Huawei Sweden AB gerir alvarlegar athugasemdir við frumvarp til fjarskiptalaga sem er til meðferðar á Alþingi. ADVEL lögmenn hafa sent umsögn fyrir hönd svæðisskrifstofu kínverska tæknirisans í Svíþjóð til umhverfis- og samgöngunefndar.

Huawei Sweden AB gerir alvarlegar athugasemdir við frumvarp til fjarskiptalaga sem er til meðferðar á Alþingi. ADVEL lögmenn hafa sent umsögn fyrir hönd svæðisskrifstofu kínverska tæknirisans í Svíþjóð til umhverfis- og samgöngunefndar. Bent er á að enn sé gert ráð fyrir að ráðherra geti með reglugerð útilokað búnað framleiðenda frá ríkjum sem standa utan öryggissamstarfs Íslands eða Evrópska efnahagssvæðisins. Ekki sé gert ráð fyrir aðkomu sérfróðra aðila eða hagsmunaaðila, eins og fjarskiptafyrirtækja, að því að skilgreina hvað teljist vera viðkvæmur hluti farnets eða framkvæmd eiginlegs öryggismats.

Einkum tveir framleiðendur búnaðar þjónusti íslensk fjarskiptafyrirtæki, þ.e. Huawai og Ericson. „Ef annar þessara framleiðenda væri útilokaður frá íslenskum markaði myndi það leiða til þess að hinn framleiðandinn öðlaðist í raun einokunarstöðu á markaði. Ekki þarf að fjölyrða um hvaða afleiðingar það gæti haft á kostnað íslenskra fjarskiptafyrirtækja og þannig neytenda í landinu. Að sama skapi kunna slíkar ákvarðanir að fela í sér alvarleg áhrif á samkeppnisstöðu einstakra fyrirtækja á íslenskum fjarskiptamarkaði.“

Gagnrýnt er að gert sé ráð fyrir að umsögn ráðherra sem fara með utanríkis- og varnarmál, almannavarnir og löggæslu verði undanþegin upplýsingarétti almennings. Enga umfjöllun sé að finna um hvernig ákvæðið samrýmist íslenskri réttarskipan og réttindum borgaranna eða hvernig meta eigi öryggishagsmuni. „Verður að setja spurningarmerki við hvort svo viðamikil takmörkun á almennum réttindum borgara eða aðila máls samræmist hugmyndum um réttaröryggi og lýðræði.“ omfr@mbl.is