfsfólki í Furugerði 1, Múlabæ og Sóltúni 2 fyrir frábæra umönnun. Takk, kæri frændi, fyrir samferðina og blessuð sé minning þín.

Þín frænka,

Þóra Margrét Sigurðardóttir.