Spenntir Berlínarbúar bíða á Tegel eftir því að þýska landsliðið í fótbolta snúi heim eftir að hafa landað heimsmeistaratitli í Brasilíu 2014.
Spenntir Berlínarbúar bíða á Tegel eftir því að þýska landsliðið í fótbolta snúi heim eftir að hafa landað heimsmeistaratitli í Brasilíu 2014. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nýr flugvöllur var opnaður í Berlín fyrir rúmri viku eftir mikinn vandræðagang og margra ára töf. Sá gamli var löngu orðinn úreltur og allt of lítill til að þjóna hlutverki sínu, en verður þó kvaddur með söknuði.

Tegel-flugvelli í Berlín verður formlega lokað í dag, sunnudag, klukkan þrjú að staðartíma þegar flugvél Air France til Charles de Gaulle í París tekur á loft. Það er við hæfi að flugvélin sé frá franska flugfélaginu. Fyrsta flugið til Tegel var einmitt á vegum Air France snemma árs 1960, frá París til Berlínar með viðkomu í Frankfurt. Þá var Tegel í þeim hluta Berlínar, sem á kaldastríðsárunum var á valdi Frakka. Reyndar var það svo að fram að sameiningu Þýskalands árið 1990 máttu aðeins bandarísk, bresk og frönsk flugfélög fljúga áætlunarflug til Vestur-Berlínar.

Tegel-flugvöllur var hannaður til að taka á móti 2,5 milljónum farþega á ári, en rúmlega 20 milljónir farþega hafa farið þar um árlega undanfarin ár. Það hefur því verið þröng á þingi á flugvellinum, aðstæður erfiðar og best að segja sem minnst um salernisaðstöðuna.

Hönnun flugvallarins var þó að mörgu leyti til fyrirmyndar, einkum og sér í lagi vegna þess að stutt var frá landgangi út úr flugstöðvarbyggingunni, jafnvel bara nokkrir tugir metra. Þá var öryggisleit við hvert hlið og innritun þægileg.

Ætlunin var að loka Tegel árið 2012. Endalausar tafir við hinn nýja flugvöll urðu þó til þess að því var slegið á frest. Árið 2017 var efnt til kosningar borgarbúa um framtíð flugvallarins og greiddu þeir atkvæði með því að hann yrði notaður áfram. Borgaryfirvöld ákváðu engu að síður að honum yrði lokað á þessu ári. Borgarstjóri Berlínar, Michael Müller, var þó hryggur í bragði og sagði að Berlín kveddi Tegel með sorg í hjarta.

Tegel-flugvöllur var lagður á 90 dögum árið 1948 þegar lofbrúin var reist til að flytja vistir til Berlínar er Sovétmenn hugðust einangra hana.

Nítján þúsund almennir borgarar gengu í verkið ásamt bandamönnum til að það gengi hratt og vel. Aðalflugvöllur Vestur-Berlínar í Tempelhof var ekki nógu stór til þess að stærstu vélarnar gætu lent þar. Flugbrautin var 2.428 metrar, sú lengsta í Evrópu á þeim tíma. Fyrsta vélin lenti á Tegel-flugvelli 5. nóvember með átta tonn af osti um borð.

Sexhyrnd flughöfnin var reist á sjöunda áratugnum og tók við af Tempelhof sem aðalflugvöllur Vestur-Berlínar árið 1975.

Tempelhof var lokað 2008 og nú er þar almenningsgarður og fólk leikur sér á hjólum og hjólabrettum á flugbrautunum. Ráðgert er að íbúðabyggð komi í stað Tegel, sem er um hálftíma akstur frá miðborginni. Þar er gert ráð fyrir tíu þúsund íbúum, verslunum, skólum og leikskólum. Þá á Beuth-háskóli að fá aðstöðu í gömlu flugstöðvarbyggingunni.