Óvissa Stuðningsmenn Bidens í Seattle, Portland og New York héldu mótmæli í fyrrinótt og kröfðust þess að öll atkvæði yrðu talin. Stuðningsmenn Trumps mótmæltu á sama tíma í Michigan og Arizona meðal annarra ríkja.
Óvissa Stuðningsmenn Bidens í Seattle, Portland og New York héldu mótmæli í fyrrinótt og kröfðust þess að öll atkvæði yrðu talin. Stuðningsmenn Trumps mótmæltu á sama tíma í Michigan og Arizona meðal annarra ríkja. — AFP
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Joe Biden, forsetaframbjóðandi demókrata, virtist færast nær því í gær að ná tilskildum fjölda kjörmanna, þegar nýjar tölur bárust frá Nevada-ríki um kvöldmatarleytið að íslenskum tíma, sem sýndu aukna forystu hans...

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Joe Biden, forsetaframbjóðandi demókrata, virtist færast nær því í gær að ná tilskildum fjölda kjörmanna, þegar nýjar tölur bárust frá Nevada-ríki um kvöldmatarleytið að íslenskum tíma, sem sýndu aukna forystu hans þar. Óvissan sem skapast hefur í kjölfar kosninganna hefur leitt af sér óróa innan Bandaríkjanna, og hafa stuðningsmenn beggja frambjóðenda gripið til mótmælaaðgerða vegna eftirmálanna.

Þá hefur framboð Donalds Trump Bandaríkjaforseta sent frá sér nokkrar kærur í ríkjunum sem enn eiga eftir að greina frá niðurstöðum kosninganna, með þá von að þær geti tryggt forsetanum sigur.

Nevada líklega til Bidens

Ein þeirra var í Nevada, en framboð Trumps hélt því fram í gær að þar hefðu framliðnir kosið í miklum mæli, án þess þó að setja fram nein gögn máli sínu til stuðnings. Vildi framboðið henda um 10.000 atkvæðum vegna þessa. Eftir kosninganóttina munaði einungis um 8.000 atkvæðum, Biden í vil, þrátt fyrir að kannanir hefðu bent til þess að hann ætti að vinna ríkið auðveldlega. Eftir því sem fleiri tölur bárust, breikkaði hins vegar bilið á milli Bidens og Trumps og töldu stjórnmálaskýrendur eftir það nánast formsatriði að setja ríkið og kjörmenn þess í dálk Bidens.

Augu flestra beindust hins vegar að Arizona og Georgíu-ríki í gær, en sumir fréttamiðlar hafa þegar spáð því að fyrrnefnda ríkið endi demókratamegin. Verði það raunin hefur Biden þegar tryggt sér 270 kjörmenn, eða nægan meirihluta til þess að vinna kosningarnar. Mjög mjótt er hins vegar á mununum og töldu stuðningsmenn forsetans, að hann ætti mikið inni í ótöldum atkvæðum. Kom hópur þeirra saman í fyrrinótt fyrir utan talningarstöðina í Phoenix, og kröfðust þess að talningu yrði haldið áfram. Voru sumir vopnaðir, en lögreglan meinaði þeim aðgang að stöðinni án eftirmála.

Kjósa þarf aftur í Georgíu

Í Georgíu vildu stuðningsmenn hans hins vegar að talningin yrði stöðvuð, þar sem Trump leiddi þar með sáralitlum mun, á meðan þau póstatkvæði sem eftir var að telja komu að meginstofni frá Atlanta og öðrum borgum þar sem demókratar eru í miklum meirihluta.

Þar vonaðist kjörstjórn til þess að talningu lyki í gærkvöldi, en þegar var ljóst að kjósa yrði aftur um bæði þingsæti ríkisins í öldungadeildinni í janúar, þar sem enginn frambjóðandi fékk meira en 50% atkvæða, en Georgía er eina ríkið sem hefur þann háttinn á.

Rudy Giuliani, lögmaður Trumps, flaug til Pennsylvaníu á miðvikudag þar sem hann ásakaði demókrata um kosningasvindl. Sagðist hann hafa efesemdir um framkvæmd kosninganna og fullyrti að 120 þúsund atkvæðaseðlar hefðu óvænt fundist í Wisconsin. Auk þess taldi hann eftirlitsmönnum repúblikana hafa verið haldið frá talningu í fleiri ríkjum.