Jón Halldór Jónsson, fyrrverandi forstjóri Keflavíkurverktaka, lést 3. nóvember síðastliðinn, 91 árs að aldri. Jón fæddist 5. júní 1929 í Reykjavík.

Jón Halldór Jónsson, fyrrverandi forstjóri Keflavíkurverktaka, lést 3. nóvember síðastliðinn, 91 árs að aldri.

Jón fæddist 5. júní 1929 í Reykjavík. Foreldrar hans voru hjónin Jón Þorvarðarson, kaupmaður í Verðanda í Reykjavík, og Halldóra Guðmundsdóttir húsfreyja.

Jón nam við Verzlunarskóla Íslands (1943-1945). Hann lærði einnig skipasmíði í Iðnskólanum í Reykjavík og útskrifaðist þaðan 1951. Sama ár hóf hann störf hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli við uppbyggingu og eftirlitsstörf með byggingum.

Jón tók við stöðu framkvæmdastjóra Byggingaverktaka Keflavíkur hf. 1958 og varð síðar samhliða því starfi forstjóri Keflavíkurverktaka frá 1963 til starfsloka árið 2000. Keflavíkurverktakar var öflugt alhliða verktakafyrirtæki sem átti stóran þátt í að reisa mannvirki innan og utan vallar, auk þess að skapa fjölda starfa fyrir iðnaðarmenn á Suðurnesjum og víðar.

Jón starfaði alla tíð mikið að félagsmálum. Hann átti sæti í stjórn Sparisjóðs Keflavíkur og var formaður stjórnar Sparisjóðsins um 14 ára skeið. Hann var fulltrúi ríkisstjórnar Íslands í atvinnumálanefnd Reykjaneskjördæmis um árabil. Auk þess sat Jón í stjórn Iðnaðarmannafélags Keflavíkur og stjórn Hitaveitu Suðurnesja hf. sem þá var í eigu sex sveitarfélaga á Suðurnesjum. Hann sat í fræðsluráði Keflavíkur og var varabæjarfulltrúi í Keflavík.

Jón var virkur í starfi Sjálfstæðisflokksins. Var formaður fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Keflavík og fulltrúi á landsfundum Sjálfstæðisflokksins í áratugi.

Jón var mikill áhugamaður um stangveiði og var m.a. leigutaki Laxár í Kjós ásamt Páli G. Jónssyni um 20 ára skeið og einnig Norðurár í Borgarfirði um tíma. Hann var félagi í Lionsklúbbi Keflavíkur til fjölda ára.

Eiginkona Jóns var Soffía Kristín Karlsdóttir, leikkona og revíusöngkona, en hún lést 6. september sl. Þau áttu 10 börn og eru afkomendurnir orðnir 82 talsins.