Fé Illa er komið fyrir fjórum býlum, en aðgerðir verða kynntar í dag.
Fé Illa er komið fyrir fjórum býlum, en aðgerðir verða kynntar í dag. — Morgunblaðið/Eggert
Freyr Bjarnason freyr@mbl.is Á sjöunda hundrað fjár verður fargað á Stóru-Ökrum 1 í Skagafirði í gær en tvær vikur eru liðnar síðan riðuveiki greindist á bænum. „Það er bara öllu lógað í dag.

Freyr Bjarnason

freyr@mbl.is

Á sjöunda hundrað fjár verður fargað á Stóru-Ökrum 1 í Skagafirði í gær en tvær vikur eru liðnar síðan riðuveiki greindist á bænum. „Það er bara öllu lógað í dag. Allt fullorðna féð fer í brennslu að ég best veit en restin væntanlega grafin, ég veit það bara ekki,“ segir Gunnar Sigurðsson, bóndi á Stóru-Ökrum 1, í samtali við RÚV í gær.

Til stendur að kynna þær leiðir sem stjórnvöld ætla að fara vegna riðuveikinnar, sem kom upp á fjórum sauðfjárbúum í Skagafirði, í dag. Um er að ræða auk Stóru-Akra; Syðri-Hofdali, Grænumýri og Hof í Hjaltadal.

Fundað um förgun

Að sögn Björns Þorlákssonar, upplýsingafulltrúa Umhverfisstofnunar, hafa fundahöld staðið yfir á milli Umhverfisstofnunar, Matvælastofnunar, atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um næstu skref. Ákvörðun um förgun og úrganginn verður tekin af hálfu þessara aðila. Samráð hefur einnig verið haft við héraðsdýralækni Norðurlands vestra.

„Við vonum að það finnist góð lausn á þessu máli. Ég held að niðurstaðan verði ásættanleg og besta mögulega lausnin finnist miðað við hvernig þetta mál er ömurlega vaxið,“ segir Björn, sem gat ekkert tjáð sig frekar um málið þegar mbl.is óskaði eftir frekari upplýsingum í gærkvöldi.

„Menn fá bætur en það er misjafnt hvernig þær bætur hafa verið. Ríkisstjórnin virðist vera tilbúin til þess að styðja við bændur vegna þessa,“ sagði Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Skagafjarðar, við Morgunblaðið í vikunni. Þá þarf að fara í viðamikla hreinsun á bæjunum, sem getur einnig reynst kostnaðarsamt.