[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Þingmenn höfðu hraðar hendur í vikunni og afgreiddu frumvarpið um tekjufallsstyrki sem lög með 48 samhljóða atkvæðum.

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Þingmenn höfðu hraðar hendur í vikunni og afgreiddu frumvarpið um tekjufallsstyrki sem lög með 48 samhljóða atkvæðum. Efnahags- og viðskiptanefnd lagði til verulegar breytingar á frumvarpinu fyrr í vikunni þar sem skilyrði til að fá styrkina voru útvíkkuð og voru lögin samþykkt með þeim breytingum.

Styrkjunum er fyrst og fremst ætlað að bæta einstaklingum og litlum fyrirtækjum í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi upp tekjutapið sem þeir hafa orðið fyrir í veirufaraldrinum frá í vor til 31. október. Er talið að einyrkjar og fyrirtæki í ferðaþjónustu og menningargreinum muni einkum njóta góðs af tekjufallsstyrkjunum.

Fjármálaráðuneytið hefur lagt mat á hversu margir muni líklega uppfylla skilyrðin til að fá styrki og hvað það muni kosta ríkissjóð. Heildarkostnaðurinn er áætlaður að hámarki 23,3 milljarðar.

14,5 milljarðar vegna mögulegra umsókna í ferðaþjónustu

Á minnisblaði til þingsins kemur fram að mesta lækkun á virðisaukaskattskyldri veltu milli ára hefur orðið hjá ferðaskrifstofum, ferðaskipuleggjendum og annarri bókunarþjónustu (-84%), fyrirtækjum í rekstri gististaða (-69%), í flutningi með flugi (-63%),

einstaklingum og fyrirtækjum starfandi í menningarstarfsemi, fjárhættu- og veðmálastarfsemi (-53%) og atvinnumiðlun (-41%).

Hvað ferðaþjónustuna varðar telur ráðuneytið að ef miðað sé við að öll fyrirtæki sem uppfylla skilyrði um tekjufall sæki um úrræðið og fái hámark tekjufallsstyrksins miðað við fjölda stöðugilda á árinu 2019 sé áætlað að úrræðið gæti kostað ríkissjóð allt að 14,5 milljarða kr. vegna ferðaþjónustunnar einnar.

Auk þess er talið að greiðslur til einyrkja í ferðaþjónustu verði að hámarki 300 milljónir kr. ef tekið er mið af rekstrarkostnaði þeirra í fyrra.

Í mati á þörfinni í listum og annarri menningarstarfsemi kemur fram að skv. upplýsingum Skattsins voru alls 1.964 einyrkjar og 715 fyrirtæki starfandi í menningargreinum í fyrra. Könnun sem BHM lét gera leiddi í ljós að 79% einstaklinga í lista- og menningargreinum hafa orðið fyrir tekjufalli og helmingur þeirra taldi tekjusamdráttinn vera a.m.k. 50%. Skv. lögunum þurfa einstaklingar og fyrirtæki að hafa orðið fyrir a.m.k. 40% tekjufalli á sjö mánaða tímabili frá apríl sl. til októberloka til að eiga rétt á tekjufallsstyrk. Tekjufallið miðast þá við meðaltekjur hans á sjö mánaða tímabili í fyrra.

Fjármálaráðuneytið áætlar núna að einyrkjar í listum muni fá greidda tæplega 2,5 milljarða kr. í tekjufallsstyrki samkvæmt nýju lögunum og fyrirtæki í menningarstarfsemi fái 5,8 milljarða.

2.679 einstaklingar og fyrirtæki sem starfa í lista- og menningargreinum gætu því ef allir uppfylla skilyrðin fengið samtals 8,3 milljarða af þeim 23,3 milljörðum sem áætlað er að þessar stuðningsaðgerðir kosti ríkissjóð.

Þeir sem starfa í öðrum greinum en menningu, listum og ferðaþjónustu gætu einnig átt rétt á styrkveitingum. Að mati ráðuneytisins og byggt á gögnum Skattsins gætu 41 einyrki og 113 fyrirtæki átt rétt á að sækja um styrkina sem myndu kosta allt að 1,65 milljarða ef allir sækja um og eiga rétt á þeim.

Ef umsækjendur um styrkina hafa hins vegar líka fengið lokunarstyrk, greiðslu launa á uppsagnarfresti og hlutabætur lækkar styrkfjárhæðin sem þeir eiga rétt á.

Tekjufallið oft yfir 70%

Vð mat fjármálaráðuneytisins á því hversu mörg fyrirtæki í ferðaþjónustu gætu átt rétt á úrræðinu sem lögin um tekjufallsstyrki kveða á um kemur fram að samkvæmt gagnagrunni KPMG, sem byggist á upplýsingum úr ársreikningum, uppfylla 1.523 fyrirtæki skilyrði um veltu og fjölda launamanna. Á minnisblaði ráðuneytisins er bent á að veltusamdrátturinn milli ára sé breytilegur og dæmi séu um veitingastaði á Suðvesturlandi sem hafa orðið fyrir minna en 40% tekjufalli en veitingastaðir úti á landi sem stóluðu meira á erlenda eftirspurn hafi orðið fyrir meira en 70% tekjufalli.

Starfandi hefur fækkað um tæp 12 þúsund

Samkvæmt gögnum Hagstofunnar voru 26.392 einstaklingar við störf í einkennandi greinum ferðaþjónustu í lok árs 2019 en á þriðja ársfjórðungi yfirstandandi árs hafði þeim fækkað í 14.551. Á sama tíma fækkaði launagreiðendum úr 2.037 í 1.779.