Að meðaltali 475 til 594 börn bíða eftir greiningu hjá Þroska- og hegðunarstöð á seinni hluta ársins, en almenn bið hleypur á 12 til 18 mánuðum, að því er fram kemur í svari Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Önnu Kolbrúnar...

Að meðaltali 475 til 594 börn bíða eftir greiningu hjá Þroska- og hegðunarstöð á seinni hluta ársins, en almenn bið hleypur á 12 til 18 mánuðum, að því er fram kemur í svari Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, þingmanns Miðflokksins.

Spurði Anna um fjölda barna á biðlista hjá Þroska- og hegðunarstöð ásamt lengd biðlista síðustu fjögur ár, sundurliðað. Kom fram í svari heilbrigðisráðherra að 390 til 470 börn hafi verið skráð á biðlista á fyrri hluta ársins 2020 en 475 til 594 á síðari hluta árs.

Fjöldi barna á biðlista eftir greiningu hefur farið stigvaxandi frá árinu 2016 og bið forgangsmála lengst úr 3 til 7 mánuðum í 5 til 14 mánuði. Almenn bið hefur haldist í jafnvægi og er hún 12 til 16 mánuðir.

Rekstrarkostnaður starfseminnar hefur aukist um hundrað milljónir síðan árið 2016 en einingin er ekki tilgreind í fjárlögum, að því er kemur fram í svari ráðherra við fyrirspurn um fjármagn sem veitt hefur verið til starfseminnar síðastliðin fjögur ár.

veronika@mbl.is