Guðmundína Día Ingadóttir fæddist í Reykjavík 15. janúar 1943. Hún lést 27. október 2020 á líknardeild Landspítalans. Foreldrar hennar voru Ingi Guðmundsson frá Þingeyri, verkamaður í Freyju, f. 1.10. 1916, d. 30.3. 1971, og Gyða Guðmundsdóttir, húsmóðir og gangavörður, f. 21.9. 1918, d. 22.1. 1999. Systkini Díu eru: Birna, f. 4.12. 1937, Guðmundur Ingi, f. 1.5. 1939, d. 7.12. 1999, Gunnar, f. 24.6. 1940, d. 1.2. 1973, Skúli, f. 24.11. 1941, d. 5.4. 1961, Júlíus, f. 15.8. 1944, d. 23.11. 2012, Bettý, f. 9.12. 1945, Ástríður, f. 30.11. 1948, Hulda Fríða, f. 29.6. 1950 og Sigurður, f. 3.12. 1957. Día ólst upp í stórum systkinahópi í Reykjavík, í Höfðaborg og síðar í Bústaðahverfinu. Hún var Reykjavíkurmær í beinan kvenlegg í fjóra ættliði. Día giftist Sævari Reyni Ingimarssyni frá Akureyri 2. mars 1963. Foreldrar hans voru Sigurlaug Ingunn Sveinsdóttir, húsmóðir, saumakona og verkakona, fædd á Blönduósi en bjó lengst af á Akureyri, f. 18.1. 1919, d. 21.12. 2008 og Kristján Ingimar Benediktsson, húsvörður frá Barnafelli í Ljósavatnssókn, f. 8.5. 1915, d. 20.3. 1979. Þau skildu og Sigurlaug giftist síðar uppeldisföður Sævars, Sigurði Kristjánssyni frá Svarfaðardal. Sævar var sjómaður og þau Día hófu búskap í Stigahlíð en bjuggu lengst af í Árbæjarhverfinu í Reykjavík sem þá var í uppbyggingu. Sævar drukknaði 1.2. 1973 með mótorbátnum Maríu. Börn þeirra Díu og Sævars eru: 1) Ingimar Skúli Sævarsson, f. 13.9. 1962, sambýliskona hans var Elísabet Sigurjónsdóttir, f. 6.9. 1962, d. 23.9. 2020. Dóttir þeirra er Aníta Sædís Ingimarsdóttir, f. 5.1. 1990, sambýlismaður hennar er Daði Elísson, f. 26.6. 1989 og sonur þeirra er Skúli Daðason, f. 8.8. 2019, fóstursonur Ingimars Skúla og sonur Elísabetar er Sigurjón Agnar Daníelsson, f. 6.11. 1982. 2) Sigurlaug Kristín Sævarsdóttir, f. 11.11. 1963. Eiginkona hennar er Valgerður Þ.E. Guðjónsdóttir, f. 18.4. 1958.

Día var í sambúð í nokkur ár með Ólafi Ásgeiri Ásgeirssyni, f. 3.10. 1938, d. 9.8. 2010. Sonur þeirra er Ólafur Reynir Ólafsson, f. 28.12. 1976. Eiginkona hans er Jóhanna Laufdal Friðriksdóttir, f. 8.11. 1978. Börn þeirra eru Friðrik Ýmir, f. 21.9. 2001 og Embla Ósk, f. 5.9. 2005.

Síðar bjó Día um árabil með Friðriki Alexanderssyni, f. 24.1. 1933, d. 17.11. 1995.

Halldór Guðjónsson, f. 14.12. 1937, var samferðamaður Díu mörg síðustu ár og voru þau vinir til hinstu stundar.

Día starfaði að mestu við verslunarstörf. Fyrstu búskaparárin starfaði hún í Bústaðabúðinni og síðar í Árbæjarkjöri. Hún var lengi verslunarstjóri í Snyrtivöruversluninni í Glæsibæ og starfaði auk þess m.a. í nokkrum tísku- og snyrtivöruverslunum. Día greip einnig í módelstörf og auglýsingaleik.

Útförin fer fram frá Árbæjarkirkju í dag, 6. nóvember 2020, klukkan 13. Athöfninni verður streymt á:

https://tinyurl.com/y2xal3t7

Virkan hlekk má nálgast á www.mbl.is/andlat

Nú er mamma farin! Það er undarlegt að líf sem er búið að vera mér nátengt alla ævi sé allt í einu ekki lengur þar. Mamma var Reykjavíkurdóttir í fjóra ættliði í kvenlegg og margt í fari hennar og persónu bar þess glöggt vitni. Hún var alin upp á líflegu og barnmörgu heimili af alþýðufólki. Afi vann í Freyju og amma skúraði út á heimilinu tvisvar á dag og hafði styrka stjórn á fjörlegum barnahópnum. Mamma var fimmta í röðinni af tíu systkinum og fór ung að vinna fyrir sér. Sem unglingur eldaði hún m.a. hádegismat fyrir konur í hverfinu og fann svo fjölina sína á bak við búðarborðið í Ólabúð í Hólmgarði. Ástina fann hún hins vegar á balli. Myndarpiltur í of stuttum buxum. Þar var kominn hann pabbi, sveitadrengurinn frá Akureyri, sem kominn var til náms í Stýrimannaskólanum í Reykjavík.

Eftir að þau pabbi byrjuðu að búa vann hún fyrir leigunni með því að þrífa og þvo þvotta hjá fjölskyldu á Laugarásvegi, þar sem þau bjuggu. Seinna kölluðu verslunarstörfin á hana aftur og þá var hún í essinu sínu, fyrst í Árbæjarkjöri og svo komst hún í snyrtivörubransann. Þar var nú glimmer og slör og mikið fjör. Mamma naut sín á þessum vettvangi og eignaðist þar marga vini og kunningja. Vinnudagarnir voru langir og ég man að stundum lá við að hún sofnaði ofan í súpuna á aðfangadagskvöld eftir vinnutörn á aðventunni. Á sunnudögum var farið í fjörið í Hólmgarðinn til ömmu Gyðu og þá drógum við um það, systkinin, hvort okkar fengi að fara með mömmu í strætó en hitt gekk hitaveitustokkinn með pabba. Mamma var skvísa frá toppi til táar og lagði mikið upp úr fallegum fötum, förðun og tísku. Hún stóð á búðargólfum í áratugi á háhæluðum skóm, sveipuð Chanel nr. 5 og alltaf obbolítið lilluð og bleik. Hún var ljósmyndafyrirsæta frá fermingaraldri, tók þátt í tískusýningum og lék í auglýsingum. Það fannst henni gaman. Hún átti líka spretti í félagsmálum, var einn af stofnendum Fylkis og dugleg í kvenfélaginu í Árbæ á meðan við fjölskyldan bjuggum þar. Hennar mesta sorg var að missa pabba í sjóinn þegar þau stóðu á þrítugu og sá skuggi fylgdi henni alla tíð. Hún bjó um nokkurra ára skeið með barnsföður sínum, Ólafi. Þá fengum við systkinin ekki bara lítinn hálfbróður heldur líka tvö stjúpsystkin í fjölskylduna. Það var fjör á heimilinu og mamma hafði hjartarúm fyrir stækkandi barnahóp. Þegar hún var í stuði var mikið hlegið og sungið og stutt í húmorinn, snarpan og beittan. Hún var keppnismanneskja og hafði afar gaman af því að horfa á íslensku landsliðin í handbolta. Eftir að knattspyrnulandslið karla komst á EM varð hún, á nokkrum dögum, sérfræðingur í knattspyrnu og lét strákana heyra það, fyrir framan skjáinn, bæði þegar vel gekk og þegar þegar á móti blés. Það var henni erfitt þegar heilsan gaf eftir og hún átti sína dökku daga en aldrei missti hún skvísugenin og hafði sérstaka unun af því að halda sér til og vera flott. Nokkrum mínútum fyrir síðustu andartökin var hún spurð af nærgætnum sjúkraliða á líknardeildinni hvort hana vantaði eitthvað eða hvort henni liði illa. Hún svaraði, veikum rómi, „allt í gúddí“ og með þeim orðum, sem voru alveg í hennar anda, kvaddi hún okkur, Reykjavíkurmærin hún mamma. Takk fyrir lífið, mamma mín!

Heim er hún komin hún mamma

í örugga höfn og finnur

ástina sveipa sig böndum

sveipa sig silkiböndum.

(Ingibjörg Haraldsdóttir)

Kristín Sævarsdóttir.

Elsku amma bleika, ég trúi því varla að hún sé farin. Lífið er ansi tómlegt án hennar. Hún var ekki bara amma mín heldur einnig ein besta vinkona mín og trúnaðarvinkona. Ég gat talað við hana um allt og vissi hún nánast öll mín leyndustu mál og ég hennar. Hún var alltaf til staðar fyrir mig, sama hvort það var að nóttu eða degi, alltaf svaraði hún i símann og var tilbúin að hlusta og gefa ráð. Amma flutti i götuna þar sem ég bjó með foreldrum mínum þegar ég var um 6 ára. Mikið var ég heppin að hafa hana bara í næsta húsi, ég eyddi miklum tíma hjá henni, við spiluðum mikið og lék ég mér mikið með skartið hennar og fannst ég algjör pæja. Amma átti sko nóg til af alls konar skarti og glingri, enda var hún glæsilegasta kona sem ég hef þekkt.

Það var alltaf mjög gott samband milli okkar og vorum við perluvinkonur. Síðustu ár var ég hjá henni nokkrum sinnum í viku og fórum við oft i bæjarferðir saman þar sem amma elskaði fátt meira en að kaupa sér falleg föt og skó, það var sameiginlegt áhugamál hjá okkur.

Amma var líka mikill aðdáandi íslenska landsliðsins i handbolta og við horfðum saman á flest stórmót. Ef svo vildi til að ég kæmi ekki alltaf þegar það var leikur, þá vissi ég að kæmi símtal og spurningin hvar ég eiginlega væri. Svo það þýddi lítið að reyna að sleppa leik.

Mikið verða næstu áramót skrítin þar sem það var orðin hefð hjá okkur að vera bara við tvær saman, að borða kjúkling og hafa það kósý, þar sem við vorum hvorug mikið fyrir sprengjurnar og lætin sem fylgja því kvöldi. Síðustu áramót voru aðeins öðruvísi en fyrri því þá fjölgaði um tvo, Daði og Skúli, litli gimsteinninn okkar og langömmubarn hennar, nutu kvöldsins með okkur. Mikið er ég glöð og ánægð að hún hafi fengið að fylgjast með Skúla fyrsta árið hans. Það var einstakt samband sem finnst varla en þannig fannst mér sambandið vera á milli þeirra tveggja. Skúli fær héðan í frá að kynnast langömmu sinni í gegnum okkur fjölskylduna, því margar eru sögurnar af þessari glæsilegu konu sem var einn mesti karakter sem ég hef kynnst.

Ég er afar þakklát fyrir tímann sem ég átti með ömmu minni, mikið vildi ég að sá tími hefði samt verið lengri.

Þú ert amman sem að allir þrá,

alltaf mun ég elska þig og dá.

Lífið þú gerir betra fyrir mig,

heppin ég er að eiga þig.

Aníta Sædís.

Í dag kveð ég þig, elsku systir, margs er að minnast og margs að sakna. Aðalsmerki þitt var að vera alltaf glæsileg og „obbulítið lilluð“, þannig fórst þú í gegnum lífið. Við áttum saman þungbærar minningar frá sjóslysinu 1973 þegar Sævar þinn og Gunni bróðir okkar fórust, það var harmleikur fyrir alla fjölskylduna.

Minningarnar eru líka bjartar eins og þegar þú heimsóttir okkur Magga til Svíþjóðar með Huldu systur og mömmu, ógleymanlegar stundir. Heima í Hólmgarði hjá mömmu var mikið glens og gaman þegar við systkinin komum saman, glatt á hjalla, spilað og spjallað. Ógleymanleg er ferð okkar systra með mömmu til Edinborgar um árið.

Þegar við Maggi urðum fyrir áföllum í okkar lífi, þá stóðst þú, Día, með okkur og gafst okkur góð ráð og styrk sem við varðveitum vel.

Þín er sárt saknað, elsku Día, af okkur og Dóra vini þínum. Við Maggi sendum börnum þínum, mökum þeirra og fjölskyldum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Guð veri með ykkur.

Hvíl í friði, mín kæra systir.

Ásta systir.