Eir Þar verða opnuð 10 rými fyrir aldraða smitaða af Covid-19.
Eir Þar verða opnuð 10 rými fyrir aldraða smitaða af Covid-19. — Morgunblaðið/Eggert
Sjúkratryggingar Íslands hafa samið við Hlíðarskjól ehf. um opnun 10 rýma hjúkrunardeildar fyrir aldraða hjúkrunarsjúklinga sem smitast hafa af Covid-19. Heilbrigðisráðherra staðfesti samninginn í gær.

Sjúkratryggingar Íslands hafa samið við Hlíðarskjól ehf. um opnun 10 rýma hjúkrunardeildar fyrir aldraða hjúkrunarsjúklinga sem smitast hafa af Covid-19. Heilbrigðisráðherra staðfesti samninginn í gær.

Félagið Hlíðarskjól er í eigu sjálfseignarstofnunarinnar Eirar sem rekur samnefnt hjúkrunarheimili við Hlíðarhús 7 og verður hjúkrunardeildin rekin innan veggja þess, segir í tilkynningu.

Deildin er annars vegar ætluð íbúum hjúkrunarheimila sem veikst hafa af Covid-19 og þurfa tímabundið á sérhæfðri þjónustu að halda og hins vegar sjúklingum með gilt færni- og heilsumat sem lokið hafa meðferð á sjúkrahúsi vegna veirunnar en geta ekki útskrifast heim.

Markmið samningsins er að tryggja covid-smituðum einstaklingum, sem búa á hjúkrunarheimilum, einstaklingsmiðaða, heildræna og örugga heilbrigðisþjónustu á sérstakri hjúkrunardeild meðan á veikindum stendur.

Rekstraraðilar og starfsfólk hjúkrunarheimilisins Eirar hafa reynslu af þjónustu við aldraða sem veikst hafa af Covid-19 og sinntu um tíma fimm sjúklingum sem voru saman á einingu meðan á veikindum stóð. Í samningnum er gert ráð fyrir að þjónusta á deildinni verði sambærileg þeirri þjónustu.

Samningurinn er tímabundinn og gildir til 28. janúar 2021 með möguleika á framlengingu um 30 daga að hámarki.