Trump Aldrei líklegur.
Trump Aldrei líklegur. — AFP
Ef þú platar mig einu sinni, þá áttu að skammast þín. Ef þú platar mig tvisvar, þá er skömminni skilað. Skoðanakönnuðir og helstu fjölmiðlar Bandaríkjanna hafa enn eina ferðina leikið mig grátt.

Ef þú platar mig einu sinni, þá áttu að skammast þín. Ef þú platar mig tvisvar, þá er skömminni skilað.

Skoðanakönnuðir og helstu fjölmiðlar Bandaríkjanna hafa enn eina ferðina leikið mig grátt. Fyrir fjórum árum tókst sérfræðingum á CNN og víðar að sannfæra mig um að viðskiptasnillingurinn og sjónvarpsstjarnan Donald Trump ætti svo gott sem engan möguleika á að vinna sigur í forsetakosningum stóveldisins. Í raun stefndi í svo óspennandi kosningu að ég fór snemma að sofa þetta örlagaríka kvöld í nóvember 2016. Daginn eftir vaknaði ég upp við vondan draum, eða er mig kannski enn að dreyma?

Ekkert mál, bestu menn gera mistök og tíminn læknar flest sár. Nú fjórum árum síðar þarf ekki nokkur sála að hafa áhyggjur, síðast var þetta allt hundaheppni og Chris Cuomo og félagar birtast glaðhlakkalegir á skjánum til að segja okkur að nóttin sé á enda. „Núna er staða Trumps ekki bara vonlaus, hann mun tapa með enn stærri mun en við spáðum því að hann myndi tapa með síðast!“ sungu þeir í sjónvarpinu síðustu vikur. Hvað gerðist svo? Við nöguðum neglurnar og biðum í von og óvon eftir hverju töldu atkvæði, það hefði ekki getað verið mjórra á mununum!

Kristófer Kristjánsson