Saumastofa Anna Guðný Helgadóttir og Svava Daðadóttir reka Litlu saumastofuna við Brekkugötu á Akureyri. Þær hafa verið önnum kafnar við að sauma grímur eftir að sóttvarnaaðgerðir voru hertar hér á landi.
Saumastofa Anna Guðný Helgadóttir og Svava Daðadóttir reka Litlu saumastofuna við Brekkugötu á Akureyri. Þær hafa verið önnum kafnar við að sauma grímur eftir að sóttvarnaaðgerðir voru hertar hér á landi. — Morgunblaðið/Margrét Þóra
Margrét Þóra Þórsdóttir Akureyri Það varð algjör sprenging um helgina, við létum vita af því á föstudagskvöldið að hjá okkur væri hægt að kaupa andlitsgrímur og það bókstaflega rigndi inn pöntunum,“ segja þær Anna Guðný Helgadóttir og Svava...

Margrét Þóra Þórsdóttir

Akureyri

Það varð algjör sprenging um helgina, við létum vita af því á föstudagskvöldið að hjá okkur væri hægt að kaupa andlitsgrímur og það bókstaflega rigndi inn pöntunum,“ segja þær Anna Guðný Helgadóttir og Svava Daðadóttir sem eiga og reka Litlu saumastofuna við Brekkugötu 9 á Akureyri. Þær hafa rekið fyrirtækið undanfarin sex ár og hafa í nógu að snúast alla daga.

„Við höfum aðeins þurft að vanrækja okkar föstu viðskiptavini þessa viku og þeir hafa sýnt því skilning. Við settum grímusauminn í forgang enda fengum við alveg óskaplega mikið af pöntunum, eiginlega miklu fleiri en við áttum von á þegar við ákváðum að fara út í þetta. Viðtökurnar fóru fram úr björtustu vonum,“ segja þær stöllur.

Áður höfðu þær saumað grímur fyrir sig sjálfar, ættingja og vini. Þegar hertar sóttvarnareglur vegna kórónuveirunnar tóku gildi um liðna helgi var sett á öflugri grímuskylda sem m.a. náði til barna og ungmenna í grunnskólum.

Sauma frá sjö til sjö

Þær Anna og Svava nýttu laugardaginn síðasta í að leita að og útvega efni sem hentaði í grímur og segja það hafa tekist vonum framar að finna viðurkennt efni. Það kom m.a. af höfuðborgarsvæðinu og víðar. Á sunnudeginum settust þær við saumaskapinn og unnu af kappi við grímusauminn og hið sama má segja um alla vikuna; unnið var á Litlu saumastofunni frá klukkan sjö á morgnana til 19 á kvöldin. Ættingjar og vinir hafa lagt hönd á plóg og tekið að sér afgreiðslu pantana, svarað í síma og sinnt tilfallandi verkefnum svo þær geti einbeitt sér að saumaskapnum. „Það er ómetanlegt að fá slíka aðstoð,“ segja þær.

„Þetta hefur verið mikil törn, en við erum um það bil að ná utan um þetta, afgreiðslutíminn er ekki langur. Við náum samt enn ekki að sauma neitt á lager, erum bara enn á fullu við að vinna upp í pantanir,“ segja Anna og Svava. Þær benda á að það sé meira mál en margir halda að sauma eina grímu. „Þetta er heilmikið púsl og mörg handtökin við hverja grímu.“

Fólk víða að af landinu hefur pantað sér grímu hjá Litlu saumastofunni, bæði frá nágrannasveitarfélögum og líka höfuðborgarsvæðinu.

Þær bjóða upp á grímur í ýmsum litum en segja að svartar njóti af einhverjum ástæðum mestra vinsælda, einkum meðal ungmenna. „Krökkum þykir mikið sport að eiga grímu og jafnvel þau yngri, sem ekki ber skylda til að vera með grímu, vilja eignast eina eins og eldri krakkarnir.“

Fjölbreytt starfsemi

Anna er handmenntakennari og lærði í Skals á Jótlandi í Danmörku, Svava starfaði um 17 ára skeið á saumastofu JMJ á Akureyri og hefur miklar reynslu af fatasaumi og -breytingum. Báðar hafa þær mikinn áhuga fyrir saumaskap og handverki. Í hópi viðskiptavina eru einstaklingar sem láta gera við fatnað sinn eða breyta honum, þá sinna þær fatabreytingum fyrir verslanir á Akureyri og lagfæra fatnað fyrir mörg fyrirtæki í bænum, m.a. þar sem starfsfólk gengur í einkennisfatnaði eða er í sérstökum fatnaði við störf sín.

Boðið er upp á gluggatjaldasaum, milliverk sett í rúmföt og þá sjá þær um frágang á margs konar handavinnu. „Þetta er mjög fjölbreytt hjá okkur og margir fastir og góðir viðskiptavinir. Það er gaman hjá okkur í vinnunni alla daga,“ segja þær.