Klárar Sprett úr spori á þjóðveginum sem skapar bæði vandamál og hættu.
Klárar Sprett úr spori á þjóðveginum sem skapar bæði vandamál og hættu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Siguður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Fyrir íbúa, vegfarendur og okkur sem störfum í framlínu sveitarfélagsins eru aðstæður nú hálfgerður höfuðverkur. Lausaganga hrossa er ekki vandamál hér í sveit nema í undantekningartilfellum,“ segir Kristófer Tómasson, sveitarstjóri í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Sveitarstjórn þar lýsti á síðasta fundi sínum þungum áhyggjum af lausagönguhrossum sem undanfarið hafa gjarna verið á og við Þjórsárdaldsveg, á móts við afleggjarann að bæjunum Minna-Núpi og Stóra-Núpi.

Siguður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Fyrir íbúa, vegfarendur og okkur sem störfum í framlínu sveitarfélagsins eru aðstæður nú hálfgerður höfuðverkur. Lausaganga hrossa er ekki vandamál hér í sveit nema í undantekningartilfellum,“ segir Kristófer Tómasson, sveitarstjóri í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Sveitarstjórn þar lýsti á síðasta fundi sínum þungum áhyggjum af lausagönguhrossum sem undanfarið hafa gjarna verið á og við Þjórsárdaldsveg, á móts við afleggjarann að bæjunum Minna-Núpi og Stóra-Núpi.

Hrossin hafa sloppið úr girðingum ítrekað og ekki hefur tekist að hafa upp á meintum eigenda þeirra, en hans skylda væri að gera úrbætur. „Beitiland er í knappara lagi og girðingar lélegar. Hrossin eru ekki í það slæmu ástandi að Matvælastofnun skipti sér af þeim. Girðingarnar eru lélegar en ekki svo að Vegagerðin hafi afskipti af málinu. Það er hálftíma akstur fyrir lögreglu að koma á staðinn. Þetta veit fólk og því hafa vegfarendur og nágrannar oftar en ekki lagt sig í hættu við að koma hrossunum af veginum. Fram til þessa hefur ekki verið ástæða til að banna lausagöngu búfjár í sveitarfélaginu en nú virðist þörf á því,“ segir Kristófer.

Á veginum í skammdegi

Mikil slysahætta stafar af hrossastóðinu, að sögn Kristófers. Málum er þannig háttað að þegar ekið er til suðurs og vesturs fram umræddan veg innan úr Þjórsárdal er komið að blindhæð rétt áður en komið er að fyrrgreindum afleggjara að Núpsbæjunum. Séu hrossin á veginum hafi ökumenn lítinn sem engan fyrirvara til að bregðast við, beygja frá eða stöðva bílinn. Ekki er þá gert lítið úr hættunni sem er til staðar þegar ekið er úr hinni áttinni „Sérstaklega er þetta bagalegt núna þegar svartasta skammdegið með öllum sínum veðrabrigðum hellist yfir,“ segir sveitarstjórinn. Hefur sveitarstjórn falið honum og Björgvin Skapta Björgvinssyni oddvita að hafa upp á eigandanum og koma skikki á málið.

„Oft fylgja svona málum lagaflækjur og leiðin að markinu er alls ekki einföld sé ekki vilji eigenda búpenings til staðar,“ segir Kristófer.

Vandi í Rangárþingi eystra

Mál af svipuðum toga og í Skeiða- og Gnúpverjahreppi eru í deiglu í Rangárþingi eystra. Þar telur samgöngu- og umferðarnefnd að vegna aukins umferðarþunga og hættu verði ekki hjá því komist að setja á bann við lausagöngu í sveitarfélaginu, sem nær m.a. yfir Fljótshlíð, Landeyjar og Eyjafjöll. Er skorað á sveitarstjórn að koma þessu banni á, en jafnframt leysa úr álitaefnum um bótaskyldu og viðhald girðinga.