[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
*Knattspyrnuþjálfarinn Kristján Guðmundsson hefur framlengt samning sinn við Stjörnuna og mun þjálfa kvennalið félagsins næstu tvö árin. Kristján tók við Stjörnunni árið 2018 og hefur lokið tveimur tímabilum með liðinu.

*Knattspyrnuþjálfarinn Kristján Guðmundsson hefur framlengt samning sinn við Stjörnuna og mun þjálfa kvennalið félagsins næstu tvö árin. Kristján tók við Stjörnunni árið 2018 og hefur lokið tveimur tímabilum með liðinu. „Það er gífurleg ánægja sem ríkir með störf Kristjáns og hlökkum við mikið til þess að fylgjast með þróun liðsins næstu ár. Liðið endaði í 6. sæti í Pepsi-Max deildinni þetta árið og er stefnan sett ofar næstu tímabil, segir í tilkynningu Garðbæinga. Kristján hefur á löngum þjálfaraferli þjálfað lið á borð við karlalið ÍBV, Leikni í Reykjavík, Keflavík, Val, ÍR og Þór á Akureyri.

*Íslenska kvennalandsliðið í körfuknattleik mætir Slóveníu og Búlgaríu í undankeppni EM dagana 12. og 14. nóvember næstkomandi en leikirnir fara fram á Krít í Grikklandi. KKÍ sótti um undanþágu frá æfinga- og keppnisbanni yfirvalda hér á landi svo leikmenn íslenska liðsins gætu æft fyrir leikina mikilvægu. KKÍ sendi frá sér tilkynningu í gær þess efnis að íslensk stjórnvöld hefðu veitt sambandinu undanþágu fyrir einstaklingsæfingum án þjálfara, frá og með síðasta miðvikudegi. Liðið mun æfa í Smáranum í Kópavogi áður en það heldur út til Grikklands

* Guðrún Brá Björgvinsdóttir , Íslandsmeistari í golfi, verður á meðal þátttakenda á Saudi Ladies International-mótinu, 12.-15. nóvember næstkomandi, en mótið fer fram í Sádi-Arabíu. Mótið er hluti af Evrópumótaröðinni, þeirri sterkustu í álfunni, en þetta er í fyrsta sinn í sögu mótaraðarinnar þar sem keppt er í Sádi-Arabíu. Gríðarlega sterkir kylfingar á borð við Georgiu Hall , Önnu Nordqvist og Charley Hull taka þátt á mótinu, en atvinnukylfingurinn Valdís Þóra Jónsdóttir er einnig með keppnisrétt en tekur ekki þátt að þessu sinni vegna meiðsla.

*Knattspyrnukonan Mary Vignola er gengin til liðs við Val en þetta staðfesti félagið á samfélagsmiðlum sínum í gær. Vignola, sem er 22 ára gömul, kemur til Vals frá Þrótti í Reykjavík þar sem hún sló í gegn í úrvalsdeildinni, Pepsi Max-deildinni, í sumar.

Hún skoraði sex mörk í tólf leikjum í deildinni, þrátt fyrir að spila sem vinstri bakvörður, en hún gekk til liðs við Þróttara síðasta sumar frá Tennessee-háskólanum í Bandaríkjunum.

*Knattspyrnudeild Þórs á Akureyri og Páll Viðar Gíslason hafa komist að samkomulagi um að Páll láti af störfum sem þjálfari meistaraflokks karla. Vill félagið ráða þjálfara í fullt starf við þjálfun liðsins. Þór endaði í fimmta sæti í Lengjudeildinni í sumar, 1. deild. Páll þjálfaði Þór fyrst frá 2006 til 2014 og kom liðinu upp í efstu deild sumarið 2012. Leiðir skildi hjá Páli og Þór árið 2014 og hann tók við Völsungi og síðan Magna áður en hann tók aftur við Þór fyrir síðasta tímabil.

„Palli Gísla eins og hann er alltaf kallaður hefur undanfarið ár og að sjálfsögðu mun lengur en það unnið mikið og óeigingjarnt starf fyrir félagið. Það er nánast ógjörningur að þakka honum nægjanlega fyrir allt sitt framlag hingað til fyrir Þór enda Palli einn af mestu Þórsurum sem fyrir finnast,“ segir í tilkynningunni frá Þór.