Valdimar Jónsson fæddist 24. nóvember 1943 í Hvallátrum á Breiðafirði. Hann lést 23. október 2020 á heimili sínu í Hafnarfirði.

Hann var sonur hjónanna Jóhönnu Sesselju Friðriksdóttur, f. 19.10. 1899, d. 30.6. 1989, og Jóns Daníelssonar, f. 25.3. 1904, d. 20.8. 1988. Systkini Valdimars eru: Ólína Jóhanna, f. 1933, gift Hafsteini Guðmundssyni. Daníel, f. 1934, d. 2013, giftur Steinunni Bjarnadóttur. María Theódóra, f. 1938, gift Einari Siggeirssyni. Elín Ágústa, f. 1941, d. 1943. Hálfsystkini Valdimars sammæðra af fyrra hjónabandi Jóhönnu og Aðalsteins Ólafssonar eru: Drengur, andvana fæddur 1921. Aðalsteinn Eyjólfur, f. 1923, d. 2014, giftur Önnu Margréti Pálsdóttur. Björg Ólafía, f. 1922, d. 2008, gift John Savage. Fósturbróðir Valdimars er: 1) Aðalsteinn Valdimarsson, f. 1938, d. 2013, í sambúð með Guðfinnu Vigfúsdóttur.

Fyrri eiginkona Valdimars var Sigríður Jónasdóttir, f. 1947, d. 2013, en þau skildu. Dætur þeirra eru: 1) Jóhanna iðnrekstrarfræðingur, f. 18. ágúst 1967, gift Grétari Erni Marteinssyni, f. 1966. Þeirra dætur eru: a) Sólrún Tinna, f. 1988, í sambúð með Baldvin Gunnþórssyni, synir þeirra eru: i) Gunnþór Örn, f. 2008, og ii) Aron Máni, f. 2016. b) Sigríður Helga, f. 1996. 2) Anna hjúkrunarfræðingur, f. 30. apríl 1969, gift Guðmundi Erni Jónssyni, f. 1969. Þeirra börn eru: a) Berglind Ósk, f. 1998. b) Aldís, f. 2000. c) Alexander Örn, f. 2008.

Valdimar kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Aðalheiði Halldórsdóttur, f. 4. janúar 1946, hinn 26. maí 1973. Aðalheiður er dóttir hjónanna Láru Kristjönu Hannesdóttur, f. 27.10. 1926, d. 23.7. 2008, og Halldórs Karls Gíslasonar, f. 12.4. 1920, d. 24.2. 1957. Þeirra börn eru: 1) Halldóra Klara flugumferðarstjóri, f. 24. mars 1973, gift Jónatan Guðnasyni, f. 1969. Þeirra börn eru: a) Valdimar Friðrik, f. 1997. b) Rósa Petrea, f. 2010. c) Lára Júlía, andvana fædd 2017. 2) Drengur, andvana fæddur 8. maí 1978. 3) Margrét Guðrún viðskiptafræðingur, f. 19. júlí 1980.

Valdimar ólst upp í Hvallátrum á Breiðafirði en dvaldi á veturna í Flatey og stundaði nám við barnaskólann þar. Að barnaskóla loknum hélt hann fjölskylduhefðina í heiðri og lauk prófi í skipasmíði við Iðnskólann í Reykjavík. Valdimar hélt áfram námi og lauk einnig prófi frá Lögregluskóla ríkisins og starfaði sem lögreglumaður frá ársbyrjun 1967, lengst af sem yfirlögregluþjónn í Kópavogi.

Útför Valdimars fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 6. nóvember 2020, klukkan 13. Streymt verður frá athöfninni á:

https://youtu.be/2adWDzQ22rs

Virkan hlekk á slóð má nálgast á:

https://www.mbl.is/andlat

Í dag kveðjum við elskulegan föður minn, Valdimar Jónsson, Valda.

Þegar ég hugsa um föður minn koma fyrst upp í hugann átthagar hans í Hvallátrum á Breiðafirði. Taugin við eyjarnar var alltaf sterk og á vorin var hugur hans kominn út í eyjarnar. Birtan er öðruvísi í eyjunum, var hann vanur að segja, og ég skildi hvað hann átti við, þessi undurfagri blái litur á himninum á sólríkum degi.

Það að hafa upplifað það ævintýri að dvelja á sumrin í eyjunum á Breiðafirði er ómetanleg reynsla. Lúðu- og selveiðar, bátar, bátasmíði, smíðar, dytta að, rækta garðinn, uppbygging, finna hvað fór úrskeiðis til þess að geta gert betur næst voru hans ær og kýr. Við systurnar nutum allar góðs af hvatningu föður okkar en hann var óþreytandi í því að leiðbeina okkur og hvetja til dáða sama hvort það var í námi, starfi eða í leik og tómstundum. Hann fylgdist ávallt vel með og hafði mikla og einlæglega ánægju af því að eyða tíma með barnabörnunum og barnabarnabörnunum og heyra af þeim þess á milli hvað þau væru að fást við og hvernig gengi. Þú gafst mér ómetanlegt veganesti og góðar minningar sem munu ylja mér um hjartarætur um ókomna tíð.

Megi allir heimsins englar vaka yfir þér.

Jóhanna.

Í dag kveð ég elsku föður minn. Ég minnist hans með hlýhug, en hann var fallegur maður bæði að utan sem innan. Þótt hann væri ekki mikið fyrir að bera tilfinningar sínar á torg vissi ég alltaf hvað honum þótti vænt um mig, þó að hann segði það ekki með berum orðum.

Hann var mikill fjölskyldumaður og var mjög stoltur af afkomendum sínum og hafði unun af því að fylgjast með hvað var að gerast í lífi þeirra. Hann vildi ekki missa af neinu og undir það síðasta, þegar hann var orðinn mjög veikur og lá á hjartadeildinni, bað hann mig að hringja í sig og láta sig vita hvernig Alexander syni mínum hefði gengið í úrslitaleiknum um Íslandsmeistaratitilinn í fótbolta í hans aldursflokki. Þegar hann svo frétti af sigrinum sagði hann stoltur: „Já auðvitað unnu þeir.“

Pabbi var áhugasamur um menn og málefni og fylgdist vel með fréttum og hafði sterkar skoðanir og gátu hann og eiginmaður minn oft rætt hin ýmsu pólitísku málefni í þaula. Pabbi missti aldrei úr fréttatíma. Ég vissi að hann var orðinn mjög veikur þegar hann fór að missa úr fréttatíma.

Pabbi bar alltaf sterkar taugar til Breiðafjarðareyja, sem voru hans æskustöðvar, og naut þess að fara þangað á sumrin á meðan heilsan leyfði. Þaðan kom hann alltaf endurnærður, sólbrúnn og flottur svo geislaði af honum.

Pabbi var áhugasamur um garðrækt og eyddi ófáum stundum í að rækta rósir og ýmislegt annað í garðinum sínum í Kvistaberginu. Í gegnum tíðina hef ég svo fengið litla græðlinga frá honum sem hann fann þar og eru nú stór og falleg tré í garðinum mínum. Hann fylgdist vel með því hvernig þessi tré uxu og döfnuðu.

Elsku pabbi. Ég og öll mín fjölskylda kveðjum þig með miklum söknuði og þökkum þér fyrir allar góðu samverustundirnar og minningarnar.

Anna.

Nú hefur elsku pabbi siglt á nýjar slóðir. Hann skilur eftir sig stórt skarð sem aldrei verður fyllt. Pabbi var hlýr maður og mikill fjölskyldumaður. Alltaf heilsaði hann og kvaddi með kossum og faðmlögum og gjarnan fylgdi svolítið klapp á bakið líka. Hann elskaði fólkið sitt og lét ekkert tækifæri fram hjá sér fara til að segja okkur og sýna hversu vænt honum þætti um okkur. Eitthvað sem ég mun alltaf reyna að taka mér til fyrirmyndar. Alltaf var pabbi boðinn og búinn að rétta hjálparhönd, hvort sem það var að vakna um miðjar nætur til að keyra og sækja í flug, lagning parkets og loftaplatna, pössun barnabarnanna eða hvaðeina sem hann taldi að gerði okkur gott. Pabbi var líka ákaflega skemmtilegur afi. Hann var fróður og hafði svo margt að kenna ungum afkomendum sínum. Þolinmæði hans var einstök við lestrarkennslu, heimalærdóm og yfirferð margföldunartöflunnar. Frumsömdu sögurnar voru líka sérstaklega skemmtilegar, iðulega fullar af ævintýrum með selum, tröllum, kúm og ýmsum kynjaverum í aðalhlutverkum.

Pabbi starfaði sem lögreglumaður í yfir fjörutíu ár, lengst af sem yfirlögregluþjónn. Hann var líka lærður skipasmiður og hafði sérstaka ástríðu fyrir gömlum bátum úr Breiðafirði. Það voru ófáir bátarnir sem hann ýmist gerði upp eða endursmíðaði og sótti ég mikið í að fá að sýsla með honum í því. Ég hef nú sjálfsagt aldrei verið til mikils gagns við endursmíði og viðhald gamalla báta en alltaf átti pabbi pláss um borð fyrir mig og einhver verkefni þegar ég vildi.

Pabbi átti hamingjuríka æsku í Hvallátrum og áttu eyjarnar á Breiðafirði, eyjalífið og fólkið hans þar ætíð stóran sess í huga hans. Hann naut þess að fara vestur og smíða bryggjur og báta, veiða lúðu, lunda, sel og skarf og tína dún og egg hinna ýmsu fuglategunda. Stundum fékk ég að fara með vestur. Þar naut ég hverrar stundar með honum enda eyjarnar hans einstök ævintýraveröld. Skemmtilegast þótti mér að fá að fara með honum á sjó til hinna ýmsu veiða og voru lúðuveiðar hápunkturinn. Í síðasta langa spjallinu okkar ræddum við einmitt lengi um lúðuveiðar, hvar hans stærstu lúður veiddust, á hvaða beitu og hvernig staða sjávarfallanna var. Ég mun ætíð geyma þennan dýrmæta fróðleik.

Síðastliðið sumar fórum við í okkar síðustu ferð saman vestur í Flatey. Breiðafjörðurinn skartaði sínu allra fegursta allan tímann á meðan við dvöldum í eyjunni. Þótt þarna hafi heilsu pabba verið farið að hraka nokkuð tók hann ekki annað í mál en að ganga um alla eyjuna, njóta útsýnisins og vitja leiða ættingjanna í kirkjugarðinum. Einnig komum við okkur vel fyrir þar sem best sést út í Hvallátur og horfðum lengi til fallegu heimahaganna hans. Hann virti líka vel fyrir sér fuglana og það gladdi hann mjög að sjá aukið fugladrit sem merki um að fuglalífið væri aðeins að taka við sér á ný.

Elsku pabbi minn, ég mun alltaf sakna þín en umfram allt er ég svo þakklát fyrir að hafa átt þig sem föður og afa barnanna minna. Takk fyrir allt, elsku besti pabbi minn, mér þykir alltaf svo vænt um þig líka.

Þín

Halldóra (Dóra).

Það hefur verið mín mesta gæfa í lífinu að eiga góða foreldra sem veittu mér ómetanlegt veganesti út í lífið. Pabbi var þar enginn eftirbátur og veitti leiðsögn sína með góðu fordæmi og ríkulegri þolinmæði. Ég var mjög ung að árum þegar pabbi hóf að kenna mér að lesa og reikna en eljusemin við kennsluna varð til þess að ég var orðin læs um fjögurra ára aldur. Orðskilningurinn var í litlu samræmi við lestrarkunnáttuna og olli háværa, skýrmælta barnið föður sínum oft töluverðum vandræðagangi þegar spurt var um merkingu áður óheyrðra orða sem voru ekki alltaf þau fegurstu í íslenskri tungu.

Pabbi hafði einlægan áhuga á málrækt, víðtækan orðaforða og sérstakt lag á því að koma fyrir sig orði. Bókalestur og glíman við góða krossgátu var dægradvöl að hans skapi en sérstaklega hafði hann gaman af því að leika sér með tungumálið. Umhverfisvænn maður var þannig ekki endilega maður sem hneigður var til umhverfisverndar eða loftslagsmála heldur sá sem hafði frjálslegra mittismál en góðu hófi gegndi. Það gat stundum tekið góða stund að átta sig á kaldhæðinni tvíræðninni.

Þrátt fyrir að gegna störfum á opinberum vettvangi og stuðla að framgangi mikilvægra mála í almannaþágu var pabbi mjög hlédrægur maður og fannst raunar mjög óþægilegt þegar athygli annarra beindist að honum. Á fjórða áratug síðar minntist hann þess enn með töluverðum óþægindum þegar yngsta dóttir hans vakti ítrekaða athygli annarra með óviðeigandi athugasemdum um nærstatt fólk, svo mjög að hann forðaðist eins og hann gat að hafa mig með sér á fjölfarna staði. „Pabbi, er þetta api?“ voru honum minnisstæð ummæli sem voru látin falla á göngugötunni á Akureyri þar sem ég nýtti vel útsýnið sem bauðst á háhesti föður míns. Svo óheppilega vildi til að pabbi kannaðist vel við manninn sem um var spurt en viðurkenndi síðar fúslega að ásýnd mannsins og líkamsburðir gáfu opnum huga barns tilefni til að velta fyrir sér hvers kyns var. Það leið þó ekki á löngu þar til ég tamdi mér betri hegðun á almannafæri og við pabbi nutum þess að eiga yndislegar samverustundir sem ég varðveiti í hjarta mér. Ferðalög innanlands sem utan, veiðiferðir og fjölskyldustundir heima eru dýrmætar minningar sem ég er einstaklega þakklát fyrir. Sérstakan sess í hjarta mér skipa ferðirnar á æskuslóðir hans á Breiðafirði síðustu ár og þrátt fyrir að honum hafi stundum verið nóg um ákefð mína með myndavélina, þá eru þær myndir minn stærsti fjársjóður.

Elsku pabbi, það er töluvert breytt heimsmynd sem litla pabbastelpan þín þarf nú að laga sig að. Ég er svo þakklát fyrir þann tíma sem ég fékk með þér; stuðninginn og hvatninguna, allt sem þú kenndir mér, gleðistundirnar, traustu vináttuna, öll góðu ráðin og alla elskuna sem þú sýndir mér. Ég hef ekki enn tileinkað mér allt sem þú kenndir mér en fræjunum var sáð og fyrirmyndin sannarlega góð. Ég mun sakna þess að deila með þér sigrum mínum og sorgum en þú verður ætíð í hjarta mér, hvert sem ég fer. Takk fyrir allt elsku besti pabbi minn. Ég elska þig, þín

Margrét.

Það er með mikilli hlýju og söknuði sem ég minnist tengdaföður míns, Valdimars Jónssonar. Ég kynntist Valda fyrir rúmum aldarfjórðungi þegar við Dóra, dóttir hans, fórum að draga okkur saman. Á þessum tíma var ég rétt nýskriðinn út úr Lögregluskólanum en hann yfirlögregluþjónn. Ég þekkti því til Valda án þess að þó að þekkja hann persónulega. Ég var ákaflega stressaður að hitta hann í fyrsta sinn sem kærasti dóttur hans en það var fljótt sem ég fann að það var hinn mesti óþarfi. Móttökurnar voru góðar, ekki síst eftir að í ljós kom að faðir minn og Valdi höfðu löngu fyrr verið skólafélagar í Iðnskólanum í Reykjavík. Nærvera Valda var alltaf góð og það var fljótt eins og við hefðum alltaf þekkst enda ýmislegt sem við áttum sameiginlegt.

Valdi var frá Hvallátrum á Breiðafirði. Þær eru dýrmætar minningarnar frá ferðum okkar fjölskyldunnar með Valda vestur í Flatey, þar sem hann átti um tíma hlut í húsi með systur sinni. Þar var ýmislegt sýslað og kenndi tengdapabbi mér handtökin við að veiða lúðu, háfa lunda og rota skarfa. Hann kenndi mér líka að meta allan eyjamatinn sem honum fannst svo góður og gaf góð ráð við það hvernig matreiða ætti slíkt góðgæti. Valdi var alltaf boðinn og búinn að aðstoða þegar á þurfti að halda. Hann var sérlega handlaginn, hvort sem um var að ræða viðhald og lagfæringar á gömlum hlutum eða nýsmíði ýmiss konar. Hann eyddi löngum stundum við að aðstoða okkur Dóru við að gera húsið okkar tilbúið ásamt föður mínum. Voru þessar stundir mér mjög dýrmætar og lærdómsríkar.

Valdi var einstaklega góður afi og eiga börnin mín dýrmætar minningar um skemmtilegar samverustundir með afa sínum og ömmu. Valdi var óspar á tíma sinn og athygli. Hann sagði skemmtilegar sögur, gjarnan frá heimaslóðunum, og var alltaf tilbúinn að lesa bækur fyrir börnin. Hann sýndi áhugamálum afkomendanna mikla athygli og var alltaf tilbúinn að skutla og sækja á íþróttaæfingar og í tónlistartíma. Valdi var líka mikill dýravinur og fengu gæludýr fjölskyldunnar einnig sinn skerf af athyglinni.

Á þessum tímamótum, við fráfall kærs tengdaföður, er margs að minnast og margs að sakna en ekki síst svo margt sem ég er þakklátur fyrir eftir áralanga dýrmæta samfylgd.

Jónatan Guðnason.

Elsku besti afi minn. Þú varst alltaf svo góður og skemmtilegur afi og passaðir mig svo vel. Við brölluðum mikið saman. Þú kenndir mér stafina og margföldunartöfluna og svo margt fleira. Þegar ég kom til þín og ömmu að gista last þú margar bækur fyrir mig og sagðir mér líka svo skemmtilegar sögur um álfa, hunda og ýmis fleiri dýr. Mér fannst það alltaf svo skemmtilegt að ég tímdi ekki að fara að sofa. Takk fyrir tímann okkar saman, elsku afi minn. Ég mun alltaf geyma allar góðu minningarnar um þig í hjarta mínu. Ég elska þig.

Vertu nú yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni.

Sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sigurður Jónsson)

Þín

Rósa Petrea.

Ein af mínum fyrstu minningum er um hann afa að lesa fyrir mig sögur á kvöldin þegar ég var í pössun hjá honum og ömmu. Bókin Selurinn Snorri var í miklu uppáhaldi hjá okkur og var hún því oft lesin fyrir mig. Afi ólst upp í Hvallátrum á Breiðafirði og var hafið alltaf ofarlega í huga hans. Hann las því söguna um Snorra sel af mikilli innlifun og þekkingu á sjávardýrum. Þessi áhugi hans á hafinu hafði bráðsmitandi áhrif á mig. Verst er að ég verð sjóveikur við það eitt að horfa út á bryggjuna en það stöðvaði mig ekki við að fara með afa á heimaslóðir hans í Flatey og Hvallátrum. Þar sem ég var með höfuðið fyrir utan borðstokkinn og hádegismatinn í sjónum sagði afi mér sjómannasögur og lýsti fyrir mér skepnum hafsins af mikilli list og nákvæmni. Það var engu líkara en ég væri kominn inn í dýralífsþáttaröð með David Attenborough, slíkur var áhuginn.

Það var eitt allsherjarævintýri að vera með afa fyrir vestan. Þar kenndi hann mér handtökin við að háfa lunda og veiða lúðu. Einnig sagði hann mér frá því hvernig mannlífið var á Breiðafjarðareyjunum þegar hann var að alast þar upp. Hvað mín áhugamál varðaði þá studdi afi mig í einu öllu og var afar áhugasamur að heyra af því sem ég tók mér fyrir hendur hverju sinni. Afi passaði alltaf upp á að ég sinnti náminu mínu vel og byrjaði að kenna mér að lesa við fyrsta tækifæri. Þetta varð til þess að ég var farinn að lesa bækurnar í bókahillunni hjá ömmu og afa áður en ég gat tjáð mig í heilum setningum.

Á meðan afi hafði heilsu til fór hann oft og iðulega með mig í langa göngutúra um Setbergið þegar ég kom í pössun. Saman leituðum við að peningablómum, fiskum í læknum og ljónum í „frumskógum“ Hafnarfjarðar. Við fundum bæði fiska og peningablóm í þessum ævintýraferðum en aldrei sáum við þó ljón. Þó svo að ég væri kominn yfir tvítugt staðhæfði afi að ljónin væru þarna, við þyrftum bara að leita betur.

Afi varði löngum stundum með mér og eru þessir tímar okkar saman mér afar dýrmætir. Afi var mikil gersemi með hjarta úr gulli. Heilu skipalestirnar af peningablómum komast ekki í hálfkvisti við þann fjarsjóð af minningum sem ég á um hann afa minn. Takk fyrir allt elsku afi minn, ég mun alltaf sakna þín.

Valdimar Friðrik.

Kæri afi.

Nú þegar þú ert farinn frá okkur minnist ég góðra stunda sem við áttum. Mér þykir ótrúlega vænt um þær minningar en tvær standa upp úr.

Kaffiboðin hjá þér og Öllu. Þið tókuð alltaf svo vel á móti manni. Alltaf til nóg af kexi og heitt á könnunni. Enginn fór frá ykkur svangur.

Og jólaboðin, með hangikjöti og uppstúf. Mér þótti það ekki einu sinni gott en samt var alltaf gott að koma til ykkar. Ég man eftir lyktinni. Man eftir stóra borðinu með allri fjölskyldunni og mjög svo fallega skreytta trénu. Ég man eftir hlátrinum og hlýjunni.

Þú hafðir alltaf svo mikinn áhuga á að vita hvað væri í gangi í lífinu mínu og allra annarra í kringum þig. Það var svo ótrúlega gaman að segja þér frá árangri, því ég sá hvað þér þótti vænt um það að mér gekk vel.

Mér þykir það ótrúlega leitt að hafa ekki geta séð þig meira á seinustu árum, nú þegar ég bý í Berlín. Nú eru skrítnir tímar og þeir eru enn skrítnari vitandi það að komandi hátíðir verði án þín.

Ég veit að það sem ég mun sakna mest eru faðmlögin þín.

Ég gæfi mikið til að fá eitt gott afaknús til viðbótar.

Hvíldu í friði, elsku Valdi afi, og takk fyrir allt.

Sigríður Helga

Grétarsdóttir.

Mínir vinir fara fjöld,

feigðin þessa heimtar köld,

eg kem eftir, kannski í kvöld,

með klofinn hjálm og rofinn skjöld,

brynju slitna, sundrað sverð og syndagjöld.

(Bólu-Hjálmar)

Frændi minn og æskufélagi Valdi í Látrum er fallinn í valinn. Við andlát hans fyllist hugur minn söknuði og angurværð en jafnframt þakklæti fyrir allar góðu minningarnar, ekki síst frá æskuárum okkar heima í Breiðafjarðareyjum. Við erum fæddir og uppaldir hvor í sinni eyju, Hvallátrum og Skáleyjum, hann tæpu ári eldri. Móðir mín og faðir hans voru systkinabörn og jafnframt fóstursystkini, eftir að Daníel (þá ekkjumaður), afi Valda, drukknaði frá stórum barnahóp. Þar af leiðandi var mikil vinátta alla tíð milli heimilanna í Látrum og Skáleyjum.

Á æskuárum okkar var ennþá blómlegt líf í eyjunum. Ekki man ég hvenær ég uppgötvaði tilveru frænda míns í Látrum en með aðstoð eldri systkina fóru snemma að berast myndir og gjafir okkar á milli. Börn voru ekki að ferðast á milli eyja fyrir skólaaldur á þessum árum. Þó man ég eftir að hafa verið yfir nótt í Látrum þegar við Valdi vorum u.þ.b. sjö ára. Hann var bráðþroska, fluglæs og atgervismeiri til sálar og líkama en ég. Las fyrir okkur upphátt úr barnabók er við vorum háttaðir í sama rúm í herbergi hjá foreldrum hans.

Tíu ára fer ég í barnaskóla í Flatey. Þá er Valdi búinn að vera þar veturinn áður og orðinn sjóaður í stórborginni Flatey. Valdi var góður námsmaður og fór létt í gegnum námið. Húmoristi var hann og fundvís á spaugilegu hliðarnar á mannlífinu og gat brugðið sér í gervi annarra, oft með góðum árangri. Eitt vorið á unglingsárum okkar fórum við um tíma á skak með nafna hans Stefánssyni úr Stykkishólmi. Valdi var þar afkastamikill og sjóhraustur. Hann fór á vertíðarbát frá Stykkishólmi með Gústa P. og í síldarleit á togaranum Þorsteini Þorskabít með Jóni Einarssyni skipstjóra frá Flatey. Þessi tími Valda hefur verið honum minnisstæður því oft í seinni tíð vitnaði hann í veru sína á „Bítnum“.

Veturinn 1962 var Aðalsteinn bróðir Valda að ljúka smíði á 7 tonna bát fyrir Svefneyjafeðga. Við Valdi vorum með honum í þessu ásamt Nilla, öðrum kaupandanum. Valdi lærði svo bátasmíði hjá Steina bróður sínum í Látrum. Í Iðnskólanum í Reykjavík vorum við aftur samferða. Leigðum saman herbergi í tvo vetur og stunduðum námið og skemmtanalífið af kostgæfni. Stundum er sagt í gamni og ofurlítilli alvöru að í genum eyjafólksins væri mikið um þverhausa og þrákálfa og erfitt að hrekja þá af leið í skoðunum. Við Valdi vorum ekki alltaf sammála á þessum árum.

En ekki minnist ég þess að við eyddum tíma okkar í þras, enda lífið skemmtilegt. Valdi vann ekki lengi við iðngrein sína. Hann gerðist snemma lögregluþjónn í Kópavogi og vann sig þar upp í yfirmannsstöður.

Þegar mitt tímaglas er tómt, trúi ég að Valdi standi á ströndu og hafi gert sjóklárt. Þessi minningabrot eru hvorki fugl né fiskur af æviferli Valda en létta aðeins á huga mínum við upprifjun.

Elsku Alla. Henný, ég og okkar fjölskylda vottum þér og ástvinum ykkar einlæga samúð.

Ólafur Gíslason.

Rödd vinar er þögnuð.

Valdimar Jónsson lést á heimili sínu þann 23. október sl. eftir erfið veikindi. Valdimar var fæddur að Hvallátrum í Breiðafirði þann 24. nóvember 1943. Foreldrar Valdimars voru Jón Daníelsson og Jóhanna Friðriksdóttir. Valdimar var yngstur systkina sinna og ólst upp við öll þau störf sem fylgdu því að búa á eyju. Hagleiksbátasmiðir voru í Hvallátrum og voru þar smíðaðir margir bátar. Snemma tók Valdimar þátt í þeim verkum og varð það til þess að hann lærði skipasmíðar síðar. Valdimar var tvíkvæntur og eignaðist dæturnar Jóhönnu og Önnu, með Sigríði Jónsdóttur. Dæturnar Halldóru og Margréti eignaðist Valdimar með seinni eiginkonu sinni Aðalheiði Halldórsdóttur.

Örlögin höguðu þó því þannig að ævistarf Valdimars varð ekki við skipasmíðar heldur við löggæslustörf. Hann hóf störf hjá lögregluliði Kópavogs 1. jan. 1967. Kynni okkar Valdimars hófust í janúarbyrjun árið 1970, þá var Valdimar að fara til að ljúka síðari önn lögregluskólans. Var á þeim tíma auglýst afleysingarstaða laus hjá lögreglunni. Ég sótti um afleysingarstöðuna og fékk.

Sigurgeir Jónsson bæjarfógeti í Kópavogi hefur séð kosti og hæfileika í Valdimari, en hann varð snemma varðstjóri. Þægilegt var að vinna undir stjórn Valdimars því hann hafði þægilegt viðmót, þekkingu og gott vald á starfi sínu.

Er staða aðstoðaryfirlögregluþjóns í Kópavogi losnaði var Valdimar ráðinn til að gegna henni, sem hann gerði í nokkur ár.

Vinnuaðstaða lögreglu Kópavogs var mjög góð og sama má segja um starfsandann. Eftir nokkur ár sem Valdimar hafði starfað sem aðstoðaryfirlögregluþjónn losnaði staða yfirlögregluþjóns og hlaut Valdimar þá stöðu.

Yfirlögregluþjónninn stýrði lögregluliði Kópavogs sem fyrr, með sínu þægilega viðmóti og góðu valdi á ábyrgðarmiklu starfi sínu.

Breiðfirðingurinn Valdimar vissi að sjómenn er sigldu þöndum seglum um Breiðafjörð gátu átt það á hættu að upp risu brotsjóir er riðu á bát þeirra og menn gátu orðið hraktir og velktir.

Brot af mannavöldum umvafið pólitík reið yfir Valdimar og lögregluliðið í Kópavogi, þar dugðu hvorki þægilegt viðmót yfirlögregluþjóns, né gott vald hans á starfi sínu. Endalok þessa óheillamáls féllu þungt á Valdimar.

Þær urðu ófáar heimsóknir mínar á myndarlega heimili þeirra Valdimars og Aðalheiðar í Hafnarfirði, þar sem ljúft var heim að sækja. Það duldist aldrei hversu sterkar rætur átthaginn í Breiðafirði átti í Valdimari.

Í janúar 1967 afhenti bæjarfógetinn í Kópavogi, Sigurgeir Jónsson, Valdimari gylltan og fagran lögregluskjöld sem honum bar að bera við störf. Aldrei féll blettur á lögregluskjöld Valdimars Jónssonar.

Löggæsla varð ævistarf okkar beggja.

Blessuð sé minning Valdimars Jónssonar.

Eðvarð L. Árnason.

Kæri vinur. Ég kynntist þér fyrst árið 1980 þegar ég hóf störf hjá lögreglunni í Kópavogi. Þau kynni leiddu til þess að við urðum vinir ævilangt. Ég minnist þín sérstaklega fyrir hvernig þú komst fram við mig er ég átti í erfiðleikum í einkalífinu 1987. Ég minnist þess líka þegar við samstarfsmenn þínir nær einhuga völdum þig til að taka við starfi yfirlögregluþjóns í Kópavogi, sem gekk eftir.

Þú varst hógvær og yfirvegaður yfirmaður með mikla réttlætiskennd. Ég veit að ég flyt þér kveðju margra samstarfsmanna þinna.

Minning þín lifir.

Alla mín og fjölskylda, ég votta ykkur mína dýpstu samúð.

Lárus Ragnarsson.