Þjóðarskáli Ein sýningin í þjóðarskálunum við Arsenale-sýningarhöllina á síðasta Feneyjatvíæringi, 2019. Þar verður íslenski skálinn næst.
Þjóðarskáli Ein sýningin í þjóðarskálunum við Arsenale-sýningarhöllina á síðasta Feneyjatvíæringi, 2019. Þar verður íslenski skálinn næst. — Morgunblaðið/Einar Falur
Ákveðið hefur verið að færa sýningarsvæði Íslands á Feneyjatvíæringnum í myndlist árið 2022 á aðalsvæði hátíðarinnar og hefur mennta- og menningarmálaráðuneyti tryggt fjármagn til þess.

Ákveðið hefur verið að færa sýningarsvæði Íslands á Feneyjatvíæringnum í myndlist árið 2022 á aðalsvæði hátíðarinnar og hefur mennta- og menningarmálaráðuneyti tryggt fjármagn til þess. Þá mun Íslandsstofa leggja fjármagn til kynningar á þátttöku Íslands í samvinnu við Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar. Sigurður Guðjónsson verður næsti fulltrúi Íslands á tvíæringnum.

Feneyjatvíæringurinn er elsta og umfangsmesta sýning sem sett er upp reglulega með alþjóðlegri myndlist, og er einn elsti og virtasti listviðburður heims. Til hans var stofnað árið 1895 en Ísland hefur tekið þátt í tvíæringnum frá árinu 1960. Mörg síðustu ár hefur verið leigt húsnæði fyrir skálann úti í borginni og hann hefur því ekki verið á aðalsýningasvæðinu.

Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, KÍM, hefur undirritað samning við skrifstofu Feneyjatvíæringsins um nýtt húsnæði fyrir íslenska skálann á Arsenale, öðru af tveimur aðalsvæðum sýningarinnar. Í kringum sex hundruð þúsund gestir heimsækja að jafnaði það svæði, sem þýðir að gestafjöldi í íslenska skálanum geti nær tuttugufaldast frá því sem verið hefur.

„Nú fáum við tækifæri til að vera staðsett inni í kjarna tvíæringsins og fleiri gestir geta sótt okkur heim. Það skiptir okkur gríðarlegu máli,“ segir Auður Jörundsdóttir, forstöðumaður KÍM.