Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Framan á gildvöxnu Gunnu. Gjarnan á katli og tunnu. Nafni því kalla má kúna. Kynni ég hljóðfæri núna. Eysteinn Pétursson svarar: Svera Gunna bumbu ber. Bumba á tunnu og katli er. Bumba gild má kallast...

Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Framan á gildvöxnu Gunnu.

Gjarnan á katli og tunnu.

Nafni því kalla má kúna.

Kynni ég hljóðfæri núna.

Eysteinn Pétursson svarar:

Svera Gunna bumbu ber.

Bumba á tunnu og katli er.

Bumba gild má kallast kýr.

Kom frá bumbu ómur skýr.

Helgi R. Einarsson á þessa lausn:

Bústin er bumban á Gunnu.

Bumba' er á katli og tunnu.

Hún er og heiti á kú

og hljóðfæri. Það 'eld ég nú.

Guðrún B. leysir gátuna svona:

Bumban á gildvöxnu Gunnu

greitt rekst í bumbu á tunnu.

Þó Bumbu á básnum hún styggi,

bumburnar slær líkt og Siggi.

Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna þannig:

Blasir við bumban á Gunnu.

Bumba á katli og tunnu.

Bumbu svo kalla má kúna.

Kliða læt bumbuna núna.

Síðan er limra:

Benóný borðaði mikið

og bumban tróðst út fyrir vikið.

Þegar hann sat

að sínum mat,

þá setti hann trog undir spikið.

Og loks ný gáta eftir Guðmund:

Dagur rís í austurátt,

öðlast líf að nýju mátt,

senn á himni sólin skín,

og svo er hérna gáta fín:

Daufur hann í dálkinn er.

Dugar vel til styrktar þér.

Felling er á segli sá.

Síðan mishæð landi á.

Þessi limra, „Fjölskylduþankar“, fylgdi lausn Helga R. Einarssonar:

Gott er að vera góður

og gæta síns minnsta bróður

og yfirleitt þótt

löngum mjög ljótt

að lúberja sína móður.

Gamall húsgangur í lokin:

Ég vildi að ég ætti mér hest og hey,

heita sæng og væna mey,

mjólk að drekka mína lyst,

myndi ég ekki kvíða fyrst.

Halldór Blöndal

halldorblondal@siment.is