Fær aldrei leiða Tinna við uppáhaldsiðju sína, að prjóna eina flíkina enn.
Fær aldrei leiða Tinna við uppáhaldsiðju sína, að prjóna eina flíkina enn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tinna Laufdal býr í Danmörku en hún ætlar að bjóða fólki að læra að prjóna á netinu, eða rifja upp gamla takta, og skella í húfu eða peysu. Eftirspurn eftir barnafatnaði sem Tinna prjónaði og heklaði sjálf á dóttur sína varð svo mikil á sínum tíma að hún opnaði vefverslunina Tiny Viking.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Ég var ekki nema sex ára þegar ég byrjaði að prjóna og hef ekki stoppað síðan. Ég hafði góðar fyrirmyndir því mamma og amma hafa báðar prjónað mikið alla tíð. Ég elska reyndar alla handavinnu og ég menntaði mig á áhugasviðinu, ég er menntaður textílkennari og fatahönnuður. Ég kenndi í skólum í Noregi og í einum þeirra var ég yfir handavinnudeildinni. Mér finnst frábærlega gaman að kenna öðrum að prjóna,“ segir Tinna Laufdal sem býr núna í Árósum í Danmörku ásamt manni sínum og ungri dóttur, en hún ætlar að fara af stað með prjónanámskeið á netinu nk. mánudag. „Þetta er ætlað fólki á öllum aldri en það er sniðið að byrjendum, þótt það nýtist líka þeim sem kunna grunn í prjóni en hafa kannski aldrei prjónað peysu. Á námskeiðinu lærir fólk að prjóna húfu og peysu, barna eða fullorðins. Með þessum hætti getur fólk lært að prjóna þar sem það situr heima hjá sér. Auk þess styttist í jólin og það er gaman að prjóna til að gefa í jólagjöf. Svo er líka umhverfisvænt að búa sjálfur til sín klæði.“

Tinna segir að margir hafi leitað til hennar í gegnum árin, fólk á öllum aldri sem hefur þurft leiðbeiningu í prjóni eða hekli. „Ég veit ekki hversu mörgum klukkutímum ég hef varið á myndspjalli á facebook við að leiðbeina fólki sem hefur vantað hjálp, fjölskyldu og vinum, en líka vinum vina minna. Ég nýt þess, ég tek það fram, en þegar ég var farin að taka upp myndbönd og senda fólki til að sýna því hvernig ætti að gera sá ég að þetta væri snilldarleið til að kenna fólki að prjóna.“ Tinna segir að þetta sé fimm vikna námskeið þar sem hver og einn geti farið á sínum hraða. „Við reynum samt að halda hópinn á þessum fimm vikum og vera nokkurn veginn samferða. Námskeiðið inniheldur 30 leiðbeiningamyndbönd en ég býð auk þess öllum upp á klukkustundar langt myndsamtal einu sinni í viku í þessar fimm vikur. Þess á milli geta þeir sem eru á námskeiðinu varpað fram spurningum til mín á lokuðum facebookhópi svo fólk sé aldrei stopp í sínu verkefni. Í lok námskeiðs verða svo allir búnir að prjóna húfu og peysu á sig eða sína.“

Námskeiðið er á vegum vefverslunar Tinnu, Tiny Viking, sem er barnavöruverslun. „Þar seldi ég upphaflega barnafatnað sem ég prjónaði og heklaði sjálf. Allt byrjaði það á rauðum kraga sem ég heklaði á dóttur mína, Viktoríu Lind, en eftirspurn eftir honum og öðru sem ég gerði í höndunum á hana varð svo mikil að ég ákvað að opna vefverslun. Kraginn var áður í sölu hjá okkur en síðar gaf ég uppskrift að honum með myndbandi,“ segir Tinna og bætir við að hún hafi ekki haft undan í prjónaskapnum og því láti hún núna framleiða fyrir sig þær vörur sem eru til sölu á Tiny Viking.

„Þar sem Tiny Viking er barnavöruverslun hugsaði ég þetta prjónanámskeið fyrst fyrir mæður sem væru heima hjá sér með lítil börn og kæmust lítið frá. En ég áttaði mig á að miklu fleiri en eingöngu mæður ungra barna langar að læra að prjóna, í mig hringja til dæmis 19 ára unglingar sem þurfa leiðbeiningu með að prjóna peysu á sjálfa sig.“ Tinna var nýlega með prufunámskeið og prjónanámskeið til að sjá hvort allt virkaði, hverju þyrfti að breyta eða bæta.

„Þetta ætti því að vera alveg smurt þegar þetta fer af stað á mánudaginn. Ég ætla að vera með annað prjónanámskeið í janúar, því eftirspurnin er mikil. Mig langar líka að vera með saumanámskeið, heklunámskeið og alls konar. Þetta á eftir að vinda upp á sig.“

Þeir sem hafa áhuga á að fara á námskeiðið sem hefst nk. mánudag 9. nóvember geta skráð sig á heimasíðu vefverslunar Tinnu: tinyviking.net.