Listamannaveisla Góðir gestir í sextugsafmæli Knuts í Reykjavík. Frá vinstri: Jón Nordal, Matthías Johannessen, Thor Vilhjálmsson, Atli Heimir Sveinsson, Knut, Jónas Kristjánsson og Jóhann Hjálmarsson.
Listamannaveisla Góðir gestir í sextugsafmæli Knuts í Reykjavík. Frá vinstri: Jón Nordal, Matthías Johannessen, Thor Vilhjálmsson, Atli Heimir Sveinsson, Knut, Jónas Kristjánsson og Jóhann Hjálmarsson.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Knut Ødegård fæddist 6. nóvember 1945 í Molde í Noregi þar sem hann ólst upp. Að loknu stúdentsprófi og prófi í viðskiptagreinum lagði hann stund á guðfræði við Óslóarháskóla. Síðar stundaði hann nám í bókmenntum við Háskólann í Cambridge á Englandi.

Knut Ødegård fæddist 6. nóvember 1945 í Molde í Noregi þar sem hann ólst upp. Að loknu stúdentsprófi og prófi í viðskiptagreinum lagði hann stund á guðfræði við Óslóarháskóla. Síðar stundaði hann nám í bókmenntum við Háskólann í Cambridge á Englandi. Honum var veitt heiðursdoktorsnafnbót, Litt. D., við Háskólann í Acapulco, Mexíkó 1999 og var útnefndur heiðursprófessor við Ríkisháskólann í Ulaanbaatar í Mongólíu 2017.

Ljóðskáldið

Fyrsta ljóðabók Knuts kom út árið 1967 og síðan hafa komið út 43 bækur með skáldskap hans, ljóðabækur, skáldsögur, leikrit, barnabækur og fræðibækur. Knut er þekktastur sem ljóðskáld og ljóðabækur hans hafa komið út á 42 tungumálum, fleiri málum en nokkurt annað norskt ljóðskáld okkar tíma. Síðasta ljóðabók hans, Sirkusdirektøren, kom út núna í haust og hefur fengið mjög góða dóma og sumir sagt hana sterkustu ljóðabók Knuts. „Það er gaman, fyrir eldra skáld, að heyra að maður hafi ennþá kraftinn. Í bókinni er ég að yrkja út frá minni stöðu í dag – frá mínu sjónarhorni sem 75 ára manns, sem kannast við sjúkdóma, við ellina, sem hefur séð vini fá alzheimer og kannast við dauðann og að missa vini mína. En á sama tíma er ég líka að yrkja um ástina. Ást á milli eldra fólks er ekki minni en hjá unglingunum. Við Þorgerður erum með plómutré í Molde og plómurnar eru sætastar á haustin. Þannig er það líka hjá okkur mönnunum.“

Þýðandinn

Sem þýðandi hefur Knut sérstaklega einbeitt sér að þýðingum á íslenskum bókmenntum, bæði í bundnu og óbundnu máli, allt frá miðöldum til okkar daga. Meðal margra þýðinga hans á eldri íslenskum ritverkum má nefna Lilju Eysteins Ásgrímssonar og Geisla eftir Einar Skúlason. Á árunum 2013-2016 komu eddukvæðin út í þýðingu Knuts með ítarlegum skýringum í fjögurra binda útgáfu. Meðal skálda okkar tíma sem hann hefur þýtt má nefna Thor Vilhjálmsson, Matthías Johannessen, Stefán Hörð Grímsson, Einar Braga, Ólaf Jóhann Sigurðsson, Jóhann Hjálmarsson, Einar Má Guðmundsson, Gyrði Elíasson og Gerði Kristnýju.

Forstjóri Norræna hússins

Meðfram ritstörfunum hefur Knut stundað önnur störf. Hann var m.a. útgáfustjóri fyrir Norges Boklag og menningarstjóri í Þrændalögum og árið 1984 var hann ráðinn forstjóri Norræna hússins í Reykjavík. Í sinni stjórnartíð átti hann frumkvæðið að Bókmenntahátíðinni í Reykjavík og stjórnaði henni fyrstu árin í náinni samvinnu við Thor Vilhjálmsson og Einar Braga.

Allt frá 1968 hefur Knut starfað sem bókmenntagagnrýnandi, fyrir Aftenposten og Vårt Land í Ósló. Knut, ásamt Herði Áskelssyni og Sigurbirni Einarssyni biskupi, átti frumkvæðið að stofnun Listvinafélags Hallgrímskirkju og sat í stjórn þess í upphafi.

Árið 1992 stofnaði Knut fyrstu alþjóðlegu bókmenntahátíðina í Noregi, Bjørnsonfestivalen, og var forseti hennar í 10 ár og íslenskum skáldum og rithöfundum var boðið þangað öll þau ár. Einnig átti Knut frumkvæðið að stofnun norsku bókmenntaakademíunnar Bjørnstjerne Bjørnson-Akademiet árið 2003 og stýrði henni í tólf ár. Þá stofnaði hann fyrstu ljóðlistarhátíð Noregs, Rolf Jacobsen-dagene, og var listrænn stjórnandi hennar fyrstu árin. Knut var ræðismaður fyrir Slóvakíu í Noregi í nokkur ár en er nú aðalræðismaður lýðveldisins Norður-Makedóníu.

Íslendingurinn

Knut hefur verið búsettur á Íslandi í nærri 40 ár en hann og Þorgerður eiga gamla ættarhús fjölskyldu hans í Molde. Þar dvelur hann oft og vinnur mikið að verkefnum fyrir Noreg.

Knut hefur hlotið margvíslega viðurkenningu fyrir skáldskap sinn og störf að menningarmálum, meðal þeirra eru: stórriddarakross með stjörnu Hinnar íslensku fálkaorðu, stórriddarakross Hinnar páfalegu reglu riddara hinnar heilögu grafar í Jerúsalem og riddarakross Hinnar konunglegu norsku heiðursorðu. Árið 1989 veitti norska þingið honum starfslaun fyrir skáldskap og framlag sitt til menningartengsla milli Íslands og Noregs. Þá má nefna fjölmörg verðlaun sem Knut hefur hlotið, m.a. stærstu menningarverðlaun Noregs, Anders Jahres Kulturpris, Dobloug-verðlaunin frá sænsku akademíunni, Bastian-verðlaunin – sem eru mesta viðurkenning í Noregi fyrir þýðingu á erlendum bókmenntum – fyrir þýðinguna á skáldsögu Thors Vilhjálmssonar Fljótt, fljótt sagði fuglinn. Hann hefur hlotið æðstu alþjóðlegu ljóðlistarverðlaun í Slóvakíu, Serbíu, Rúmeníu, Mongólíu, Kósovó og Taívan.

Knut hefur setið í stjórn norska rithöfundasambandsins og Félags norskra bókmenntagagnrýnenda auk hins norska PEN. Í nokkur ár var hann aðalritari The European Academy of Poets í Lúxemborg og í dómnefnd fyrir Alþjóðlegu IMPAC Dublin Literary Award á Írlandi. Knut er kaþólskur og situr í helgisiðanefnd kaþólsku kirkjunnar í Noregi.

Fimm bækur Knuts hafa komið út á íslensku: Þrjár ljóðabækur, unglingaskáldsaga og barnabók. Þrjú íslensk tónskáld hafa samið verk við ljóð hans: Atli Heimir Sveinsson, Þorkell Sigurbjörnsson og Mist Þorkelsdóttir. Knut hefur einnig gefið út tvær stórar bækur um Ísland og skrifað fjölda greina um landið í blöð og tímarit.

Fjölskylda

Eiginkona Knuts er Þorgerður Ingólfsdóttir kórstjóri, f. 5.11. 1943.

Foreldrar hennar eru Inga Þorgeirsdóttir kennari, f. 1920, d. 2010, og Ingólfur Guðbrandsson söngstjóri og ferðamálafrömuður, f. 1923, d. 2009.

Börn Knuts eru: 1) Mali Frøydis Ødegård Sørli, f. 31.7. 1969, húsmóðir í Steinkjer, Noregi. Börn hennar eru: Björn, f. 4.11. 1996; Magne André, f. 21.4. 1998; Knut, f. 10.10. 2001, og Kristine, f. 12.8. 2005. 2) Hege Kristine Ødegård, f. 28.2. 1973, Tønsberg, Noregi. Systkini Knuts eru Marit Kristine Ødegård lífeindafræðingur, f. 11.5. 1944 í Álasundi, Noregi, býr í Molde, og Liv Olaug Ødegård, cand. mag., f. 18.2. 1952 í Molde. Hún býr í Ósló.

Foreldrar Knuts eru Sigrid Anna Ødegård, 1908-1999, húsmóðir og Arne Knutson Ødegård 1911-1995, aðalféhirðir. Þau voru lengst af búsett í Molde í Noregi.