[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í núverandi samkomubanni hef ég nýtt mér það að hægt sé að panta bækur hjá Borgarbókasafninu og sækja á næsta safn. Frábær þjónusta sem sannarlega hjálpar gráðugum lesendum eins og mér að missa ekki vitið á þessum tímum.

Í núverandi samkomubanni hef ég nýtt mér það að hægt sé að panta bækur hjá Borgarbókasafninu og sækja á næsta safn. Frábær þjónusta sem sannarlega hjálpar gráðugum lesendum eins og mér að missa ekki vitið á þessum tímum. Ein bókasafnsbók sem ég kláraði nýlega er Sjálfstýring eftir Guðrúnu Brjánsdóttur – stutt en hjartnæm skáldsaga um afleiðingar ofbeldis á unga konu. Það getur verið erfitt að lesa svona bækur en er fullkomlega þess virði og ánægjulegt að sjá ungar kvenraddir brjótast fram í íslenskum bókmenntum með mikilvægar sögur eins og þessa.

Í samkomubanninu hef ég fundið fyrir þörf til að lesa notalegar bækur og finnst ekkert vont við að leyfa mér það – hvaða bækur eru „notalegar“ er mismunandi fyrir hvern og einn en bækurnar hennar Iris Murdoch eru það fyrir mig. Ég uppgötvaði hennar bækur fyrst á hillum tengdamömmu minnar og hafði svo gaman af The Sandcastle og The Flight from the Enchanter . Þær bækur eru femínískar en engu að síður ljúfar og fyndnar með þennan þurra húmor sem breskir rithöfundar eru þekktir fyrir. Hennar persónur eru vondar á svo mannlegan hátt að lesandinn getur ekkert annað en fundið til með þeim.

Ég fékk Karitas án titils eftir Kristínu Marju Baldursdóttur í afmælisgjöf fyrir nokkrum árum. Mjög vel valin gjöf sem ég er engu að síður fegin að hafa ekki lesið fyrr en nýlega, því ég er ekki viss um að íslenskan mín hafi verið nógu góð þá til að njóta hennar til fulls. Listakonur í dag geta fundið margt sameiginlegt með aðalpersónunni Karítas og þeim áskorunum sem hún upplifir, sem er kannski sorglegt að viðurkenna því sagan gerist í upphafi 20. aldar. Íslenskar bækur sem gerast í fortíðinni gefa mér innsýn í annars konar orðaforða og notkun á tungumálinu, eins og orðið „snoturt“ (sem mér finnst alls ekki endurspegla merkingu þess) eða að persónugera veðrið, t.d. „Hann fór að rigna“ – alltaf gott að hafa fleiri leiðir til að ræða veðrið á íslensku! Framhaldsbókin Óreiða á striga situr nú á náttborðinu.

Ég leyfi mér svo að panta bækur frá útlöndum sem ég finn ekki á Íslandi og þá mæli ég með Better World Books sem gefur eina bók fyrir hverja sem maður pantar og styður læsi víða um heim (og er ekki í eigu Amazon í þokkabót). Þaðan er ég nýbúin að panta Plucked: A History of Hair Removal eftir Rebeccu M. Herzig sem ég hlakka mikið til að lesa.