Kjartan Theophilus Ólafsson fæddist á Látrum í Aðalvík 24. júlí 1924. Hann lést á Seltjörn 2. nóvember 2020. Kjartan var fjórði í röðinni af sjö systkinum. Á Látrum ólst hann upp fyrstu fjögur árin áður en fjölskyldan hélt til vesturstrandar Bandaríkjanna þar sem þau bjuggu næstu fjögur ár. Átta ára gamall var hann aftur kominn í Aðalvíkina, nú að Stað þar sem fjölskyldan bjó næstu árin, áður en þau fluttu aftur að Látrum.

Foreldrar hans voru Ólafur Helgi Hjálmarsson, fæddur í Stakkadal, 14. nóvember 1895 og dáinn í Reykjavík 17. júní 1974, útvegsbóndi og vélvirkjameistari í Reykjavík, og eiginkona hans Sigríður Jóna Þorbergsdóttir, fædd í Neðri-Miðvík í Aðalvík, 2. desember 1899, dáin í Reykjavík 20. mars 1983.

Föðurforeldrar voru Hjálmar Jónsson, útvegsbóndi í Stakkadal, og kona hans Ragnhildur Jóhannesdóttir. Móðurforeldrar voru Þorbergur Jónsson, útvegsbóndi í Efri-Miðvík og kona hans Oddný Finnbogadóttir.

Systkini Kjartans er upp komust voru Ragnhildur, Oddný, Ásta, Friðrik Steinþór, Sveinn og Helga sem ein lifir bróður sinn.

Kjartan kvæntist þann 19. júlí 1951 Bjarneyju Ágústu Skúladóttur, fædd á Ísafirði 26. október 1926, dáin 4. ágúst 2008. Foreldrar hennar voru Skúli Þórðarson skipasmiður á Ísafirði og Sigrún Laufey Finnbjörnsdóttir húsmóðir og verkakona.

Kjartan og Ágústa áttu fimm börn; Jökul Veigar f. 21. desember 1948, Ólaf Helga f. 2. september 1953, Skúla f. 1. september 1954, Hjálmar f. 1. mars 1958 og Bergdísi Lindu f. 1. ágúst 1963.

Jökull Veigar (kjörsonur Kjartans) er rafvirki og rafeindavirki og á tvö börn; Veigar Frey, sem á þrjú börn, og Sigrúnu Elfu.

Ólafur Helgi er lögfræðingur og stjórnsýslufræðingur kvæntur Þórdísi Jónsdóttur og þau eiga fjögur börn: Kristrúnu Helgu, eiginmaður Ómar Freyr Ómarsson, þau eiga einn son. Melkorku Rán, eiginmaður Seckin Erol, þau eiga tvö börn. Kolfinnu Bjarneyju, sambýlismaður Fannar Sævarsson. Og Kjartan Thor, sambýliskona Álfrún Auður Bjarnadóttir.

Skúli er rekstrarhagfræðingur kvæntur Nancy Barish og eiga þau tvær dætur, Hönnu og Söru. Hjálmar er rekstrarhagfræðingur kvæntur Guðnýju Önnu Arnþórsdóttur og eiga þau tvö börn; Friðrik Gauta (faðir hans er Friðrik Guðbrandsson), hann á eina dóttur, og Freydísi Guðnýju, eiginmaður Emil Ásgrímsson, þau eiga þrjú börn.

Bergdís Linda er mannauðssérfræðingur gift Þórði Kristjánssyni og eiga þau tvær dætur; Bylgju (faðir hennar er Árni Páll Árnason), eiginmaður Erik Brynjar Eriksson, þau eiga tvo syni, og Þórdísi Öldu, sambýlismaður Ævar Ísak Ástþórsson.

Kjartan hóf störf til sjós um fermingu og vann sjómannsstörf fyrstu tvo áratugi starfsævinnar. Um tvítugt hóf hann að afla sér menntunar á sviði vélstjórnar og málmsmíði samhliða sjómennskunni og lauk mótorprófum, vélvirkjanámi og að endingu vélstjórnar- og vélfræðingsprófi. Hann kom í land og gerðist vélstjóri í Steingrímsstöð við Sog 1960, þar sem fjölskyldan bjó til 1978. Kjartan lauk starfsævinni við Írafossvirkjun 1994 og fluttu þau hjón þá niður á Selfoss.

Kjartan var áhugasamur um samfélagsmál og sat m.a. í hreppsnefnd Grafningshrepps og skólanefnd Ljósafossskóla, ásamt því að sinna trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn og Frímúrararegluna.

Útförin fer fram frá Fossvogskapellu 6. nóvember 2020, klukkan 11. Í ljósi aðstæðna verða aðeins nánustu aðstandendur viðstaddir en athöfninni verður streymt á

https://tinyurl.com/yyh4jtoq

Virkan hlekk á slóð má nálgast á

https://www.mbl.is/andlat

Með nokkrum orðum vil ég minnast föður míns. Kjartan T. Ólafsson var í senn tenging við 19. öldina, foreldrar hans fæddir fyrir aldamótin 1900, búandi norður á Hornströndum, og einnig heimsborgari. Hann hafði sem barn farið með móður sinni og þremur eldri systrum til Point Roberts í Washington-ríki í Bandaríkjunum og þar bjuggu þau í 4 ár, 1928 –1932, og upplifðu Kreppuna miklu. Faðir þeirra hafði flutt út áður. Ferðalagið var langt og erfitt með viðkomu á Ísafirði, í Reykjavík, Glasgow og Montreal og svo lest þvert yfir Kanada. Hann minntist oft á þessa löngu og ströngu för, sem að einhverju leyti mótaði hann. En þau fluttu aftur norður í Aðalvík til föðurömmu og föðurafa sem biðu þeirra þar.

Frá fermingu og næstu ríflega tvo áratugina var hann til sjós. Fyrstu minningar mínar eru frá því að hann var í smiðjunni, Hamri, að læra vélvirkjun, lesandi fyrir Iðnskólann og síðar Vélskólann. Það var forvitnilegt að fá að koma um borð í Hval 4 meðan hann starfaði þar. Hann var eðli málsins samkvæmt mikið að heiman þar til við fluttum úr Vesturbænum austur að Sogi þar sem við bræðurnir nutum mikils frjálsræðis. Hann sýndi okkur mikið traust bæði á báti á Úlfljótsvatni og ferðum okkar um nágrennið, sem sumar væru vart í frásögur færandi nú um stundir þegar hætta blasti við. En við lærðum að bjarga okkur.

Pabbi gat verið bæði strangur og ljúfur eftir því hvernig á stóð og hjálpaði til þegar skólaganga mín nálgaðist botninn með því útvega hjálp ásamt móður minni. Hann gladdist áföngum í náminu, en hafði ekki fullkomin skilning á tónlistarsmekk mínum og aðdáun á The Rolling Stones enda sjálfur liðtækur harmónikkuspilari af gamla skólanum, en gekk illa að lokka mig að nikkunni, því miður.

Pabbi var mikill bóklesari og keypti margar bækur. Heimilið var eins og bókasafn, alltaf nóg að lesa. Áhugi hans á ættfræði var mikill og við gátum rætt hana, einkum seinni árin. Hann hjálpaði mér félitlum við bílaviðgerðir, ávallt reiðubúinn til aðstoðar líkt og þegar steypa þurfti grunn undir húsið sem við byggðum á Selfossi. Í fáum orðum verður of lítið sagt af langri ævi, en hann varð hvíldinni feginn og vildi finna móður mína á ný sem nú er vonandi orðið. Ég þakka honum allt gott og einkum okkar löngu og stundum djúpu símtöl sem við áttum meðan við fjölskyldan bjuggum á Ísafirði. Ekki verður hjá því komizt að nefna hversu mjög hann sinnti starfi í Frímúrareglunni, en þar eignaðist hann marga góða vini, sem gjarnan hefðu viljað kveðja hann, en aðstæður leyfa ekki.

Að lifa ríflega 96 ár er langur tími og margt upplifað á þeim tíma. Margs er að minnast, bæði gleði og sorgar, en látum gleðina ráða för. Ég kveð þig pabbi minn og þakka þér allt gott og börnin okkar sömuleiðis. Ég mun skila kveðjunni sem þú baðst mig fyrir til ófædds sonar Kjartans nafna þíns og láta hann vita að þú hafir beðið honum blessunar og að þú hafir ekki átt þess kost að hitta hann.

Að lokum þökkum við fyrir þá góðu umönnun og velvilja sem pabbi naut hjá starfsfólki Hjúkrunarheimilisins Seltjarnar.

Ólafur Helgi Kjartansson.

Kjartan T. Ólafsson var fæddur og uppalinn að Látrum í Aðalvík. Þaðan byrjaði hann ungur að stunda sjóróðra með föður sínum. En um það leyti sem Kjartan var hálfþrítugur var sveitarfélagið Sléttuhreppur komið í auðn og lagt af. Ef til vill var sú bitra reynsla skýringin á því hve Kjartan var óvenju frændrækinn og trygglyndur.

Áður hafði fjölskylda hans átt næsta einstæða reynslu er hún fluttist vestur til Point Roberts á Kyrrahafsströnd Bandaríkjanna 1928 þar sem föður hans hafði tæmst arfur en fluttist síðan aftur heim að Látrum 1932, brennd af áhrifum heimskreppunnar.

Kjartan mundi vel ýmislegt úr þessari fjögurra ár dvöl og heimkomunnar minntist hann þannig löngu síðar:

„Upp á Látralagið komum við svo á milli kl. 5:00 og 6:00 um morguninn í fallegu júníveðri og þar var blásið í bátslúðurinn. Í sólarupprisunni gengum við upp brekkuna, upp á Grænutóft og heimsreisu minni var þar með lokið, á brekkunni, þaðan sem ég fór, tæpum fjórum árum fyrr á honum Kalla-Rauð.“

Fyrri hluti starfsævi Kjartans var nær eingöngu bundinn sjómennsku bæði á minni og stærri skipum. Hann lauk vélstjórnarprófi frá Vélskólanum í Reykjavík árið 1958.

Árið 1960 fluttist Kjartan með konu sinni og fjölskyldu að Sogsvirkjunum í Grímsnesi og þar starfaði hann til starfsloka 1994. Kjartan tók virkan þátt í samfélaginu í Grímsnesi, átti sæti í hreppsnefnd um skeið og sá um fjármál Ljósafossskóla um árabil. Hann var félagslyndur að eðlisfari og hvarvetna góður liðsmaður þar sem hann lét til sín taka.

Kjartan gekk í Frímúrararegluna 1962 og var meðal forgöngumanna að stofnun Röðuls á Selfossi 1983.

Eftir starfslokin fluttu þau Ágústa hingað á Selfoss og nutu elliáranna í nýju umhverfi. Ágústa lést árið 2008.

Á þessu seinasta skeiði eignaðist Kjartan marga nýja kunningja svo sem Húnana við Sundhöll Selfoss og fleiri af þeim vettvangi, sem mátu hann að verðleikum og sýndu honum margháttaða vinsemd og ræktarsemi. Mér er kunnugt um að fyrir það allt var hann afar þakklátur.

Sjálfur þakka ég nú við leiðarlok alla tryggð og frændrækni hans í minn garð og minna um leið og ég sendi öllum börnum Kjartans og öðrum aðstandendum hans innilegar samúðarkveðjur.

Ég bið minningu Kjartans T. Ólafssonar blessunar hins hæsta höfuðsmiðs.

Óli Þ. Guðbjartsson.

Góður félagi og vinur hefur nú fengið kærkomna hvíld og eigum við vinir hans í Húnahópnum á Selfossi eftir að sakna vinar í stað, það verður ekki oftar hlaupið með kjötsúpu yfir Hellisheiði. Kjartan var sannur heimsborgari, alinn upp á vesturströnd Bandaríkjanna og Hornströndum, hann var eftirtektarverð persóna, hár, grannur og spengilegur, dökkur yfirlitum, litríkt glæsimenni. Það var ekki hægt að láta sér leiðast í nærveru Kjartans, hann var skemmtilegur félagi með ákveðnar skoðanir, sérvitur á ýmsa lund og sérstaklega matvandur en framúrskarandi gestgjafi, það var aldrei lognmolla í hans nálægð. Kjartani mínum kynntist ég þegar ég var tekin inn í sundhóp sem hékk á húninum á Sundhöll Selfossi eldsnemma á morgnana. Hann var félagi í þessum hóp og tók hann mér strax eins og týndu dótturinni og kynnti mig mjög fljótlega fyrir sinni elskulegu eiginkonu Ágústu sem varð mikil og góð vinkona mín, en hún lést eftir stutt en erfið veikindi því miður of fljótt frá þessum skemmtilega félagsskap, en félagar ásamt mökum náðu að gera margt skemmtilegt saman, farið var í mörg ferðalög innanlands og ekki síður nokkur skemmtileg ferðalög erlendis. Eftir að Ágústa féll frá hélt Kjartan hennar merkjum á lofti og vílaði ekki fyrir sér að halda flottar veislur fyrir okkur félaga sína, bæði meðan hann var enn til heimilis á Selfossi og eins eftir að hann flutti í Kópavoginn. Aldurinn færðist yfir og heilsan tók að bila, hann seldi húsið sitt og flutti í eigin þjónustuíbúð í Boðaþingi í Kópavogi og samverustundir okkar urðu færri, í rúmt ár hefur hann dvalið í Seltjörn á Seltjarnarnesi og hitti ég hann þar síðast á 96 ára afmælidegi hans, 24. júlí sl.

Nú er komið að leiðarlokum, samverustundir verða ekki fleiri í þessari tilveru, ég þakka mínum góða vini fyrir samfylgdina og óska honum góðrar heimkomu í sumarlandið þar sem ég er fullviss um að vel hefur verið tekið á móti honum.

Fyrir mér varst þú ímynd hins göfuga og góða

svo sterkur einlægur og hlýr.

Örlög þín ráðin – mig setur í hljóða

við hittumst samt aftur á ný.

Megi algóður guð þína sálu nú geyma

gæta að sorgmæddum græða djúp sár.

Þó kominn sért yfir í aðra heima

mun minning þín lifa um ókomin ár.

(Höf. ókunnur)

Fyrir hönd Húnanna sendi ég aðstandendum hans samúðarkveðjur og munum að minningin er ljós sem lifir.

Sigríður J. Guðmundsdóttir (Sirrý).

Ég kveð góðan vin til margra ára með þessu ljóði sem ég flutti á níræðisafmæli hans.

Standbjörgin vestfirsku, Straumnes og Ritur,

ströndum við Aðalvík, öruggir verðir.

Norðvestan stórviðri, næðingur bitur

er náttúruaflið sem mannsbarnið herðir.

Fiskisæld miðanna fengsæla drengi

fljótlega gerir þá athafnaglaða.

Á vertíð með föðurnum var hann ei lengi,

sem veiðikló þekkti hann til bestu staða.

Við vélfræðinámið þá var ekki tafið,

vélsmiðjan afgreidd og bóklestri lokið.

Fram undan vinnan og heillandi hafið

á Hermóð og togara tafarlaust rokið.

Raforkuöryggi er albesta gengi

við allharðar kröfur til starfsmanna gerum.

Kjartan T. var þarna á vaktinni lengi

við verkstjórn og gæslu í raforkuverum.

Ef horft er á lífshlaupið lítið eitt innar,

hvað líklega hamingju mun hafa valdið.

Hann var aðstoðarmaður hennar Ágústu sinnar

við uppeldi barna og heimilishaldið.

Það er gegn og góður siður,

góða vini að kveðja.

Hinn hæsti höfuðsmiður

mun heiðursmanninn gleðja.

Samúðarkveðjur til fjölskyldunnar.

Hjörtur Þórarinsson.