Elías Blöndal Guðjónsson
Elías Blöndal Guðjónsson
Eftir Elías Blöndal Guðjónsson: "Ráðherra getur lagt staðbundið bann við fiskeldi í einstaka fjörðum að fenginni umsögn tiltekinna stjórnsýslustofnana."

Í grein eftir Teit Björn Einarsson varaþingmann sem birtist í Morgunblaðinu 2. nóvember síðastliðinn er fjallað um fiskeldi á Íslandi. Í greininni lýsir varaþingmaðurinn eigin túlkun á lögum og reglum.

Varaþingmaðurinn heldur því fram að ráðherra hafi ekki heimild til þess að leggja staðbundið bann við fiskeldi í einstaka fjörðum ef ekki liggur fyrir burðarþolsmat og áhættumat erfðablöndunar. Þetta er beinlínis rangt. Ráðherra getur lagt staðbundið bann við fiskeldi í einstaka fjörðum að fenginni umsögn tiltekinna stjórnsýslustofnana. Það er ekki nauðsynlegt að burðarþolsmat og áhættumat erfðablöndunar liggi fyrir vegna viðkomandi svæða. Það er ekki ljóst á hverju varaþingmaðurinn byggir þessa fullyrðingu en a.m.k. er ljóst að hún byggist ekki á gildandi lögum um fiskeldi á Íslandi.

Varaþingmaðurinn heldur því fram að réttaráhrif auglýsingar nr. 460/2004 um friðunarsvæði séu engin. Jafnframt að auglýsingin víki fyrir „rétthærri fiskeldislögum“ og hafi enga þýðingu samkvæmt þeim. Þetta er rangt og ekki ljóst á hvers konar lögskýringu þetta álit varaþingmannsins, sem jafnframt titlar sig lögmann, er byggt. Auglýsingin er upphaflega sett samkvæmt heimild í þágildandi lögum um lax- og silungsveiði. Heimildin var svo flutt í lög um eldi vatnafiska áður en ný lög um fiskeldi voru sett árið 2008. Þar er heimildin nú nánast óbreytt. Gildi auglýsingarinnar frá 2004 er ótvírætt, lagaheimild hennar er enn í lögum. Þá er óljóst hvað varaþingmaðurinn á við með því að auglýsingin víki fyrir lögunum sem þó kveða beinlínis á um heimild ráðherra til þess að leggja staðbundið bann við fiskeldi í einstaka fjörðum. Varaþingmanninum hefur greinilega yfirsést eitthvað.

Þvert á vísindalega ráðgjöf

Vísindin, sem varaþingmanninum verður tíðrætt um í grein sinni, benda einmitt til þess að nálægð sjókvía við laxveiðiár sé einhver stærsti áhrifaþátturinn í áhættumati um erfðablöndun við villta íslenska laxastofna. Það er meðal annars þess vegna sem Hafrannsóknastofnun lagði nýverið til að sjókvíaeldi yrði ekki leyft innan við tiltekin mörk í Ísafjarðardjúpi.

Varaþingmanninum finnst á hinn bóginn eðlilegt að nú verði skoðað hvort ekki eigi að leyfa rekstur sjókvía í Steingrímsfirði og Þistilfirði, einungis í nokkurra tuga kílómetra fjarlægð frá einhverjum gjöfulustu og nafntoguðustu laxveiðiám landsins, til dæmis Miðfjarðará, Vatnsdalsá, Víðidalsá, Laxá á Ásum, Selá, Hofsá, Hafralónsá og Sandá, þvert á ráðgjöf vísindamanna.

Líklegt er að vísindalegar rannsóknir myndu leiða til ráðlegginga um að banna bæri fiskeldi í Eyjafirði vegna þess að það er nauðsynlegt til að vernda villta nytjastofna og hlífa þeim við sjúkdómum. Meira að segja Hafrannsóknastofnun og Fiskistofa styðja hugmyndir ráðherra um að friða Eyjafjörð fyrir fiskeldi. Þær vísindalegu niðurstöður eru varaþingmanninum ekki þóknanlegar.

Vísindaleg niðurstaða stjórnvalda gerir ráð fyrir því að erfðablöndun norskra eldislaxa við hina einstöku villtu laxastofna muni eiga sér stað. Það er óumdeilt. Er þá sjálfgefið að fara eigi eftir niðurstöðunni, bara vegna þess að hún er vísindaleg? Það skiptir máli hvaða forsendur eru lagðar til grundvallar. Forsendur sem stjórnvöld hafa hingað til lagt til grundvallar sinni vísindalegu nálgun byggjast á því að erfðablöndun muni eiga sér stað og að sjúkdómar berist í villta íslenska laxfiskastofna frá sjókvíaeldi. Þær byggjast á því að íslensk náttúra muni verða fyrir tjóni.

Hafa markmið náttúruverndarlaga að engu

Stundum gengur ráðgjöf vísindamanna og vísindaleg niðurstaða þeirra í berhögg við lög. Til dæmis er markmið náttúruverndarlaga afdráttarlaust. Þar segir að lögin eigi að tryggja að þróun íslenskrar náttúru fari fram á eigin forsendum. Þar segir líka að varðveita eigi erfðafræðilega fjölbreytni lífvera. Stjórnvöld hafa með sinni vísindalegu nálgun ákveðið að kasta þessum markmiðum náttúruverndarlaga fyrir róða. Þau hafa ákveðið að stefna megi villtum íslenskum laxastofnum í hættu. Hin vísindalega niðurstaða stjórnvalda gerir beinlínis ráð fyrir því að náttúran og villtir íslenskir laxastofnar verði fyrir tjóni af völdum norskra eldislaxa.

Ábyrgð þeirra sem vilja þrýsta sjókvíaeldi ennþá nær ósum helstu laxveiðiáa landsins er mikil. Þessi óumhverfisvænu fyrirtæki virðast ekki vita hvar á að láta staðar numið í aðför sinni að íslenskri náttúru. Þau hyggja nú á frekari landvinninga og varafulltrúi þeirra á Alþingi viðrar nú hugmyndir um að færa fiskeldið upp í ósa einhverra nafntoguðustu laxveiðiáa landsins í Húnaflóa og Þistilfirði.

Vísindin mega ekki bera náttúruna ofurliði. Öll umræða á vísindalegum forsendum er þó af hinu góða. En þá er mikilvægt að staðreyndum sé rétt haldið til haga. Grein varaþingmannsins er ekki í samræmi við staðreyndir málsins enda þar farið með rangt mál að því er varðar þau lög og reglur sem gilda um umfjöllunarefnið.

Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands veiðifélaga.