Ólöf Oddsdóttir fæddist á Baldursgötu 6a í Reykjavík 12. september 1948. Hún lést í faðmi ástvina sinna á krabbameinsdeild Landspítalans 28. október 2020.

Foreldrar Ólafar voru Oddur Andrésson, bóndi Neðra-Hálsi í Kjós, f. 24.11. 1912, d. 21.6. 1982, og kona hans Elín Jónsdóttir, f. 29.6. 1921, d. 26.12. 2010. Systkini Ólafar eru Ágústa, f. 1947, Valborg, f. 1950, d. 2019, Ólafur, f. 1951, Kristján, f. 1954, og Lilja, f. 1960.

Ólöf eignaðist soninn Arnar 21.11. 1970 og er faðir hans Páll Árnason tæknifræðingur. Páll er búsettur Kaupmannahöfn og er kvæntur Kristínu Önnu Einarsdóttur. Arnar er kvæntur Sólveigu Sif Halldórsdóttur, f. 18.7. 1971, og eiga þau börnin Þorgeir, f. 5.6. 2001, Áshildi, f. 18.12. 2007, og Teit, f. 23.12. 2010. Arnar er prófessor við Líffræðistofnun Háskóla Íslands og Sólveig vinnur við Rannsóknastofnun í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands.

Ólöf ólst upp á Neðra-Hálsi í Kjós, þar sem næg verkefni voru alla daga, bæði í leik og starfi. Á sömu torfunni bjuggu þrjár barnmargar fjölskyldur. Föðuramma hennar, Ólöf Gestsdóttir, var einnig til heimils á Neðra-Hálsi og voru þær nöfnurnar mjög tengdar. Á unglingsárum vann hún þrjú sumur í mötuneyti Hvalstöðvarinnar. Hún lærði við Húsmæðraskólann á Varmalandi veturinn 1966-67 og eignaðist þar góðar vinkonur, sem mynduðu frábæran saumaklúbb fyrir lífstíð. Veturna 1968-1970 vann hún í Sútunarverksmiðju SS við Grensásveg og bjó þá á heimili móður sinnar í Fellsmúla 8 ásamt fleiri systkinum sínum. Eftir fæðingu sonarins flutti Ólöf aftur að Neðra-Hálsi vorið 1971 og vann á heimilinu og við búskapinn, en einnig í mötuneyti Ásgarðs, barnaskóla Kjósarhrepps. Haustið 1976 flutti Ólöf aftur til móður sinnar, vann einn vetur á fraktskipi en skráði sig svo í Öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð. Meðfram náminu vann hún hjá póstinum. Að stúdentsprófi loknu nam hún meinatækni (lífeindafræði) í Tækniskóla Íslands. Að námi loknu réðst hún til starfa sem meinatæknir á sýkladeild Landspítalans þar sem hún vann óslitið til starfsloka. Ólöf var ræktarsöm við ættingja og vini og hafði mörg áhugamál, eins og hannyrðir, andleg málefni og heilsufæði. Það sem fangaði huga hennar mest og lengst var ræktun og tengt því moltugerð og náttúrvernd almennt. Hún hafði góða aðstöðu til garðræktar á Neðra-Hálsi auk þess sem hún og systkini hennar reistu þar gróðurhús. Slík aðstaða, og innhlaup í Dalsgarði í Mosfellsdal, gerðu henni kleift að gera margskonar tilraunir með ræktun matjurta, berjarunna og trjáa og síðustu ár sérstaklega ávaxtatrjáa.

Útförin fer fram frá Lindakirkju í dag, 6. nóvember 2020, klukkan 15. Aðeins nánustu aðstandendur verða viðstaddir, en athöfninni verður streymt á https://www.lindakirkja.is/utfarir/

Á sama tíma og síðustu laufblöð sumarsins féllu af trjánum kvaddi Ólöf tengdamóðir mín þennan heim. Hin ýmsu form ræktunar voru henni ætíð hjartfólgin.

Undanfarinn áratug var það ávaxtatrjárækt sem átti hug hennar. Hún safnaði fróðleik um og ræktaði mismunandi yrki, hvernig best væri að sinna þeim, hvaða aðstæður voru bestar fyrir hvert fyrir sig. Hún sinnti ávaxtatrjánum af mikilli alúð og jafnan spennt yfir uppskerunni. Hverju kirsuberi, epli og plómu var fagnað, einu gilti hve stór uppskeran var, öllu deildi Ólöf með fjölskyldu sinni.

Önnur gerð ræktunar sem Ólöf sinnti af mikilli elju var fjölskyldurækt. Barnabörnin heimsótti hún mjög reglulega, iðulega með eitthvað í farteskinu fyrir þau s.s. ávexti eða grænmeti úr sveitinni, barnablöðin sem hún hafði kippt úr dagblöðunum og ófá voru þau vettlingapörin sem hún prjónaði og kom með fyrir þau.

Fallegar peysur og húfur prjónaði hún á þau sem allt kom að góðum notum. Ef hún hafði ekki tök á að koma hringdi hún og vildi fá að heyra hvað var að gerast, hún fylgdist vel með hvað hver var að gera og jafnvel vinum þeirra líka.

Áhugi Ólafar var mikill á jarðfræði, þó sér í lagi hérlendis. Fylgdist hún að jafnaði spennt með öllum fréttum af jarðhræringum hvers lags, jarðskjálftum jafnt og eldgosum. Hennar einstaka minni kom berlega í ljós þegar rætt var um slík málefni, ártöl og nákvæmar staðsetningar gat hún ávallt lagt fram í þeim efnum. Aldrei kom maður að tómum kofum þar.

Frumleiki, kærleiki, listfengi en umfram allt sjálfstæði Ólafar er það sem ég mun mest sakna. Ömmu Ó er sárt saknað en góðar minningar hjálpa við að deyfa söknuðinn.

Sólveig.

Ólöf systir kvaddi okkur í síðustu viku eftir harða baráttu við illvígan sjúkdóm um nokkurt skeið.

Eins og hún vissi í hvað stefndi þegar hún lét lítið fara fyrir veikindum sínum á meðan Valborg systir okkar barðist við sín veikindi fyrir rúmu ári sem endaði með ótímabæru andláti hennar.

Hörkutólið hún Ólöf fór hljóðlega í gegnum sín veikindi og vildi helst ekkert að aðrir vissu um þau og alls ekki að hafa áhyggjur af sér og sinni heilsu. Þannig hafði hún verið alla tíð, sjálfstæð, hugrökk, glaðlynd, fyndin, dugleg, hugmyndarík, skapandi og stöðugt gefandi öllu og öllum í kringum sig. Þegar á reyndi í fjölskyldunni bjó hún til félagslegan farveg, m.a. með þorrablótunum, og var fyrirmynd annarra með ræktun sinni við gamla bæinn á Neðra-Hálsi með grænmetisrækt, berja- og ávaxtarækt.

Andleg málefni voru okkar sameiginlega áhugamál og fleiri í fjölskyldunni þótt við höfum ekki talað mikið um þau mál enda eitt af grundvallaratriðum andlegrar ræktunar að missa ekki kraftinn í kjaftæði.

Þeirri reglu fylgdi hún alla leið alveg til þeirrar stundar þar sem ég sat hjá henni við dánarbeðinn kvöldið sem hún kvaddi.

Hún hafði haft á orði fyrir skömmu að best væri að „taka flugið“ fljótlega! Ólöf lagði megináherslu á að gera hluti sem skiluðu árangri og uppskeru fyrir aðra. Að gefa var gleði hennar og uppskera. Grænmeti, ber, ávextir og fróðleiksmolar voru í gjafakörfunum sem hún færði fólki í fjölskyldunni og vinum.

Það má lengi telja upp hæfileika Ólafar og kosti. Fjölhæfni hennar var einstök. Hún hafði áhuga á tónlist, jarðfræði, ættfræði, efnafræði, jaðarstjórnmálum, alþjóðastjórnmálum, umhverfismálum, heimspeki, matargerð, körfugerð, tálgun, útskurði, vefnaði, plöntulíffræði o.fl.

Ólöf var reynitré samkvæmt fornri trjáspeki Kelta. Það lýsir henni vel þar sem hún var hörð af sér og höggþolin og brotnaði ekki þrátt fyrir ágang og mótlæti. Hún gaf flugunum sætu með blómum sínum að vori og þröstunum fóður til að komast yfir hafið um haustið.

Elsku Ólöf. Takk fyrir allar ræktunarleiðbeiningarnar, plöntugjafirnar, ráðgjöfina og stuðning í ávaxtaræktinni. Við Eygló söknum þín og sjáum eftir því að hafa ekki stuðlað að enn fleiri samverustundum þótt þær hafi nú verið allnokkrar og góðar í seinni tíð.

Við sóttum skreytingarefni þér til heiðurs í Djúpurðarskóginn fyrir neðan hrútaberjabrekkuna sem þú elskaðir. Friður fylgi þér.

Elsku Arnar, Sóla, Þorgeir, Áshildur og Teitur. Við vottum ykkur innilega samúð og vonum að við getum verið ykkur stuðningur.

Ólafur og Eygló.

Ég vil gjarnan lítið ljóð

láta af hendi rakna.

Eftir kynni afargóð

ég alltaf mun þín sakna.

(Guðrún V. Gísladóttir)

Skjótt skipast veður í lofti. Hún Ólöf systir mín er látin. Enn eitt skarðið hefur nú verið höggvið í systkinagarðinn. Ólöf átti við lasleika að stríða síðasta árið en enginn bjóst við svo snögglegu brotthvarfi eins og raunin varð á. Þegar horft er til baka um farinn veg þá eru það ekki bara verkin sem tala og standa eftir, heldur ekki síst samskiptin og samræðurnar sem upp koma í hugann frá liðnum árum. Ólöf var næstelst systkina minna og það kom í hennar hlut að sjá um heimilið á Neðra-Hálsi þegar heilsa Elínar móður okkar brást á mínum uppvaxtarárum. Við þurftum því að komast í gegnum lífið bæði þunnt og þykkt saman ásamt öðrum fjölskyldumeðlimum. Ólöf stóð sig frábærlega vel í því að hugsa um börn og buru eins og þar stendur, sá um matseld og þrif og annað það sem gott heimili kallar á á hverjum tíma. Sú aðstoð og umhyggja stóð langt fram á mín unglingsár. Fyrir það er ég þakklátur. Ólöf var góður félagi og hafði áhuga á svo mörgu. Hún var sjaldan fyrir sig. Í seinni tíð var það sonurinn og tengdadóttir ásamt barnabörnum sem voru hennar ær og kýr. Sem dæmi þá setti hún niður í gróðurhúsið bláberja-, hindberja- og brómberjarunna og jarðarberjaplöntur svo barnabörnin gætu notið ávaxtanna.

Það sem okkur fór mest á milli á fyrri tíð var umræða um ræktun en hún var ræktandi af lífi og sál. Segja má að hún hafi verið frumkvöðull að því á Neðra-Hálsi að byrja að planta trjám til skjóls til ræktunar grænmetis heim við bæ, en faðir okkar Oddur (sem var mikill frumkvöðull í ræktun trjáa) fór iðulega með krakkaskarann á Hálsbæjunum upp í fjall fyrir ofan bæinn til að planta trjánum þar, en það var gert til að reyna þol og gæði trjáplantna við íslenskar aðstæður á þeim tíma. Þar byrjaði áhuginn fyrir trjáræktinni hjá systkinahópnum. Síðan hefur trjám verið plantað í miklum mæli að Neðra-Hálsi til að skapa skjól í hagnýtum tilgangi. Það var ekki bara ræktunin og það að hafa hana lífræna sem upp úr stóð í okkar samskiptum, heldur var það sameiginlegur áhugi okkar á andlegum málefnum sem var rauði þráðurinn í okkar samskiptum alla tíð. Fyrir það vil ég líka þakka. Hið eilífa samtal sem aldrei slitnaði og enginn skuggi féll á. Í því ljósi kveð ég Ólöfu systur. Við Dóra vottum Arnari og Sólu ásamt börnum innilega samúð.

Kristján og Dóra.

Töffarinn er farinn yfir í sumarlandið.

Síðasta árið var erfitt ár en það var gott að við systurnar, Ólöf og Ágústa og ég, gátum setið saman og fagnað lífinu hinn 8. október á dánardegi Valborgar, grunlausar um að dagurinn væri upphafið að endinum hjá Ólöfu.

Við Ólöf tengdumst sterkum böndum á margan hátt. Hún fékk til dæmis það hlutverk eins og flest eldri systkini mín að hugsa um mig, litla barnið. Ólöf var sú af systrunum sem lengst og mest sá um heimilið í sveitinni. Allt fram á síðasta dag var sveitin stór hluti af lífi hennar, þar sem hún og litla fjölskyldan sáu alla tíð um ræktun í garðinum við gamla húsið. Við systurnar vorum líka samstiga í að rækta ávexti í gróðurhúsinu með Dóru og Kidda, það var ánægjulegt og gjöfult samstarf.

Ólöf var með algræna fingur og hafði sérstaka tengingu við jörðina sem lýsti sér vel í lífrænu ræktuninni og safnhaugagerð. Hún gat dundað sér í gróðurhúsinu við að sigta mold eða blanda húsdýraáburði og moltu saman í hina fullkomnu blöndu fyrir garðinn og ávaxtatrén. Gróðurhúsið var henni sem annað heimili, sérstaklega eftir að hún hætti að vinna.

Hún var líka meistari í flokkun á rusli og þar slógu hjörtu okkar saman.

Ólöf skildi hve dýrmætt allt hráefni er og að ekki væri til neitt sem héti rusl og alls ekki réttlætanlegt að úrgangi væri fleygt út í náttúruna eða því sóað í heimilissorpi.

Þessi sterka löngun til að hlúa að náttúrunni birtist mér sem hluti af hennar andlegu leið. Ólöf var líka mikill heilari og hafði náttúrulegar leiðir í hávegum. Ég lærði náttúrulækningar fyrst hjá Ólöfu.

Hún var alltaf að miðla, alla tíð að bera í mann bækur og fróðleik og fyrstu bækurnar voru eftir lækninn og sjáandann Edgar Cayce, sem kenndi okkur um lífolíu og laxerolíubakstur.

Ólöf var sinn eigin læknir og þannig vildi hún hafa það. Hún var sjálfstæð og elskaði frelsið. Það var því erfitt að missa hæfnina til að sjá um allt sjálf, að keyra um á sínum bíl og hafa sína hentisemi.

Ég er þakklát fyrir tímann saman síðasta árið heima og á sjúkrabeði. Við gátum spjallað þótt krafturinn væri þverrandi fyrir krefjandi lausnir eins og krossgátur eða skrafl, sem hún hafði alltaf mjög gaman af að gera og viðhéldu skerpunni sem var hennar aðalsmerki. Ólöf var ekki aðeins klár í kollinum, hún var líka flink í höndunum og málaði á silki, fléttaði körfur og saumaði bútasaum svo eitthvað sé nefnt. Allt handverk var henni auðvelt og á sama hátt lék matar- og kökugerð í höndum hennar, enda var hún fullgild húsmóðir.

Þegar heilsan brást var ekki svo gaman lengur, það var leiðinlegt!

Það er stórt skarðið í fjölskyldunni eftir systur mínar tvær sem kvöddu á einu ári.

Skarðið er þó enn stærra fyrir litlu fjölskylduna hans Arnars og börnin þrjú sem missa ömmu sína. Við fjölskyldan sendum þeim okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Við syrgjum elsku Ólöfu en gleðjumst líka yfir frelsinu sem hún hefur nú vonandi fundið á ný.

Lilja Oddsdóttir

og fjölskylda.

Það er okkur þungbært að kveðja hana Ólöfu vinkonu okkar í dag. Það er komið fram í nóvember og við ekki getað haldið saumó enn. Veiran hefur sett strik í reikninginn og við allar í einhvers konar áhættuhópi.

Mikið vorum við nú heppnar að fara í húsmæðraskólann á Varmalandi haustið 1966. Við komum þangað úr ýmsum áttum. Við Ólöf rifjuðum það oft upp þegar við hittumst þarna í kjallaranum og áttuðum okkur á að við þekktumst úr sveitinni okkar, en höfðum ekki hist oft. Við áttum þarna skemmtilegan tíma, 40 hressar stelpur, og margt brallað sem ekki fer á prent. Um vorið lágu leiðir okkar í ýmsar áttir við vinnu og meira nám. Þar sem við vorum dreifðar um landið tóku bréfaskriftir við því það kostaði skildinginn að hringja milli landshluta. Við tóku svo ástamál og barneignir. Ólöf eignast Arnar, klárar meinatækninám og starfaði við það. Við byrjum svo að halda reglulega saumaklúbba kringum 1970 en þá bjó Ólöf í Fellsmúlanum og við mættum þangað. Hún var alltaf mikið í sveitinni, ræktaði mikið þar og hlúði að gróðrinum. Það var gott að getað leitað til hennar með ráð við ræktun, fengið græðlinga og fræ. Einnig benti hún okkur oft á góð ráð varðandi heilsuna sem bæta mátti með góðum jurtum og olíu.

Ólöf ferðaðist töluvert til Arnars þegar hann var við nám í Bandaríkjunum og naut þess að vera með þeim og barnabörnunum. Hún var mjög stolt af þeim, fannst gott að fá þau heim en þau settust að í Vesturbænum. Hún bjó að vísu í Kríuhólum svo það var spotti á milli en þá stundum styttra þaðan í saumó og hann tekinn í leiðinni.

Þar var ýmislegt á prjónunum, fyrst á börnin, svo barnabörnin og sumar komnar í langömmubörnin. Heilsan fór að versna verulega fyrir um ári, við áttum þó nokkrar góðar stundir saman og gat hluti af saumaklúbbnum hist í Laugardalnum tvisvar í góða veðrinu í sumar og voru það mjög notalegar stundir.

Hugur okkar er nú hjá Arnari, Sólveigu og börnunum sem missa svo mikið og voru svo natin við mömmu og ömmu. Þeirra missir er mikill og sendum við þeim innilegar samúðarkveðjur og þökkum Ólöfu allt sem hún var okkur. Blessuð sé minning hennar.

Nú eruð þið ansi margar komnar þarna yfir um og orðið vel saumaklúbbsfært. Þið munuð svo taka vel á okkur hinum.

Fyrir hönd saumaklúbbsins,

Helga Einarsdóttir.