Dr. Guðrún Sigmundsdóttir, sérfræðingur í smitsjúkdómalækningum og sýklafræði, yfirlæknir við sóttvarnasvið embættis landlæknis, var fædd í Reykjavík 30. ágúst 1961. Guðrún lést á heimili sínu þann 27. október eftir erfiða baráttu við krabbamein.

Foreldrar hennar eru Sigmundur Magnússon, f. 1927, d. 2017, yfirlæknir í blóðmeinafræði á Landspítalanum, og Guðlaug Sigurgeirsdóttir, f. 1927, d. 2020, húsmæðrakennari og næringarfræðingur. Systkini Guðrúnar eru; 1) Sigurgeir, tónlistarmaður og viðskiptafræðingur, f. 1958, kvæntur Hildi Ástu Viggósdóttur deildarstjóra, f. 1966. Börn Sigurgeirs eru Sandra og Davíð. Synir Hildar eru: Arnar Geir og Daníel Freyr 2) Sigríður, sjúkraliði, f. 1960, gift Hermanni Ársælssyni framkvæmdastjóra, f. 1965. Börn þeirra eru: Sigmundur Grétar og Guðlaug Harpa.

Eiginmaður Guðrúnar er Gylfi Óskarsson, f. 1961, barnahjartalæknir á Barnaspítala Hringsins. Foreldrar hans eru Óskar Gissurarson, f. 1923, d. 1990, og Hólmfríður Gunnlaugsdóttir, f. 1925, d. 2019. Börn Guðrúnar og Gylfa eru: a) Guðlaug heilbrigðisfulltrúi, f. 1988, gift Hlyni Daða Sævarssyni arkitekt, f. 1988. Börn þeirra eru Egill Arnar, f. 2009, og Guðrún Freyja, f. 2014. b) Hólmfríður lyfjafræðingur, f. 1992. Unnusti hennar er Einar Sigurvinsson nemi við HÍ, f. 1992. c) Magnús Atli, nemi við HR, f. 2000. Unnusta hans er Daria Lind Einarsdóttir, nemi við HÍ, f. 2000.

Guðrún ólst upp í Vogahverfi í Reykjavík og síðar á Seltjarnarnesi. Hún tók stúdentspróf frá MR 1981. Hún lauk embættisprófi í læknisfræði frá HÍ 1987, stundaði síðan framhaldsnám í smitsjúkdómum og sýklafræði í Lundi í Svíþjóð og lauk sérfræðiprófum 1997. Guðrún varði doktorsritgerð sína í smitsjúkdómum við Háskólann í Lundi árið 2010.

Eftir sérnám flutti fjölskyldan til Íslands árið 2000, og starfaði Guðrún sem sérfræðingur á sóttvarnasviði embættis landlæknis og rannsóknarstofu Landspítalans í sýklafræði. Hún var í fullu starfi yfirlæknis á sóttvarnasviði embættis landlæknis frá 2005. Í starfi sínu tók hún virkan þátt í vísindavinnu og er höfundur fjölmargra vísindagreina á sviði smitsjúkdóma og faraldsfræði þeirra sem birst hafa í erlendum læknatímaritum.

Útför hennar fer fram frá Dómkirkjunni föstudaginn 6. nóvember kl. 11. Athöfninni verður streymt á https://youtu.be/vE8jGqR_9wA.

Það var fimmtudagurinn 16. febrúar árið 1967.

Tvær litlar stúlkur með fléttur og samlitar slaufur í hári gengu glaðar saman hönd í hönd niður í bókabúðina í Álfheimum.

Þær voru klæddar í grænar stretch-buxur, hvítar skyrtur, brúna skó og rauðar úlpur. Þær voru oftast eins klæddar.

Erindið var jú að kaupa afmælisgjöf fyrir mömmu. Fallega mamma okkar var fertug og átti afmæli þennan dag.

Tilhlökkunin hjá okkur leyndi sér ekki. Við ætluðum að kaupa eitthvað virkilega fallegt fyrir mömmu.

Þegar við komum í bókabúðina spurðum við prúðar hvort afgreiðslumaðurinn ætti afmælisgjöf fyrir fertuga konu.

Að lokum, eftir langa íhugun, völdum við fallega, eldrauða nælu sem við vorum svo ánægðar með og gladdi mömmu mikið. Núna er nælan hjá mér og mun ég varðveita hana um aldur og ævi.

Svona minnist ég æsku okkar Gunnu og í raun samskipta okkar systra í gegnum lífið, samrýndar systur sem studdu hvor aðra.

Auðvitað kom það fyrir að við urðum ósáttar og vorum ekki sammála, en strengurinn á milli okkar var það sterkur að án hvor annarrar gátum við ekki verið, náðum alltaf sáttum.

Gunna systir var sterk, skörp, ákveðin, heiðarleg og dugleg, lét fátt buga sig.

Hún hafði lært hjá pabba og mömmu að stelpur eru alveg jafn sterkar og geta alveg jafn mikið og strákar.

Ég minnist þess þegar pabbi kom heim frá útlöndum í eitt skipti og kom þá með gjafir fyrir okkur systkinin.

Hann kom ekki með dúkkur fyrir okkur Gunnu og bíl fyrir Sigurgeir.

Nei, hann kom með bíla fyrir okkur öll.

Við Gunna fengum hvor sína VW-bjölluna, Gunna rauða og ég bláa. Sigurgeir fékk slökkviliðsbíl.

Þannig kenndi pabbi okkur að við værum öll jöfn og gætum öll áorkað jafn miklu, burtséð frá því hvort við værum strákur eða stelpa og hefðum mismunandi eiginleika.

Mamma kenndi okkur líka með orði og gjörðum að þótt þú sért kona áttu ekki að hika við að gera hlutina, ekki missa kjarkinn, heldur ganga í verkin og gera það sem þarf að gera. Þannig flísalagði og málaði mamma heimilið þeirra og gerði allt sem þurfti að gera.

Persónuleiki Gunnu systur mótaðist af þessu eins og hjá okkur Sigurgeiri og lifði hún samkvæmt því, lét fátt stoppa sig.

Þegar ég byrjaði í sex ára bekk í Ísaksskóla og byrjaði að læra að lesa lærði Gunna samtímis að lesa. Með því að fylgjast með því sem ég var að lesa, hinum megin við borðið og á hvolfi. Hún var orðin læs langt á undan mér. Hún var mikill bókaormur og las allt sem hún komst yfir.

Þannig lærði hún sem lítil stelpa öll fjögur versin í Fjallgöngu eftir Tómas Guðmundsson og fór létt með að þylja þau upp hátt og skýrt. Það má eiginlega segja að þetta ljóð lýsi Gunnu systur vel því hún gafst ekki upp við það sem hún tók sér fyrir hendur. Upp á toppinn skyldi hún, sama hvað.

Skólaganga Gunnu einkenndist af samviskusemi og þurftu mamma og pabbi sjaldan að skipta sér af henni, hún hreinlega sá um þetta sjálf frá byrjun. Annað var upp á teningnum hjá okkur Sigurgeiri, við þurftum meira aðhald, ef hægt er að orða það þannig.

Mestu sælustundir fjölskyldunnar, fyrir utan samveru heima, voru ferðir okkar upp á fjöll og firnindi á rússajeppanum okkar.

Sérstaklega var hin árlega ferð okkar að Selvallavatni á Snæfellsnesi mikið tilhlökkunarefni. Þar nutum við samveru og mikillar náttúrufegurðar, sváfum í hústjaldinu okkar, veiddum silung og bleikju sem var síðan borðuð um kvöldið með soðnum kartöflum og smjöri. Sannkölluð sælustund.

Það sama var upp á teningnum með okkur systkinin, þar vorum við öll jafningjar.

Við Gunna fengum hvor sína veiðistöngina og veiðihjól til jafns við Sigurgeir. Við Gunna áttum eins stangir og hjól, fallega rauðar og veiðihjólin gulllituð.

Þegar við vorum orðnar fullorðnar og með fjölskyldur ferðuðumst við saman bæði erlendis og hér heima.

Minnisstæðar eru skíðaferðirnar okkar til Åre og Sälen, þegar við bjuggum báðar í Svíþjóð, Gunna og Gylfi í Lundi og við í Stokkhólmi.

Þar fórum við saman í brekkurnar, nutum samverunnar, hlustuðum á sögur og þrautir í barnabrekkunum og fengum okkur súkkulaðimola með krökkunum okkar.

Í skíðaferðinni til Åre fengum við litla fallega mús í heimsókn sem settist á ristina á Gunnu. Við hoppuðum báðar gólandi upp á stól, okkur sjálfum til mestu undrunar á viðbrögðunum, og hlógum svo mikið á eftir. Gylfi veiddi hana að lokum í Cheerios-pakka og setti hana út.

Gunnu systur fannst mjög gaman að prjóna og naut þess mikið. Hún var líka sérstaklega lagin við að velja falleg munstur og flott snið á þær flíkur sem hún prjónaði. Þannig kláraði hún hverja peysuna á fætur annarri, allar mjög fallegar.

Gunna var líka góður kokkur og hafði gaman af því að prófa nýja rétti frá ólíkum löndum.

Hún var ekki hrædd við að prófa eitthvað nýtt og fara út fyrir boxið, þannig kynnti hún mér matargerðarlist frá ýmsum löndum og mun ólífu-tapenade alltaf minna mig á Gunnu.

Ég kveð góða systur, er þakklát fyrir að hafa átt hana að. Þakklát fyrir allar góðu minningarnar sem ég á um hana á mismunandi tímum á lífsleiðinni. Þær munu hjálpa mér í sorginni.

Hugur minn og hjarta er hjá Gylfa og krökkunum sem voru Gunnu allt. Þeirra missir er mikill.

Megi allar góðu minningarnar sem þau eiga um góða eiginkonu, móður, tengdamóður og ömmu styrkja þau í sorginni.

Góða ferð elsku fallega Gunna mín. Ég mun sakna þín að eilífu. Þú munt ávallt eiga vísan stað í hjarta mínu og munt fylgja mér um alla ævi, hvert sem ég fer.

Ég er sannfærð um að við eigum eftir að hittast aftur, leiðumst brosandi saman hönd í hönd að kaupa afmælisgjöf fyrir mömmu eða pabba.

Farðu í friði,

Þín

Sigríður Sigmundsdóttir (Sirrý).