Veiðimenn Þorkell Harðarson og Örn Marinó Arnarson.
Veiðimenn Þorkell Harðarson og Örn Marinó Arnarson. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Gamanmyndin Síðasta veiðiferðin verður endurgerð í Rúmeníu og segir annar handritshöfunda og leikstjóra myndarinnar, Örn Marinó Arnarson, að undirbúningur sé langt á veg kominn og að tökur muni að öllum líkindum hefjast í þessum mánuði, stefnt að 19.

Gamanmyndin Síðasta veiðiferðin verður endurgerð í Rúmeníu og segir annar handritshöfunda og leikstjóra myndarinnar, Örn Marinó Arnarson, að undirbúningur sé langt á veg kominn og að tökur muni að öllum líkindum hefjast í þessum mánuði, stefnt að 19. nóvember. Örn og Þorkell Harðason gerðu myndina saman og skrifuðu þeir undir samning við rúmenska framleiðslufyrirtækið Midnight Sun Film í september um endurgerðina. Meðal þeirra sem reka Midnight Sun Film er Pétur Sigurðsson. Leikstjóri myndarinnar verður Valeriu Andriuta, þekktur leikari í heimalandi sínu, og leikarar myndarinnar eru einnig þekktir í Rúmeníu, þeirra á meðal Serban Pavlu, Adrian Titieni og Adrian Paduraru, að því er fram kemur á vefnum Klapptré og Örn Marinó vísar í.

Spurður hvort til standi að endurgera myndina í fleiri löndum segir Örn Marinó að jú, nokkur svæði séu til skoðunar og viðræður „á lokametrunum“. Rúmenska endurgerðin sé aftur á móti komin vel af stað og verið að púsla hlutunum saman. „Covid er náttúrlega að þvælast eitthvað fyrir þeim líka, meiri lokanir þar, en þeir ætla að reyna að koma sér niður eftir á tökuslóðir og vera þar í vinnusóttkví og taka upp bíómynd,“ segir Örn Marinó en tökustaður er óseyri Dónár við Svartahaf.

Sýnd í Noregi

Fleiri endurgerðir eru í pípunum, sem fyrr segir, í Þýskalandi, Bandaríkjunum og í Skandinavíu, að sögn Arnar Marinós og eru söluaðili og umboðsmaður að vinna í þessum málum fyrir þá Þorkel. Búið er að selja Síðustu veiðiferðina til dreifingar í Noregi þar sem hún verður sýnd í kvikmyndahúsum og segir Örn Marinó að átt hafi að sýna myndina fyrir jól en sýningum hafi verið frestað vegna farsóttarinnar og líklega hefjist þær eftir áramót. Rúmenska endurgerðin verður að öllum líkindum frumsýnd á vormánuðum, ef Covid-19 leyfir.

helgisnaer@mbl.is