Loki „Ég lít inn á við og reyni að greina af hverju mér leið eins og mér leið og til hvaða hegðunar sú líðan leiddi.“
Loki „Ég lít inn á við og reyni að greina af hverju mér leið eins og mér leið og til hvaða hegðunar sú líðan leiddi.“ — Morgunblaðið/Eggert
Kristín Heiða Kristinsdóttir khk@mbl.is „Þetta eru mest ljóð sem ég skrifaði á unglingsaldri og upp úr tvítugu, en þá skrifaði ég hálfgerðar dagbókarfærslur, fyrst og fremst fyrir mig sjálfan.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

„Þetta eru mest ljóð sem ég skrifaði á unglingsaldri og upp úr tvítugu, en þá skrifaði ég hálfgerðar dagbókarfærslur, fyrst og fremst fyrir mig sjálfan. Flest skrifaði ég einhverjum árum eftir að umræddir atburðir áttu sér stað, en þetta var ákveðin leið fyrir mig til að fanga þessar minningar áður en þær runnu mér úr greipum. Ég var með þessum skrifum að vinna í gegnum ákveðnar tilfinningar og hugsanir. Á einhverjum tímapunkti var ég kominn með hundruð ljóða í hendurnar og ákvað að skella þessu upp í bókarform. Ég kom mér ekki í að gefa þetta út, enda held ég að þetta hafi þá staðið mér of nærri til að ég meikaði þá tilhugsun. Fyrir rúmu ári ákvað ég svo að drífa í þessu, því ég var orðinn nægilega fjarlægur efninu, nógu langur tími liðinn og ég búinn að þroskast og breytast. Mér leið eins og þetta væri ekki lengur berskjöldun, heldur fjallaði um einhvern allt annan gaur en mig,“ segir Loki Rúnarsson sem sendi nýlega frá sér ljóðabókina Tunglið er diskókúla . Bókin sú er mikil rússíbanareið þar sem lesendur fá að fylgjast með og sjá inn í huga og hjarta manns frá unga aldri og seinna þegar hann er á þvælingi um heiminn með viðkomu í mörgum hjörtum, klofum og börum. Engum er hlíft, hvorki honum sjálfum né þeim sem lesa, þarna er falleg ást, sárar tilfinningar og mikill losti, en líka tilfinningalausar ríðingar, lygar, ælur og einmanaleiki, svo fátt eitt sé nefnt. Loki sýnir í ljóðum sínum inn í myrkrið af einlægni en um leið af áhrifamiklu kæruleysi.

„Mér fannst ég þurfa að koma þessu frá mér, ég þurfti að henda þessu út í kosmósið til að losna við þetta úr undirmeðvitundinni. Seinustu árin hef ég verið að reyna að vinna í sjálfum mér og þessi skrif eru hluti af því. Að líta inn á við og reyna að greina af hverju mér leið eins og mér leið og til hvaða hegðunar sú líðan leiddi. Maður er bara alltaf að reyna að verða skárri manneskja.“

Ég varð alveg dofinn

Í bókinni er þó nokkur fortíðarþrá eftir æskunni og glötuðu sakleysi, og í upphafi bókar má glögglega sjá að Loki hefur verið næmur drengur.

„Ég var mjög viðkvæmt barn og tilfinningaríkur, ég grét mikið og var oft í mínum eigin heimi. Ég átti mjög erfitt með mótlæti og stríðni og þegar ég fór inn í unglingsárin og færðist frá því að vera drengur yfir í að vera ungur maður, þá var allt í umhverfinu að reyna að berja úr manni þessa viðkvæmni. Maður gerir það líka sjálfur, og að einhverju leyti er það nauðsynlegt til að takast á við hinn harða heim sem mætir manni eftir að flogið er úr hreiðrinu. En að einhverju leyti er það mjög skaðlegt og eitrað fyrir marga unga karlmenn. Eins og kemur fram í bókinni þá sveiflaðist pendúllinn hjá mér kannski of langt í hina áttina á ákveðnu tímabili, og ég hætti að kunna að finna fyrir tilfinningum og skilja þær. Ég varð alveg dofinn, sérstaklega í rómantískum samskiptum. Partur af mínum skrifum var að læra að finna til upp á nýtt, að gefa tilfinningunum pláss. Að skrifa þessa bók á sínum tíma var kannski örvæntingarfull tilraun til að halda í fortíðina, en á einhverjum tímapunkti fattaði ég að fyrir vikið komst ekkert nýtt að hjá mér. Að gefa þetta út er tilraun til að sleppa loksins tökum á fortíðinni.“

Fannst heimurinn ekki nóg

Þótt ljóð Loka innihaldi bersögli í orðum og gjörðum, umbúðalausar og gróteskar lýsingar, þá er þar á sama tíma tilfinningadýpt, opið inn að kviku. Var hann ekkert hræddur við að sýna og segja fólki frá slíkum hlutum úr sínu einkalífi og opinbera innstu tilfinningar?

„Nei, þetta var einmitt æfing í að gera það. Ég hef alltaf verið mjög prívat maður og sem barn var ég nánast lygasjúkur og átti mjög erfitt með sannleikann og að segja satt. Þetta háði mér lengi vel, mér fannst heimurinn ekki nóg eins og hann er, mér fannst ég sífellt þurfa að skreyta hann og gera hann að meira ævintýri. Flestir nota skáldskap til að virkja ímyndunaraflið en ég var fyrst og fremst að skrifa til að æfa mig í að segja satt, hvernig sem mér hefur svo tekist það. Ég hef engar sérstakar áhyggjur af því hvað fólki finnst um mig eða efni þessarar bókar, en ég er skíthræddur um að mamma fái taugaáfall þegar hún les hana.“

Tvö ljóð úr bókinni Tunglið er diskókúla

Eitur

hér erum við

fimm árum seinna

hún búin að endurbyggja brýrnar til mín

til þess eins

að ég geti brennt þær niður aftur

Söknuður

ég er búinn að baða mig þrisvar

síðan hún fór

notaði meira að segja sápu

samt anga ég ennþá

af píkunni hennar