Fögur fyrirheit Barniers um bót og betrun hafa engu skilað

Fyrir um tveimur vikum virtist sem fríverslunarviðræður Breta og Evrópusambandsins hefðu siglt í strand, og gengu Bretar svo langt að segja tilgangslaust að halda þeim áfram. „Viðræðuslitin“, ef þau geta kallast það, höfðu þau áhrif að Michel Barnier, aðalsamningamaður Evrópusambandsins, virtist skipta um skoðun og hét því að ef viðræður hæfust aftur mætti fara að ræða fleiri hluti en fiskveiðiréttindi og samkeppnisreglur.

Þau tvö atriði hafa enda verið ásteytingarsteinar frá upphafi viðræðnanna, en ljóst var þegar í vor, að afarkostir Evrópusambandsins í þeim efnum myndu seint leiða til niðurstöðu sem fullvalda ríki eins og Bretland gæti sætt sig við. Voru nokkrar vonir bundnar við það, að Barnier hefði loks áttað sig á því, að Bretar væru nú í raun aftur fullvalda, og að því yrði reynt að finna nálgun sem gæti þjónað báðum.

Nú, tveimur vikum síðar, viðurkenndu hins vegar bæði Barnier og David Frost, samningamaður Breta, að enn væri töluverður ágreiningur á milli aðila um þessi efni, sem og kröfur Evrópusambandsins um hvernig skorið yrði úr deilum sem upp kynnu að koma. Var það afstaða Barniers að án þessara atriða yrði ekki hægt að semja, en Frost benti á, að samkomulag yrði ekki gert ef ekki væri tekið fullt tillit til fullveldis Breta.

Komið er að elleftu stundu, eigi fríverslunarsamningur yfirhöfuð að nást. Það er eitt að koma sér saman um samkomulagsdrög og undirrita þau, en þá tekur við staðfestingarferlið, þar sem öll Evrópusambandsríkin 27 þurfa að samþykkja samkomulagið. Öllu þessu þarf að vera lokið fyrir 1. janúar næstkomandi.

Satt að segja kemur á óvart, að þegar svo skammur tími er til stefnu, og viðræðunum hefur þegar verið „slitið“ einu sinni, að Barnier og félagar hans berji enn höfðinu við steininn. Ef til vill er of langt gengið að segja að þessum tveimur vikum hafi verið sóað, en allar líkur eru þó á því að undanþágutími Breta renni út um áramótin án samnings.

Slík niðurstaða kæmi sér illa fyrir alla, ekki síst ríki Evrópusambandsins sjálf, sem og önnur ríki sem treysta á greið viðskipti við Breta. Þeirra á meðal eru Íslendingar, sem hafa þó komið sinni ár betur fyrir borð. Áfram þarf þó að huga vel að því að hagsmunir okkar séu varðir í þeim ólgusjó sem fram undan er.