Guðný Laxfoss ásamt núverandi eiginmanni sínum, Ivan Downs, á brúðkaupsdaginn 2012.
Guðný Laxfoss ásamt núverandi eiginmanni sínum, Ivan Downs, á brúðkaupsdaginn 2012.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sautján ára gömul brá Guðný Laxfoss sér í bíó með Elvis Presley og synti í sundlauginni í Graceland en Kóngurinn sló sér á þeim tíma upp með mágkonu hennar. Guðný ólst upp við nauman kost á Íslandi og missti móður sína og bróður á unglingsaldri.

Sautján ára gömul brá Guðný Laxfoss sér í bíó með Elvis Presley og synti í sundlauginni í Graceland en Kóngurinn sló sér á þeim tíma upp með mágkonu hennar. Guðný ólst upp við nauman kost á Íslandi og missti móður sína og bróður á unglingsaldri. Eftir það ákvað hún að freista gæfunnar í Bandaríkjunum og býr þar enn. Óhætt er að fullyrða að lífshlaup Guðnýjar, sem er hjúkrunarfræðingur, hafi verið viðburðaríkt. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

S nemma árs 1964 hringdi síminn um miðja nótt heima hjá Guðnýju Laxfoss og kærasta hennar, Jeff Emmons, í Dallas, Texas. Það var Elvis Presley. Eins og gengur. Hann hafði verið að slá sér upp með systur Jeffs, Jeanette, en látið hana róa. Hún tók það óstinnt upp, datt í'ða og lagði af stað akandi frá Memphis til Dallas. Var stöðvuð af lögreglu á leiðinni og stungið í steininn fyrir ölvunarakstur. Notaði símtalið sitt til að láta Elvis vita og honum rann blóðið til skyldunnar. Bað Guðnýju og Jeff lengstra orða að fara og leysa aumingja stúlkuna úr haldi enda gæti hann ekki látið sjá sig þar sjálfur. „Þetta er mér að kenna og þið megið til með að aðstoða mig,“ bað Kóngurinn og Guðný og Jeff létu ekki segja sér það tvisvar. „Þetta var okkur dýrt, tólf hundruð dollarar, að mig minnir. En hvað gerir maður ekki fyrir Elvis?“ segir Guðný hlæjandi.

„Svona er lífið. Þetta er búið að vera viðburðaríkt og skemmtilegt,“ heldur hún áfram gegnum símann frá Ava, Missouri, þar sem hún býr í dag með núverandi eiginmanni sínum, Ivan Downs. Keisaranum, eins og hún kallar hann. Guðný var nýflutt til Bandaríkjanna þegar Elvis sló á þráðinn þarna um nóttina. Þau höfðu verið í nokkrum samskiptum mánuðina á undan vegna sambands hans við Jeanette. En þetta var það síðasta sem þau heyrðu frá honum. „Maður fylgdist bara með honum úr fjarlægð þangað til hann dó, langt fyrir aldur fram. Það var ofboðslega sorglegt.“

Guðný bjó fyrstu mánuðina í Memphis, síðan í um hálfa öld í Dallas og seinustu árin í Douglas-sýslu sem tilheyrir Ava. „Maðurinn minn er ættaður héðan og hér er yndislegt að vera. Við búum úti í sveit og erum hérna með nokkur lömb sem einmitt stendur til að slátra eftir nokkra daga. Ég er vön að taka slátur, þannig að mig vantar blóð. Veit ekkert hvað slátrararnir segja við því; þeir eiga eflaust eftir að reka upp stór augu,“ segir Guðný hlæjandi.

Eiginmaður hennar er hændur að lömbunum en finnst þau ekki eins góð á bragðið. „Hann er ekki alinn upp við að borða lambakjöt, bara naut, og honum þykja svið og vambir algjör viðbjóður. Missir alla matarlyst. Þess vegna erum við að hugsa um að fá okkur naut í stað lambanna sem er synd, þar sem mér finnst lambakjöt svo gott og ofboðslega gaman að taka slátur.“

Lengi býr að fyrstu gerð.

Ólst upp hjá einstæðri móður

Guðný fæddist í Reykjavík árið 1946 en flutti sex ára gömul til Suðurnesja, fyrst Njarðvíkur í eitt ár og síðan Keflavíkur. Hún var á fimmta ári þegar foreldrar hennar skildu og eftir það ól móðir hennar, Guðný Jóhannesdóttir úr Vestmannaeyjum, hana og þrjá bræður hennar upp ein. „Pabbi var ekki inni í myndinni; hafði meiri áhuga á flöskunni en okkur,“ segir Guðný.

Hún segir móður sína á hinn bóginn hafa verið duglegustu konu sem hún hafi nokkurn tíma kynnst. „Eftir á sér maður að við áttum ekki mikið en samt fattaði ég aldrei, meðan ég var að vaxa úr grasi, að við værum fátæk. Við sultum aldrei enda var mamma mjög sniðug að búa til mat úr engu. Einu sinni komum við mamma að ungum dreng sem var að borða hráar kartöflur upp úr matjurtagarðinum okkar. Ég spurði mömmu hvort ég ætti að reka hann burt. Þá svaraði mamma: „Nei, Minný mín. Leyfðu honum að borða!“ Drengurinn var greinilega verr settur en við og eftir þetta tengdi ég fátækt alltaf við það að borða hráar kartöflur.“

Sjálf byrjaði Guðný að vinna aðeins fimm ára gömul; við að bera út dagblöð, fyrst í Reykjavík en síðan á Suðurnesjum. „Það voru alltaf blöð afgangs sem ég seldi. Ég fór í stafaskóla fimm ára og kunni að telja, þannig að það var lítið mál. Blöðin kláruðust alltaf og ég held ég hafi selt fleiri Mogga en Óli kóngur nokkurn tíma,“ rifjar hún upp hlæjandi en það var frægur blaðasali í Keflavík. „Það var góður aukapeningur.“

Kastaði upp blóði á nóttunni

Móðir Guðnýjar glímdi lengi við vanheilsu. „Hún var með blæðandi magasár sem auðvelt væri að lækna í dag en lítið var vitað um í þá daga. Seinustu fjögur árin sem hún lifði hjálpaði ég henni oft að kasta upp blóði á nóttunni. Mamma var ægilega mögur og allt var reynt til að fita hana en allt kom fyrir ekki. Hún þreifst ekki almennilega. Á endanum fór hún í uppskurð og ég gleymi aldrei augnablikinu þegar ég heimsótti hana á spítalann eftir aðgerðina. Til að byrja með virtist allt í lagi með mömmu en síðan kastaði hún upp blóði með miklum látum; spýjan skall á veggnum í þriggja metra fjarlægð. Þetta var hræðilegt.“

Móðir Guðnýjar lést skömmu eftir aðgerðina, í október 1960, fimmtug að aldri. „Mamma var þá nýbúin að taka af mér það loforð að ég myndi verða hjúkrunarfræðingur. Nokkuð sem ég gat ekki hugsað mér á þeim tíma eftir þessa lífsreynslu en það fór á annan veg síðar,“ segir Guðný.

Faðir Guðnýjar hafði engan áhuga á að taka börnin að sér og elsti bróðir hennar, Karl, sem var tvítugur, var fluttur til Bandaríkjanna. Eftir stóðu Gunnar Valsberg, fimmtán ára, Guðný, fjórtán ára og Kristján, tólf ára. Nánustu ættingjar, presturinn og skólastjórinn komu saman til að ákveða „hvað gera átti við grislingana,“ eins og Guðný orðar það. „Fólki leist rétt mátulega á að taka okkur að sér. Það var smá vesen á Kristjáni, yngri bróður mínum, á þessum tíma; hann hafði verið að stela bílum á nóttunni. Skilaði þeim að vísu alltaf aftur að morgni en þetta komst upp vegna þess að meira bensín var yfirleitt á bílunum en kvöldið áður. Kristján borgaði nefnilega alltaf fyrir „lánið“. Fólk hafði meiri áhuga á mér, enda var ég harðdugleg og hafði unnið frá blautu barnsbeini, auk þess sem ég þurfti ekki að sofa nema í tvo til þrjá tíma á nóttunni. Amma mín sá sér leik á borði enda þýddi það að hún gat látið vinnukonuna fara. Það var bara út af því sem hún vildi mig.“

Fórst með Stuðlaberginu

Guðný vildi á hinn bóginn ekki fara til ömmu sinnar, þannig að Gunnar bróðir hennar stakk upp á því að hann tæki ábyrgð á yngri systkinum sínum og þau byggju áfram heima. Það var samþykkt til reynslu í eitt ár. „Og allir urðu lifandis fegnir.“

Gunnar stundaði sjóinn og aðeins fimmtán mánuðum eftir andlát móður þeirra, í febrúar 1962, dundi annað reiðarslag yfir; Gunnar fórst með Stuðlaberginu NS í ofsaveðri út af Stafnesi, aðeins sautján ára að aldri.

„Þá kom fólk aftur saman til að ákveða hvað yrði um okkur Kristján og þar sem það áttaði sig á því að þetta hafði bara gengið ljómandi vel hjá okkur var mér falin ábyrgð, alla vega næsta árið. Það eina sem var öðruvísi í þetta skiptið var að pabbi lét í sér heyra. Ekki til að skipta sér af okkur Kristjáni, heldur til að sækja arfinn eftir Gunnar. Sem hann fékk. Maður sem aldrei hafði greitt krónu í meðlag.“

Það eina sem hún hefur frá föður sínum er eftirnafnið en hann ólst upp í Borgarfirði, rétt við Laxfoss. „Við vildum ekki kenna okkur við pabba, þannig að Laxfoss kom í góðar þarfir,“ segir Guðný.

Stefndi skónum vestur

Hún átti hálfbandaríska vinkonu í Keflavík, Jóhönnu Clark að nafni, sem hafði búið vestra og sagt Guðnýju ýmsar sögur frá þessu makalausa landi tækifæranna. Hún hreifst af þeim sögum og ákváðu þær vinkonur báðar að flytja vestur um leið og þær hefðu aldur til. Þau áform fengu svo byr undir báða vængi þegar þær kynntust hermönnum á Vellinum.

Sá sem Guðný hitti hét Jeff Emmons og fljótlega eftir að hann lauk herskyldu á Íslandi flutti Guðný út til hans. „26. september 1963 hélt ég sem leið lá til Memphis, Tennessee, þar sem Jeff tók á móti mér,“ segir Guðný en hún var sautján ára á þessum tíma. Kristján, bróðir hennar, varð eftir heima en flutti seinna til Bandaríkjanna og býr þar enn, í Seattle. Elsti bróðirinn, Karl, býr í Illinois.

Jeff Emmons var tónlistarmaður; spilaði á öll möguleg hljóðfæri, án þess að lesa nótur. „Hann var snillingur í músík,“ segir Guðný en þegar hún kom út lék Jeff með bandi hins vinsæla rokkara Jerrys Lee Lewis, sem einmitt bjó við hliðina á þeim í Memphis. „Við leigðum stórt hús, hálfgerða höll, sem ég hef ekki hugmynd um hvernig við höfðum efni á, og ég eignaðist líka bíl. Við skemmtum okkur mikið en alltaf án áfengis; það var ekkert þannig vesen.“

Hélt við Jack Ruby

Jeff átti systurina Jeanette Emmons sem var á þessum tíma að slá sér upp með engum öðrum en Elvis Presley.

„Manstu eftir leikkonunni Janet Leigh?“ spyr Guðný.

– Já.

„Jeanette var nauðalík henni. Algjör fegurðardrottning sem vafði karlmönnum um fingur sér. Rosaleg stúlka sem lét sér ekki allt fyrir brjósti brenna. Áður en hún kynntist Elvis langaði hana að hitta Jerry Lee Lewis. Og veistu hvernig hún fór að því?

– Nei.

„Hún keyrði bílinn sinn út í sundlaugina við húsið hans. „Þannig kemst hann ekki hjá því að tala við mig!“ Það var samt aldrei neitt á milli þeirra.“

Skömmu áður hélt Jeanette við annan mann í Dallas. „Það var bara svona „sugar daddy“ sem gaf henni skartgripi og alla vega tvo bíla. Hann átti næturklúbba og hét Jack Ruby.“

– Nei, hættu nú alveg. Sá sem skaut Lee Harvey Oswald?

„Einn og sami maðurinn. Eins og ég segi, þá lét Jeanette sér ekkert fyrir brjósti brenna.“

Jeanette sló sér upp með Elvis um nokkurra mánaða skeið. „Við vorum oft með henni heima hjá honum í Graceland; þau sungu mikið og spiluðu, systkinin og Elvis, en þar sem ég er ekkert í tónlistinni fékk ég bara að synda í sundlauginni á meðan. Önnur systir Jeffs, Virginia, bjó úti í sveit og Elvis kunni mjög vel við sig hjá henni; sagði það minna sig á bernskuna. Þau sungu stundum saman í tröppunum við húsið hennar og einu sinni sleit Elvis streng í gítarnum sínum. Honum fannst ekki taka því að skipta, þannig að hann gaf Virginiu bara gítarinn. Hann hékk í mörg ár uppi á vegg hjá henni en seinna seldi hún hann. Veit ekki hvað hún fékk fyrir gítarinn en það hefur verið eitthvað. Virginia dó núna í sumar.“

Skaut á björgunarhringina

– Hvernig náungi var Elvis?

„Hann var bara yndislegur og almennilegur. Ég talaði svo sem ekki mikið við hann, var kornung og flaut bara með hinum. Eitt fannst mér þó skrýtið og frekar asnalegt; þegar ég var rekin upp úr lauginni þannig að Elvis gæti skotið úr byssu á björgunarhringi sem hent hafði verið út í. Þetta fannst honum alveg ofboðslega gaman.“

Guðný náði því líka að fara í tvö eða þrjú skipti í bíó með Elvis og föruneyti hans. Það var ekki gert á almennum sýningartímum. „Þegar Elvis fór í bíó leigði hann stóra bíóhöll til að hafa salinn út af fyrir sig. Þetta var á sunnudögum og við vorum svona fimm eða tíu saman. Ég man því miður ekki hvaða myndir við sáum,“ segir hún hlæjandi.

Elvis hafði sem kunnugt er kynnst hinni barnungu Priscillu Beaulieu, þegar hann gegndi herþjónustu í Þýskalandi árið 1959 og þau verið í sambandi síðan. Priscilla kom til Bandaríkjanna 1963 en fékk ekki að búa hjá Elvis fyrst um sinn. Þessi tvo sambönd stönguðust því augljóslega á. „Einu sinni birtist Priscilla allt í einu í Graceland, þegar Jeanette var þar og varð brjáluð enda var hún búin að ákveða fyrir löngu að hún ætlaði að eiga þennan mann. Það varð til þess að Elvis bað Jeanette um að fara og upp frá því var ekkert meira á milli þeirra.“

Það varð kveikjan að símtalinu sem getið var um hér í upphafi. Elvis dó, eins og allir vita árið 1977, og Jeanette féll frá fyrir tæpum áratug. Áður hafði hún fengið heilablóðfall og verið í hjólastól seinustu tíu ár ævi sinnar. Hún var fædd 1940.

Barneignir og hjúkrun

Guðný og Jeff fluttu til Texas um áramótin 1963/64. Frumburður þeirra, Connie Elísabet, fæddist 1964 og Brenda 1966. Sú síðarnefnda er mikill Íslendingur í hjarta sér og fékk nafni sínu breytt með lögformlegum hætti og heitir nú Brynja Laxfoss. Dæturnar búa báðar í Texas.

Fyrst um sinn starfaði Guðný sem dagmóðir og var mest með sautján börn á heimilinu. Las fyrir þau og hjálpaði þeim með heimanámið. Að því kom að hún virti ósk móður sinnar og fór að læra hjúkrun; lauk prófi árið 1975 og vann eftir það lengst af sem hjúkrunarfræðingur á spítala í Dallas til ársins 2012, aðallega á slysadeild.

Árið 1977 ákvað hún að skilja við Jeff sem tók því hreint ekki vel. „Þetta var ljótur skilnaður. Hann hótaði okkur öllu illu, þannig að ég þorði ekki annað en að flýja með stelpurnar heim til Íslands. Vissi að hann myndi ekki leita okkar þar. Til öryggis skipti ég þeim niður á tvo staði. Ég fór fljótlega aftur út en stelpurnar voru í heilt ár á Íslandi. Jeff leitaði lengi að mér; beið til dæmis fyrir utan alla spítalana í Dallas, og þeir eru margir, í þeirri von að ég kæmi gangandi út. Hann fann mig loksins eftir fjóra mánuði en þá hafði bráð töluvert af honum. Við það batnaði andrúmsloftið og Jeff gerði mér aldrei neitt. Hann sagðist hins vegar myndu bíða eftir mér alla ævi og eftir að hafa skilið við fjórar næstu konur, hann gifti sig alls átta sinnum, kom hann alltaf aftur til að kanna hvort ég myndi ekki taka við honum. Það vildi ég ekki og á endanum gafst hann upp.“

– Hann hefur þá fengið að hitta dæturnar aftur?

„Já, hann fékk það og reyndist þeim ágætlega.“

Jeff lést árið 2018.

„I'm high on life!“

Árið 1979 gekk Guðný að eiga dómara í Dallas en það hjónaband stóð stutt. „Ég áttaði mig ekki á því fyrr en ég var búin að giftast honum að maðurinn var alkóhólisti, þannig að það hjónaband rann fljótt út í sandinn. Sjálf drakk ég ekki áfengi og notaði alls ekki dóp. Mér var reglulega boðið kókaín, sem sagt var það besta í heimi, en hafnaði því alltaf. „Hvernig verður þú þá svona hátt uppi?“ var ég spurð á móti. Ég átti ekki nema eitt svar við því: „I'm high on life!““

Hún hlær.

Árið 1982 flutti Guðný heim til Íslands og fór að vinna, lengst á slysadeild Borgarspítalans en einnig á Landakoti. „Það var yndislegur tími en ég var heima í tvö ár. Ætlaði reyndar ekki að vinna við hjúkrun en það þróaðist þannig. Ég var ein á þessum tíma og var alltaf að skemmta mér og ferðast um heiminn. Gerði bara það sem mig langaði að gera og hafði nægan tíma enda þótt ég ynni langar vaktir, því eins og þú manst þá þurfti ég bara að sofa í tvo til þrjá tíma á sólarhring. Það breyttist ekki fyrr en um sextugt. Núna sef ég alveg sjö tíma.“

Guðný hélt aftur vestur um haf og var lengi ein, eða þangað til hún kynntist Ivan Downs. Þau gengu í heilagt hjónaband árið 2012. „Ivan er yndislegur maður. Fæddur í Ava en ólst upp í Washingon-ríki, þar sem faðir hans var bóndi. Sjálfur var Ivan skóari í gamla daga.“

– Skósmiður?

„Nei, skógari,“ segir Guðný hlæjandi og nú heyri ég hljóða g-ið. Sumsé skógarhöggsmaður.

Skóflan eins og baðkar

„Við erum bæði sest í helgan stein en auk þess að sjá um kindurnar okkar hérna á þessum fimmtán ekrum sem við eigum þá vinnur Ivan svolítið við tré og mokar mold með risastórri gröfu sem hann keypti sér. Skóflan er eins stór og baðkar. Honum finnst agalega gaman að leika sér á gröfunni. Þú veist að við erum að tala um þig, elskan,“ segir hún skyndilega. Ég heyri Ivan jánka því á bak við. „Hann er hérna í tölvunni við hliðina á mér en skilur ekki íslensku. Sperrir þó eyrun þegar ég segi Ivan eða Keisarinn. Hann þekkir það gælunafn sem vinkona mín á Íslandi gaf honum.“

Enn hlær hún.

Sjálf fórnaði Guðný sínu gamla gælunafni, Minný, þegar hún flutti vestur, fannst það ekki passa þar. Bandaríkjamenn ráða ekkert við nafnið Guðný, þannig að þeir fá að nota Gwyn. Íslendingar kalla hana á hinn bóginn áfram Guðnýju eða Minný eða hvort tveggja.

Talandi um hið ástkæra ylhýra þá er ekki á Guðnýju að heyra að hún hafi búið í meira en hálfa öld í Bandaríkjunum. Margir Íslendingar sem þangað flytjast þróa snemma með sér þykkan hreim en það er engu líkara en að Guðný sé bara á Hólmavík eða Hvammstanga. „Þakka þér kærlega fyrir það,“ segir hún þegar ég hef orð á þessu. „Sumt fólk er bara með þannig heila að það á auðvelt með að læra og varðveita tungumál. Ætli ég sé ekki bara ein af þeim. Mest talaði ég sjö tungumál og hafði gott vald á þeim flestum.“

Þetta er bersýnilega í móðurmjólkinni því dætur hennar tala báðar reiprennandi íslensku, eins dótturdóttirin, Amanda Laxfoss, dóttir Brynju, en hún heyrir til annarri kynslóð fæddri í Bandaríkjunum.

Mæðgurnar tala alltaf íslensku saman, auk þess sem Guðný heyrir reglulega í vinum sínum heima á Íslandi. „Jóhanna Jónsdóttir vinkona mín hringir yfirleitt í mig einu sinni í viku. Eins heyri ég oft í vini mínum Tryggva Helgasyni á Akureyri og fleirum. Svo er ég auðvitað í sambandi við bræður mína hérna úti, sérstaklega Kristján.“

– Hvað er að frétta af honum? Er hann hættur að stela bílum?

„Já, fyrir lifandis löngu,“ svarar Guðný og hlær sem aldrei fyrr. „Hann er sjómaður í Seattle og gengur vel.“

Slasaðist á sjónum

Árið 2006 lét Guðný undan þrýstingi Kristjáns og var einn vetur með honum á sjó sem kokkur á báti sem að sjálfsögðu hét því ágæta nafni Lady Guðný. „Ég hafði verkað síld í gamla daga en aldrei verið á sjó og þetta var mikil lífsreynsla. Veitt var í Beringshafi og þar geta veður orðið alveg rosaleg.“

Einn túrinn er Guðnýju sérstaklega minnisstæður. Afar vont var í sjóinn á útstíminu og hún búin að binda allt niður nema sjálfa sig. „Það breytti ekki því að í einni öldunni sveiflaði báturinn mér átta fet á járnstaur langt frammi á gangi. Þar lá ég óvíg eftir en náði þó að færa mig frá hurð en hefði hún opnast hefði ég örugglega fótbrotnað. Ég átti erfitt með að anda og gat ekki kallað eftir hjálp. Ætli ég hafi ekki legið þarna í þrjá eða fjóra tíma áður en sonur Kristjáns kom fram til að fara á næstu vakt. „Pabbi, pabbi,“ gólaði hann. „Guðný frænka liggur hérna á gólfinu.“ Heldurðu að sé nú.“

Feðgarnir vildu ná strax í landhelgisgæsluna en þar sem hjúkrunarfræðingurinn taldi sig sjálfur ekki vera með rifið lunga, aðeins brákuð eða brotin rifbein, var látið nægja að hringja í lækni sem tók undir þá greiningu út frá lýsingum. „Þess utan gat ég ekki hugsað mér að vera hífð í járnkörfu upp í þyrlu; það hefði farið endanlega með mig að sveiflast þar til í þessu ofsaveðri.“

Guðný hvíldi sig í nokkra daga en hóf svo störf að nýju, eins og ekkert hefði í skorist. Þegar komið var í land eftir um mánuð á sjó fór hún beint til læknis og reyndist vera með fjögur mölbrotin rif. „Svona var maður alinn upp,“ segir hún. „Það dugði ekkert að barma sér.“

Fyllir ferðatöskuna af mat

Guðný á ekki von á því að búa aftur á Íslandi en reynir að koma heim á hverju ári og dveljast hér í um mánuð til að hitta vini og ættingja. Þetta ár datt þó út, eins og gefur að skilja. „Íslendingar fara utan til að versla föt en ég fer til Íslands til að versla mat,“ segir Guðný sem fyllir allar ferðatöskur af hangikjöti, harðfiski og öðru góðgæti. „Núna er ég að reyna að redda mér grásleppu.“

– Hvernig hugsar þú til Íslands eftir allan þennan tíma í burtu?

„Ég hugsa alltaf hlýlega til Íslands. Það er mitt land. Ég fylgist ágætlega með á Fésinu en er ekki nógu vel inni í þjóðmálaumræðunni til að hafa skoðun á henni. Kaus þó einu sinni heima, að mig minnir. Núna fylgist maður auðvitað mest með baráttunni við Covid.“

– Hvernig hefur faraldurinn komið við ykkur?

„Þetta hefur ekki verið svo slæmt hér, bara átta dáið í Ava. Maður heldur sig þó mest heima; hittir fáa sem engan og verslar á netinu. Bandaríkin eru að fara illa út úr faraldrinum og mér sýnist þjóðin skiptast nokkurn veginn í tvær fylkingar; annars vegar þá sem nota grímur, eru skynsamir og halda sig frá hópum og hins vegar þá sem halda því fram að þessar varúðarráðstafanir séu tómt rugl. Sjálf þekki ég fólk sem hélt þessu fram en er nú dáið úr Covid. Það er ótrúleg þrjóska. En vonandi fer þetta að lagast og lífið verður aftur normal. Ef það er þá eitthvað til sem telst normal.“

Þótti ekki mikið til eftirhermunnar koma

Það var Baldvin Nielsen, starfsmaður Rúmfatalagersins og grjótharður aðdáandi Elvis Presleys, sem vakti athygli Morgunblaðsins á Guðnýju Laxfoss og hvatti blaðið til að eiga við hana viðtal.

Það kom þannig til að Baldvin hitti Guðnýju heima hjá móður sinni, Eygló Kristjánsdóttur, þegar hún var hér í heimsókn síðasta haust en þær Guðný eru skóla- og fermingarsystur úr Keflavík. Baldvin var ekki fyrr kominn inn úr dyrunum en móðir hans bað Guðnýju að segja honum söguna af kynnum þeirra Elvis. Baldvin kveðst hafa fallið í stafi enda ekki kunnugt um að nokkur Íslendingur hefði kynnst Elvis persónulega. „Ég get rétt ímyndað mér að Guðný sé sú eina,“ segir Baldvin, sem tók samtal þeirra, einhverjar þrjátíu mínútur, upp á símann sinn.

Skýringin á því að Elvis barst í tal milli Guðnýjar og Eyglóar er sú að þriðja fermingarsystirin, Guðný Fisher, sem býr í Bandaríkjunum eins og nafna hennar, var með mynd af sér og einhverri Elvis-eftirhermu á facebooksíðu sinni um þær mundir. Guðnýju Laxfoss þótti að vonum ekkert sérlega mikið til þess koma!

Ekki svo að skilja að stöllurnar þrjár hafi ekki verið vanar rokkstjörnum en í fermingarárgangi þeirra í Keflavík voru bæði Gunnar Þórðarson og Rúnar Júlíusson.