Jón Atli Benediktsson
Jón Atli Benediktsson
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, hefur verið kjörinn forseti Aurora-háskólanetsins og mun leiða það næstu tvö ár. Hann tekur við forsæti af David Richardson, rektor East Anglia-háskólans á Englandi.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, hefur verið kjörinn forseti Aurora-háskólanetsins og mun leiða það næstu tvö ár. Hann tekur við forsæti af David Richardson, rektor East Anglia-háskólans á Englandi.

Ársfundi Aurora-netsins lauk í gær en hann fór fram með rafrænum hætti. Netið er skipað níu evrópskum háskólum sem eiga það sameiginlegt að vera framúrskarandi í rannsóknum samhliða því að leggja ríka áherslu á samfélagslega ábyrgð og fjölbreytileika nemenda en þeir eru í heildina á þriðja hundrað þúsund, segir í tilkynningu HÍ.

„Alþjóðlegt samstarf skiptir okkur í Háskóla Íslands miklu máli og höfum við notið afar góðs af Aurora-netinu á undanförnum fjórum árum. Ég hef setið í stjórn háskólanetsins sl. þrjú ár og hlakka mjög til að stýra því næstu tvö árin,“ segir Jón Atli í tilkynningunni.

Háskólarnir í netinu eru, auk HÍ: Vrije-háskólinn í Amsterdam, East Anglia-háskólinn á Englandi, Háskólinn í Duisburg-Essen í Þýskalandi, Háskólinn í Innsbruck í Austurríki, Háskólinn í Napolí – Federico II á Ítalíu, Roviri i Virgili-háskólinn í Tarragona á Spáni, Háskólinn í Aberdeen og Háskólinn í Grenoble-Alpes í Frakklandi.