Gunnlaugur Marteinn Símonarson fæddist í Keflavík 29 júní 1952. Hann lést á heimili sínu 6. október 2020.

Foreldrar hans eru Símon Pauli Lilaa Jóhannsson, sjómaður og fyrrverandi verkstjóri hjá Hafskip, f. í Leirvík í Færeyjum 25. júní 1925, d. 31 janúar 2007. Foreldrar hans voru hjónin Jóhann Pauli Lilaa útgerðarbóndi og kona hans Jóhanna María Ólivina í Leirvík. Heimilisfaðirinn lést fyrir aldur fram, systkinahópurinn var stór. Fyrir átti Símon soninn Hrein Sævar Símonarson húsasmíðameistara á Akureyri, f. 23 janúar 1951, d 31. október 1995.

Móðir Gunnlaugs var Björg Svava Gunnlaugsdóttir kaupmaður, f. 18. september 1927 í Svefneyjum, Flatey á Breiðafirði, d. 7. febrúar 2009. Foreldrar Bjargar voru Borghildur Aradóttir, f. 10. ágúst 1891, d. 20. nóv. 1941, og Gunnlaugur Marteinn Gunnlaugsson sjómaður, f. 15. ágúst 1906, d. 16. janúar 1979.

Björg Svava Gunnlaugsdóttir kaupmaður giftist Símoni Pauli Lilaa Jóhannessyni. Þau slitu samvistum. Seinni maður Bjargar var Hafsteinn Halldórsson, f. 4. júlí 1933, d. 1. ágúst 1990.

Þau áttu saman 3 börn, þau eru auk Gunnlaugs Jóhann Páll Símonarson, fv. farmaður hjá Eimskip, f. 11. apríl 1951, kvæntur Viktoríu Hólm Gunnarsdóttur, fv. starfsmanni á Röntgendeild Landspítalans í Fossvogi. Borghildur Símonardóttir kaupmaður, f. 27. febrúar 1958, gift Þorgeiri Daníelssyni kaupmanni.

Samæðra systkin: Guðbergur Guðmundsson, f. 1. ágúst 1943, Anton Sigurðsson, f. 22. mars 1947, Sigrún Borghildur Magnúsdóttir, f. 11. maí 1949.

Börn Gunnlaugs eru: Guðrún Rut Gunnlaugsdóttir, f. 15. maí 1971, móðir Sigrún Magnúsdóttir, f. 1953, þau slitu samvistum. Eiginmaður Guðrúnar er Kári Þórisson rennismiður, f. 1967. Eiga þau tvær dætur: Ingunni Þóru, f. 1987, gift Kristni Frey Vídó Þórssyni og eiga þau fjögur börn. Þórdís Rún, f. 1996. Jóhann Gunnlaugsson, f. 4. des. 1980, móðir Dagný Jóhannsdóttir, f. 12. ágúst 1954. Þau slitu samvistum.

Jóhann er giftur Ingu Rut Gunnarsdóttur, f. 1980, og eiga þau 2 börn, þau Dagnýju, f. 2011, og Gunnar Vilja, f. 2012.

Útförin fór fram í kyrrþey.

Lífið er skrýtið, það endar á sama stað hvað okkur öll varðar, en við komumst ekki frá því að fara þessa leið. Gunnlaugur Marteinn Símonarson, elskulegur bróðir minn, hefur kvatt okkur öll og tekið flugið í sumarlandið. Maður spyr sig hverju ráðum við, hvaða öfl ráða innra með okkur í tilveru fólks þar sem við höfum ekkert um það að segja þegar við urðum til.

Gulli var afburðavel greindur drengur, þar sem bókin réð ríkjum, um fræðigreinar sérfræðinga um allan heim, þar sem hann hafði svo gaman af að tala við fólk, segja frá málefnum líðandi stundar. Hann lauk námi frá Vogaskólanum í Reykjavík árið 1970. Hóf nám í Stýrimannaskólanum í Reykjavík og lauk 1.-2. stigi á tveimur árum árið 1982, 3. stigi ári síðar. Hóf störf við farmennsku hjá Eimskip, var trillusjómaður og vann önnur störf sem tengd voru hafinu.

Hann var snjall á rithöndina, var með puttann á málefnum um alvarlega þróun stýrimannastéttarinnar. Gunnlaugur var ritstjóri nemendablaðsins Kompáss veturinn 1982-1983. Orð Gunnlaugs vöktu ráðamenn á þeim tíma af værum blundi þegar hann nefndi fækkun nemenda sem stunduðu nám fyrir 37 árum, staðan er svipuð í dag árið 2020. Hefur sú þróun haldið áfram með litlum breytingum sem siglingaþjóð, þótt miklar breytingar hafi átt sér stað í skipaflota landsmanna. Gunnlaugur hafði á orði: „Á meðan bólgna aðrar menntastofnanir svo út að til vandræða horfir og þá helst í þeim greinum sem skila alls engum arði til þjóðarbúsins. Hér er mjög alvarleg þróun í menntamálum skipstjórnarmanna að eiga sér stað ... áður en skaðinn verður óbærilegur.“

Eftir stendur bærinn okkar Keflavík og Kirkjuvegurinn þar sem við bræður erum fæddir hvor í sínu húsinu. Reykjavík var næsti bær í uppeldi okkar, þar sem við ólumst upp til dæmis Sólheimum og gamla Árbænum þar sem götur voru kallaðir Árbæjarblettir. Þar voru öll símasamtöl í gegnum miðstöð sem Aðalbjörn símstöðvarstjóri stýrði. Kerfið virkaði á þann veg að hægt var að hlusta á öll símtöl í Árbænum eins og í sveitum; ein stutt, ein löng eða fjórar langar, þegar símar hringdu. Kristín Stefánsdóttur í Stínuskógi var frábær kona, sem okkur bræðrum þótti vænt um, og komum við oft í heimsókn til hennar með trjágreinar sem eldivið til upphitunar. Um fermingu fluttum við í höfuðstað Gufuness þar sem Þorgeir Jónsson bóndi átti heima. Vorum báðir fermdir í Neskirkju hjá séra Jóni Thorarensen.

Frá mörgu er hægt að segja í ævisögu okkar beggja. Eftir stendur þú sjálfur sem varst frábær bróðir minn með gott hjarta, boðinn og búinn að hjálpa öllum nema sjálfum þér. Talaðir aldrei illa um neinn. Varst vanmetinn maður sem hafðir svo mikla hæfileika sem fræðimaður. En svona er lífið, enginn getur ákveðið fyrirfram hvað hann gerir eða stefnir að nema hann vilji það sjálfur. Megi minning um bróður minn Gunnlaug Martein Símonarson lifa um aldir alda. Elsku Jóhann, Guðrún og börn, megi guð umvefja ykkur og fjölskyldu ykkar í sorginni.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Jóhann Páll Símonarson.