[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Alls 25 ný smit af Covid-19 greindust á landinu í fyrradag og af þeim voru 80% meðal fólks í sóttkví. Nú eru 762 í einangrun sýktir af kórónuveirunni en voru 798 á miðvikudag. Á sjúkrahúsum landsins er 71 sjúklingur með kórónuveiruna, þrír á gjörgæslu.

Alls 25 ný smit af Covid-19 greindust á landinu í fyrradag og af þeim voru 80% meðal fólks í sóttkví. Nú eru 762 í einangrun sýktir af kórónuveirunni en voru 798 á miðvikudag. Á sjúkrahúsum landsins er 71 sjúklingur með kórónuveiruna, þrír á gjörgæslu.

Á Landspítalanum eru tveir í öndunarvél. Alls 1.538 manns eru í sóttkví og 1.447 í skimunarsóttkví, samtals 2.985. Í síðarnefnda hópnum er fólk sem þarf að fara í sóttkví á milli skimana á landamærunum.

Tekin voru sýni úr tæplega 2.200 manns á miðvikudaginn. Staðan batnar því lítið eitt milli daga, sbr. að á þriðjudag voru ný smit 29 og 1.851 í sóttkví.

Alls eru nú fimm börn yngri en eins árs í einangrun og 77 á aldrinum 1-12 ára. Alls 31 eitt barn 13-17 ára var með Covid í fyrradag. Fólk með kórónuveiruna er annars á öllum aldri, þar af 40 á níræðisaldri og 22 yfir nírætt, skv. covid.is. Best er staðan á Austurlandi; þar eru tvö smit og einn í sóttkví.

Alls 50 konur á meðgöngu hafa smitast af Covid hér á landi og eru dæmi þess að konur hafi verið með virkt smit í fæðingu. Þetta kom fram í máli Huldu Hjartardóttur, yfirlæknis fæðingarþjónustu Landspítala, á upplýsingafundi almannavarna í gær. Hulda sagði að ekki væri aukin hætta á smiti hjá þunguðum konum, þótt merki væru um að þær veiktust verr en aðrar konur á barneignaaldri.

Átján eru látnir

Einn lést af völdum Covid sl. miðvikudag. Viðkomandi var á tíræðisaldri og var á Landspítalanum. Átján hafa látist af völdum Covid á Íslandi, tíu í fyrstu bylgju faraldursins og átta í þriðju bylgjunni, þeirri sem nú gengur yfir. sbs@mbl.is