Almannadalur Hestarnir eru á jarðhæð og kaffistofur eða íbúðir í risinu.
Almannadalur Hestarnir eru á jarðhæð og kaffistofur eða íbúðir í risinu. — Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Lóðaleigusamningar hafa aldrei verið með lengri gildistíma en til 25 ára í stórum hluta Víðidals frá upphafi, samkvæmt skriflegu svari Dags B. Eggertssonar borgarstjóra. Hann var spurður hvers vegna borgin hefði ekki fallist á að gera samninga með lengri gildistíma í Víðidal.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Lóðaleigusamningar hafa aldrei verið með lengri gildistíma en til 25 ára í stórum hluta Víðidals frá upphafi, samkvæmt skriflegu svari Dags B. Eggertssonar borgarstjóra. Hann var spurður hvers vegna borgin hefði ekki fallist á að gera samninga með lengri gildistíma í Víðidal.

„Það voru lagaleg rök fyrir því að breyta ekki tímamörkum því það gæti haft fordæmisgildi í öðrum og óskyldum málum. Eins og fram kemur í minnisblaði borgarlögmanns, dags. 25. maí 2020 sem lagt var fyrir borgaráð 25. júní 2020, þá eru lóðarleigusamningar einkaréttarlegir samningar þar sem sveitarfélög eru fyrst og fremst í hlutverki landeiganda. Lóðarsamningar eru ekki eins á öllum stöðum og þurfa ekki að vera eins á öllum stöðum. Það eru bæði mismunandi tímamörk og stundum eru uppkaupsákvæði og stundum ekki. Oft tengist það því hvað greitt hefur verið í gjöld í upphafi. Það er því ekki sjálfgefið að það sé sanngjarnt eða rétt að samræma slíka hluti eftir á eða aftur í tímann.“

Lóðarsamningar í Víðidal kveða ýmist á um að mannvirki verði rifin eða að borgarsjóður kaupi þau á sannvirði í lok samningstíma. Kemur til greina að jafna þennan mun?

„Þeir lóðarleiguhafar sem ekki fengu uppkaupsákvæði í lóðarleigusamninga sína fengu úthlutað lóðum á árunum 1970-1974. Lóðarleiguhafarnir greiddu 50 kr./m 3 í gatnagerðargjald og voru þannig ekki í sambærilegri stöðu og þeir lóðarleiguhafar sem fengu úthlutað lóðum eftir árið 1978 á grundvelli annarra úthlutunarskilmála, eða gegn greiðslu kr. 100.000,- á hestpláss og fengu þar af leiðandi uppkaupsákvæði í lóðarleigusamningana sína. Þrátt fyrir að um sé að ræða lóðarleigusamninga á sama svæði, voru þeir gerðir á mismunandi tímum og á grundvelli ólíkra úthlutunarskilmála og forsendna að öðru leyti. Eftir vandlega yfirferð var það niðurstaðan að það eru málefnaleg sjónarmið sem búa að baki mismunandi ákvæðum í lóðarleigusamningum í Víðidal sem hesthúsaeigendum hefur verið kunnugt um og samþykkt frá upphafi.“

Spurður um framtíðarstefnu Reykjavíkurborgar varðandi hestasvæðið efst í Elliðaárdalnum segir Dagur að í hans huga séu hesthúsasvæðin í borginni komin til að vera og hluti af einkennum Reykjavíkur og þeim lífsgæðum sem fylgja því að búa þar. Mismunandi skoðanir á lóðaleigusamningum séu lagalegar og tengist ekki afstöðu til hestamennsku.

„Ég átta mig þó á því að erindi hestamanna eiga sjálfsagt rætur að rekja til þess að Kópavogur ákvað að byggja þar sem áður voru hesthús, á Glaðheimasvæðinu. Víðidalurinn er líklega stærsta hesthúsabyggð í borg í allri Evrópu og sjálfsagt þótt víðar væri leitað. Samkvæmt gildandi aðalskipulagi til 2030 er landið undir hesthúsalóðirnar í Víðidal skilgreint sem sérhæft íþróttasvæði. Það er ekki gerð breyting á því í nýjum viðauka á aðalskipulagi til 2040 sem er á leið í auglýsingu. Víðidalur er og verður paradís hestamanna og heimavöllur hestaíþróttarinnar um fyrirsjáanlega framtíð í mínum huga.“

Dagur segir að hestasvæðið í Almannadal sé hugsað sem viðbót þar sem stækkunarmöguleikar í Víðidal eru takmarkaðir. Almannadalur sé nýlegt byggingarland í uppbyggingu og skipulagt talsvert frá þéttbýli. „Á Austurheiðum þar í kring höfum við nýlega kynnt og samþykkt skipulag fyrir framtíðarútivistarsvæði borgarbúa til næstu áratuga og árhundraða, með frábærum gönguleiðum, reiðleiðum og ótrúlegum útivistarmöguleikum. Þetta er okkar nýja Heiðmörk, en með eigin karakter og ekki þeim takmörkunum sem þarf að virða í Heiðmörk vegna vatnsbóla og strangrar vatnsverndar.“

Borga beint til borgarinnar

Bjarni Jónsson, formaður Félags hesthúsaeigenda í Almannadal, segir að eigendur hesthúsa þar greiði lóðarleigu til Reykjavíkurborgar en ekki til Fáks, eins og mátti skilja af umfjöllun í Morgunblaðinu í gær. Fákur og Fjáreigendafélag Reykjavíkur fengu svæðinu í Almannadal úthlutað og eru fjáreigendur með kindur í Fjárborg. Dregið var úr umsóknum um hesthúsalóðirnar hjá sýslumanni og þurftu umsækjendur að vera hestamenn, að sögn Bjarna. Lóðarleigusamningarnir voru til 50 ára. Hann sagði að bæði félagar í Fáki og Gusti hafi eignast þarna lóðir. Bjarni átti hesthús í Faxabóli í Víðidal til ársins 2007 og kvaðst hann einnig hafa greitt lóðarleigu af því beint til borgarinnar.

Bjarni segir að Fákur hafi gert tvö reiðgerði, annað yfirbyggt, í Almannadal í byrjun en borgin hafi staðið fyrir annarri uppbyggingu á svæðinu. Hún hafi gert skeiðvöll, plön undir heyrúllur og fleira og bílastæði þar sem væntanleg reiðhöll á að koma. Eins reiðvegi út frá Almannadal og lýst þá upp.

„Við erum í bréfaskriftum við borgina um að hún byggi litla reiðhöll í Almannadal. Það er forsenda fyrir námskeiðahaldi og öðru slíku yfir vetrartímann. Hestamannafélagið Fákur berst gegn þessu og vill fá alla fjármuni í Víðidal,“ sagði Bjarni. „Það eru óbyggðar lóðir fyrir um 1.000 hross í Almannadal. Fólk er búið að fjárfesta í þessum lóðum og borga öll gjöld af þeim en á meðan það vantar betri aðstöðu fer fólk ekkert af stað.“

Bjarni sagði að flestir hestaeigendur í Almannadal séu félagsmenn í Fáki. „En Fákur er frjálst íþróttafélag og hefur aldrei viljað gæta hagsmuna eigenda hesthúsa fyrr en núna. Fákshúsin í Faxabóli eru líklega á lóðasamningi til 2045-46 eða til svipaðs tíma og lóðarleigusamningar í Víðidal sem eru endurnýjaðir nú til 25 ára. Það er eins og borgin sé að stilla því saman hvenær þessir samningar renna út.“